12.04.1943
Neðri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (2894)

174. mál, skipun læknishéraða

Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Þessu frv., sem er flutt af hv. þm. Snæf., var vísað til allshn., sem hefur athugað málið og sent það til heilbrigðisstjórnarinnar til umsagnar.

Frv. gengur út á það, að innan Snæfellsnessýslu verði þrjú læknishéruð, í stað tveggja nú. Það eru þannig staðhættir þar vestra, að viss héruð innan sýslunnar þurfa að sækja lækni til Ólafsvíkur. Það er þess vegna stungið upp á því í þessu frv., að sérstakt læknishérað verði stofnað innan sýslunnar fyrir þau héruð, sem erfiðasta aðstöðu hafa til læknissóknar. Ég vil geta þess, að innan héraðsins hafa komið fram ítrekaðar óskir um það, að þetta frv. verði að l., og það er samkv. ósk héraðsbúa, að þetta frv. er flutt. Allshn. sendi frv. til landlæknis, sem á þskj. 717 hefur gefið álit sitt um þetta mál. Hann segir í bréfi sínu, að hann mundi undir öllum kringumstæðum vilja mæla með því skilyrðislaust, að frv. verði samþ. En með því að svo standi á um mörg héruð landsins, að nauðsyn beri til að stofna þar sérstök læknishéruð vegna þess, hve mörg þeirra eiga erfitt um læknissókn, sérstaklega á veturna, mæli hann með því, að málið verði þannig afgr., að því verði vísað til heilbrigðisstj. í því trausti, að hún framkvæmi athugun á því að stofna sér stakt læknishérað á sunnanverðu Snæfellsnesi. Einnig sé gert ráð fyrir því, að fyrir næsta þing komi frv., sem bæti úr þessum örðugleikum til læknissóknar, ekki eingöngu á Snæfellsnesi, heldur víðar. Með tilliti til þessa álits landlæknis hefur allshn. leyft. sér að bera fram svo hljóðandi rökst. dagskrá:

„Með tilvísun til álitsgerðar landlæknis, dags. 9. apríl 1943, og í trausti þess, að heilbrigðisstjórnin láti fram fara athugun og undirbúning að stofnun sérstaks læknishéraðs á sunnanverðu Snæfellsnesi, m.a. athugun á stað fyrir læknisbústað, í samráði við íbúa hins væntanlega læknishéraðs, enda leggi hún tillögur um málið fyrir Alþ. á þessu ári, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Allshn. er sammála um það að mæla með því, að þessi rökstudda dagskrá verði samþ.