29.03.1943
Neðri deild: 85. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (2968)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Áki Jakobsson):

Það hefur alls ekki komið fram hjá landlækni, að það sé hægt að segja sem svo, að þetta frv. sé yfirleitt að hans dómi illa undirbúið. Það gildir ekki um annað en byggingarkostnaðinn.

Það hefur verið ákaflega mikil óánægja vegna sjúkrahúsa, sem byggð hafa verið, út af því, hve framlög úr ríkissjóði til þeirra hafa verið tilviljun undirorpin. Og það er þörf á að setja nánari reglur fyrir því, hvað bæjar- og sveitarfélög geta átt kost á að fá sem styrk úr ríkissjóði til byggingar þeirra. Þetta er svo augljóst mál, að það þarf engar bollaleggingar um það að hafa í raun og veru, hvort rétt sé að ráða bót á því.

Í öðru lagi viljum við ákveða meðlög utansveitarmönnum. Það er vitað mál, að það eru tiltölulega fá sjúkrahús, sem koma þar til greina eftir þessum ákvæðum, sem nokkru verulegu nemur. Og það er ákaflega auðvelt að útbúa öll skýrsluform um það, hvar viðkomandi sjúklingur eigi heima. Það atriði hvílir auk þess á bæjarstjórum og oddvitum. Og ég tel ekki líklegt, að viðkomandi aðilar misnotuðu slíkar heimildir, þannig að þeir seildust til þess að fá öðrum fremur utanhéraðsmenn til sinna sjúkrahúsa. Það er venjan, að sjúkrahús, a.m.k. í stærri bæjum, eru of lítil og alveg yfirfull og vandræði að fá pláss þar. Og það gerir það enn þá fráleitara að halda því fram, að sjúkrahús mundu fremur seilast eftir utanhéraðsmönnum til dvalar á sjúkrahúsunum heldur en innanhéraðsmönnum.

Að þessi ákvæði séu erfið í framkvæmd, get ég ekki fallizt á. Skýrslur um þetta yrðu gerðar einu sinni eða tvisvar á ári. Það er náttúrlega ofurlítið verk að fara í gegnum skýrslurnar til þess að gera skýrslur sér um þetta atriði, en það þarf, hvort sem er, að fara gegnum skýrslurnar vegna l. um sjúka menn og örkumla og vegna berklasjúklinga og annarra, sem þjást af langvarandi sjúkdómum. Ég get því ekki séð, að fyrirhöfnin við þetta sé rök á móti þessu frv.

Ég mótmæli því hins vegar, að þetta frv. sé illa undirbúið. Meiri hl. n. sér ekki, að svo sé, og mælir með því, að það verði samþ. óbreytt.