05.04.1943
Efri deild: 88. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2762)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. — Það er rétt, sem hv. þm. Barð. hefur sagt, að umr. um þetta mál hafa orðið langar, og þakkast þolinmæði þeirra, sem lagt hafa á sig að hlusta, en eru fáorðir sjálfir. Ég stend upp af því, að mér fannst hálfgerðar sakir vera bornar á mig af hv. 7. landsk. um, að ég hefði með samningagerð svíkið þann félagsskap, sem ég var meðlimur í.

Þegar ég afsannaði það, sagði hann, að ég hefði lagt á móti styrkjum til Fornritafélagsins. Aðrir, sem hafa unnið með mér, geta borið á móti því. Ég hef þvert á móti reynt að styðja, að það fái sem mesta styrki. Þetta verð ég að leggja fram. Ég get ekki unað því, að borið sé upp á mig, að ég sé að gera ,trafala og ég sitji á svikráðum við þá, sem ég er skuldbundinn að styðja.

Ég verð að segja, að mér nærri því kom á óvart sú umsögn hv. 1. þm. Reykv. um hv. 7. landsk., að það væri hann, sem ætti að vera bókmenntaljósið hér í hv. d. og hann legði meira upp úr því, sem hann segði, en allir hinir. Hann sagði, að hann hefði svo mikla æfingu í að lesa handrit. Ég efast um, að hann sé nokkuð betri við það en aðrir. Það er vafasamt, ef hann og hv. 1. þm. Reykv. færu í samkeppni, að hann bæri sigur úr býtum. Hann var að tala um, að það væri engin goðgá, þótt stytt væri eða breytt útgáfum Íslendingasagna. Það hefði meira að segja átt sér stað með biblíuna. Kannske hann vilji, að Halldór Kiljan Laxness sé fenginn til að gera nýja útgáfu af biblíunni, sem hann gæti svo haft til kennslu í guðfræðideild háskólans. Og nú. á að byrja á Njálu. Honum þótti hart, að við værum að tala um þetta sem héraðssögu. Þetta væri orðið eign alls heimsins. Það er nokkuð til í því, að almenningur út um heim hefur aðgang að því að lesa Íslendingasögurnar, en sögurnar eru samt bundnar meira eða minna við héraðið sjálft. Þeir, sem vilja skilja þær bezt, ferðast um héruðin, þar sem sögurnar hafa gerzt, til þess að kynnast öllum staðháttum. Og fyrst og fremst er það héraðið, sem á að hafa áhuga fyrir sinni sögu. Það var fyrirboði þess, sem kom á eftir frá hv. 1. þm. Reykv., þegar hv. flm. var að tala um það; að hér sætum við eins og í tossabekk, en hann væri sá eini, sem eitthvað vissi. En það ber ekki vott um neinn sérstakan skilning eða ást á bókmenntum, að Mann skuli standa með því, að gefnar séu út brenglaðar og aflagaðar útgáfur af Íslendingasögunum. — Ég hef svo ekki þessi orð fleiri. Það var aðallega það, sem ég vildi taka fram, að ég hef ekki brugðizt þeim félagsskap, sem ég átti að styðja.