25.02.1943
Neðri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2812)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég get tekið undir margt af því, sem var fram flutt í hinni fallegu ræðu fyrir minni kvenna, sem hv. 2. þm. Reykv. flutti hér í d. Og ég skal viðurkenna það með honum, að það eru víst fáar stéttir í þessu þjóðfélagi, sem eiga það frekar skilið heldur en húsmæðurnar og frekar rétt á því, að greitt sé fyrir því, að þær fái ofurlítið meira frjálsræði en þær hafa og aðstöðu til þess að létta sér upp nokkra daga af árinu úr því mikla erfiði, sem þær standa í dag frá degi. En ég hafði skilið orlofsfrv. þannig, að það væri ekki aðeins gert fyrir karlmenn, heldur ættu eiginkonur þeirra að njóta þess líka, þannig að annaðhvort færu þær með þeim í þessar ferðir eða þær fengju einhvern hluta af fénu sjálfar, ef þær geta ekki farið með þeim.

Hvað viðvíkur þessu frv., sem hér liggur fyrir, þá er vissulega tilgangurinn, að það fé, sem með þessu frv. er gert ráð fyrir að veita til kynnisferða sveitafólks, fari ekki síður til húsmæðranna í sveitum heldur en til karla, annaðhvort á þann hátt, að þær taki ásamt bændum sínum þátt í hópferðum eða verði styrktar til sérstakra ferða. Og þó að þetta fé, sem hér er ætlazt til, að varið verði til kynnisferða sveitafólks, verði mjög lítið á móts við það fé, sem afla á samkv. orlofsl. til þeirra orlofsferða, sem þar eru ákveðnar, þá tel ég, að að því fé mundi verða mikill styrkur einmitt til þess að hjálpa húsmæðrum í sveit til þess að fá frídag við og við frá hinu argsama starfi sínu. Ég vil benda á eitt atriði í þessu sambandi hér til samanhurðar. Landbn. hefur reiknazt svo til, að með því verðlagi, sem nú er á þeim vörum, sem hér eru gerðar gjaldskyldar, mundi orlofsframlag ársins nema röskum 100 þús. kr. Þetta er ekki mikið fé, en samt tel ég, að fólki mundi verða mikill styrkur að 'því til þess að létta sér upp. Í þessu sambandi vil ég benda á, að orlofsfé fyrir vegavinnumenn einungis er 300 þús. kr. Og mér þætti hart, ef vegavinnumönnum einum er ætlað að nota þetta fé einungis fyrir sig, en létu ekki konur sínar njóta þess með sér.

Við umr., sem fóru fram hér í gær um annað mál, upplýsti hv. 2. þm. Reykv., að verkalaun verkamanna hér í Rvík einni væru um 100 millj. kr. á ári. Mér skilst, að samkv. orlofslögunum fái verkamenn þessir um 4 millj. kr. til orlofs á ári. Og ég verð að segja, að mér þykir hart, ef til þess er ætlazt, að þessar 4 millj. fari eingöngu til karlmanna úr þessum stéttum, en konurnar fái þar af engan hlut. Virðist mér þar ærið misjafnt skipt milli karla og kvenna hjá hv. 2. þm. Reykv., ef hann ætlar körlum úr verkamanna- og launastéttum Rvíkur 4 millj. kr. í orlofsfé á ári, en konur eigi ekki að fá nema eitthvað um 6 þús. kr. Ég ætla, að það liggi alveg í hlutarins eðli, að þetta fé eigi að fara bæði til karla og kvenna. Hins vegar tel ég, að þessi brtt., sem hv. 2. þm. Reykv. hefur flutt ásamt fleiri þm., sé alveg óþörf og meira að segja hættuleg, ef með henni yrði slegið föstu, að vesalings konurnar ættu ekkert að fá af þessum millj., sem falla til orlofsferða samkv. orlofsl.

Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að þetta frv. væri óþarft, vegna þess að nú væri í fjárl. veitt fé til kynnisferða bænda. Að vísu hefur 2 þús. kr. verið varið í fjárl. í þessu skyni. En það er ekki nema til þess að gera gys að bændum landsins að veita þeim 2 þús. kr. á ári, .þegar öðrum stéttum þjóðfélagsins eru veittar til slíkra ferða millj. króna. Og vitanlega er til þess ætlazt, að þessi liður í fjárl. falli niður, verði þetta frv. að l.

Þá þótti hv. 2. þm. Reykv. óviðkunnanlegt, að tekið væri fram í l., að þessar ferðir ættu að vera til þess að kynnast fjarlægari héruðum, búnaðarframkvæmdum og búnaðarháttum. Vitanlega eru þessar ferðir fyrst og fremst hvíld og upplyfting fyrir þetta fólk. En um leið og fólkið hvílir sig, er ekkert á móti því, að það slái tvær flugur í einu höggi, — kynnist einnig því í starfsgrein sinni, sem betur má fara, því að alltaf er eitthvað hægt að læra af öðrum í þessu efni.

Þá skildist mér hann færa fram sem rök á móti þessu frv., að orlofslögin ættu að vera til þess að stuðla að því, að sveitafólkið fengi upplyfting og hvíld. Það mátti skilja orð hans þannig, að í öðrum stéttum fyndist fyllilega eins þreytt og þjakað fólk og í sveitum landsins. Ég veit, að þreyttar hendur starfa bæði í sveit og við sjó. En ég efast um, að meiri þreytu vegna sífelldrar vinnu megi finna annars staðar en í sveitum landsins. Og þessu fólki á að veita hjálp til þess að lyfta sér upp nokkra daga. Og ég lít svo á, að um leið og Alþ. afgr. frv. til l. um orlof eins og það, sem afgr. var sem l. nýlega, þá eigi líka að vera gerð tilraun til þess að létta undir með sveitafólkinu til þess að fá sér hvíld, því fólki, sem hvað harðast og ósleitilegast vinnur „hörðum höndum ár og eindaga“.

Þá kvað hv. 2. þm. Reykv. það óheppilega aðferð að leggja þetta gjald með tollum á mjólk og kjöt. Það yrði m.a. til þess að auka dýrtíðina eða vinna móti því, að dýrtíðin lækki. Hv. þm. Hafnf. hefur svarað þessu og bent á, hve lítið atriði væri hér um að ræða. En ef orlofsféð yfirleitt eykur dýrtíðina í landinu, þá yrði það miklu meira samkv. hinu frv. Það eru því síður en svo rök á móti þessu máli sérstaklega, heldur orlofslögunum í heild.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi fjölda bænda hafa tök á því að leyfa sér að ferðast árlega frá heimilum sínum. Það er rétt. En jafnvíst er hitt, að fjöldi bænda hefur mjög litla aðstöðu til þess að komast frá heimilum sínum og strjúka um frjálst höfuð í nokkra daga. Og fyrst og fremst er þessu frv. ætlað að hlynna að því, að sveitafólk fái fleiri frídaga en það hefur átt kost á hingað til, því að þeir eru fáir.