01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (2827)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er aðeins örstutt aths., sem ég ætla að koma með við þetta mál. Það hefur verið upplýst við umr. málsins, að þegar hefur fallið úrskurður um það í Nd. af hæstv. forseta þeirrar d. Hans úrskurður var sá, að málið væri alls ekki nýtt mál, heldur sama mál. Ef þetta væri úrskurðað nýtt mál hér, þá stæði d. á móti d., og er það óviðkunnanlegt hér á þingi. Ég játa, að þetta frv. er mikið breytt, aðallega að því leyti, hvaðan á að taka féð. Áður átti ríkissjóður að leggja það fram, en nú á að taka það með sérstökum skatti á tvær vörutegundir. Hins vegar eru ákvæðin um, hvernig með féð skuli farið, mjög svipuð. Það er ekki nema um smávægilegar breyt. að ræða. Ég játa, að þar er meira sett undir Búnaðarfélag Íslands en áður var, en þó var áður gert ráð fyrir því, að Búnaðarfélagið sæi um úthlutun þessa fjár, og var það fram tekið bæði í grg. og framsögu.

Ef litið er á eldri mál, þá er það mjög óskýrt, hvenær mál skuli teljast nýtt mál og hvenær ekki. Það verður að vera undir mati einstakra hv. þm. eða hæstv. forseta.

Sem sagt, ég bendi d. á, að eftir þessar upplýsingar liggur það fyrir, að þegar er fallinn úrskurður um málið í Nd., og væri gott, ef hægt væri hjá því að komast, að d. segðu sitt hvor um sama málið.