05.01.1943
Efri deild: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (2918)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hann minntist á heimild, sem til er þess efnis, að daggjöld utansveitarsjúklinga væru hærri, þannig að ekki hlytist rekstrarhalli af dvöl þeirra á sjúkrahúsum. Þetta mun að vísu vera rétt, en heimildin er ekki notuð almennt, og að öðru leyti lít ég svo á, að daggjöld utansveitarsjúklinga á sjúkrahúsum eigi ekki að vera hærri en almennt gerist. Og það hygg ég tvímælalaust stefnu í réttari átt, að unnið sé að því að lækka daggjöldin sem mögulegt er heldur en hitt, að sjá um, að þau séu það há, hvort sem um er að ræða daggjöld utan- eða innansveitarsjúklinga, að sjúkrahúsið geti sjálft borið sig og á því þurfi ekki rekstrarhalli að verða.

En að hinu leytinu vil ég síður en svo mæla á móti því, að athugaðir séu möguleikar á viðtækari breyt. í tilhögun sjúkrahúsbygginga, heldur vil ég mæla með því, að n. athugi, hvaða breyt. væri hægt að gera, og legði þær síðan fram til frekari athugunar.