28.01.1943
Efri deild: 43. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (2781)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Eiríkur Einarsson:

Brtt. varðandi þetta mál, sem lá fyrir, þegar það var síðast til umr., var frestað þar til nú, og með tilliti til þess bjóst ég við, að þessi brtt. og aðrar yrðu athugaðar í landbn., sem málinu var vísað til. Um þá athugun er það að segja, að menn munu telja sig hafa óbundnar hendur um atkv. viðvíkjandi þessari brtt. frá tveim hv. dm. og skrifl. brtt. frá mér, sem ég hef að vísu ekki lýst enn þá, en hef hins vegar rætt við n. Ég hafði orð á því, áður en frv. um orlof var hér til umr., — en þetta frv. er í raun og veru skilgetið afkvæmi þess —, að sanngjarnt væri, að sveitafólk nyti fríðinda, er svöruðu til orlofs, en sú hugnun, er því væri sýnd, vær í þó ekki um of einskorðuð við styrk til að fara í kynnisferðir og reiðferðir.

Þeim, sem hafa alið aldur sinn í sveitum, er það kunnugt, að fólkið fer oft í lengri eða skemmri útreiðir á vor in og sumrin. Ég tel, að flestir muni treysta sér til að kosta þessar ferðir sínar sjálfir, en vegna fátæktar ýmissa mun þó koma sér vel að geta farið í slíkar ferðir með einhverjum tilstyrk annars staðar að. Ég er því hlynntur þessu máli. En ég var ekki viss um, að alls staðar sé svo, að fólkinu geðjist vel að því að fara endilega út fyrir sveitina og að það þurfi að vera ákveðinn fjöldi, sem fer saman.

Þetta frv. er aðeins drög til þess, sem verða ætti, en það er þó spor í ákveðna átt. En það væri æskilegt, að fólkið fengi aukinn ákvörðunarrétt um það, hvernig það notaði styrkinn. Annars vil ég láta brtt. mína, sem ég flyt hér skriflega, sýna hug minn í þessu efni. Vil ég nú lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 1. gr. kemur ný grein, sem verður 2. gr., svo hljóðandi (og breytist greinatalan samkvæmt því):

Heimilt er hreppsfélögum að kveða svo á með sveitarsamþykktum, að styrk þeim, sem veittur er í hreppinn samkvæmt lögum þessum fyrir eitt ár eða fleiri í senn, skuli varið til fjárhagshjálpar efnilegu ungu fólki úr sveitinni, því til menningarauka innan lands eða utan. Ákveður hreppsn., hverjir verði styrks þess aðnjótandi“.

Sá andi mun víða ríkjandi í sveitum, að fólkið vill sjálft kosta útreiðir sínar að sumarlagi, en óskar hins vegar heldur að verða aðnjótandi nokkurrar aðhlynningar að æskunni í sveitunum af hálfu hins opinbera. Tel ég því rétt, að löggjöfunum sé gefin nokkur bending um, að hve miklu leyti þetta megi verða. Ég efast ekki um, að hvort sem brtt. mín nær fram að ganga eða ekki, þá sé rétt, að hún komi fram, því að hún felur í sér atriði, sem mun fá hljómgrunn einhvers staðar. Það má segja, að styrkur sá, er þannig kemur til úthlutunar, sé varla svo hár, að hann nægi til þess að styrkja ungan mann eða stúlku, sem væru að því komin að reisa bú, til utanfarar. En í frv. er gert ráð fyrir, að a.m.k. 10 kr. styrkur komi á hvert heimili árlega. Ef við tökum svo meðalsveit, sem mun hafa um 30 búendur, og gerum ráð fyrir, að aðeins einn slíkur styrkur væri veittur annað hvert ár, þá eru þar komnar 600 kr. í þessu sveitarfélagi, og þær mundu draga talsvert, og einkum ef einhver styrkur kæmi einnig annar s. staðar að. Þá mætti víkka sjóndeildarhring viðkomanda allverulega.

Ég skal ekki tefja tímann miklu meira með þessu, en ég vil geta þess, að þetta barst í tal í landbn., og var þá rætt um, hvort rétt mundi að einskorða slíkan styrk við sveitarfélögin og hvort ekki mundi eðlilegra, að búnaðarsamböndin hefðu þetta með höndum. Ég legg enga höfuðáherzlu á þetta, en ég tel, að bezt yfirlit fáist með því að hafa ekki stærri svæði en hreppsfélögin. Það er jafnan hver sínum hnútum kunnugastur, og næst heimilunum mun óhætt að segja, að hreppsfélögin kunni skil á því, hvað bezt hentar á hverjum stað. Ég mun þó ekki amast við brtt. um þetta í þá átt að fela heldur búnaðarsamböndunum úthlutun styrkjanna, ef menn telja það almennt heppilegra.

Ég gæti talað mun meira um þetta, en ég sé, að hæstv. forseti er farinn að verða órór í skinninu vegna embættissamvizku sinnar, en það mun vera komið fram yfir þann tíma, sem fundur átti að hef jast í Sþ. Ég læt því útrætt um málið að sinni, en mun veita andsvör, ef tilefni gefst.