18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

Rannsókn kjörbréfa

Jónas Jónsson:

Hv. 3. landsk. misskilur 6. gr. þingskapanna. Þar segir skýrum stöfum, að taka megi slík mál til rannsóknar, þótt engin kæra hafi borizt. Og þetta er háskalegur misskilningur hjá þm. Mér þykir leiðinlegt, að hann skuli ekki muna betur eftir Hnífsdalsmálinu. Og sízt þarf hann að undrast það, þó að ég taki slík mál alvarlega. Hann veit, að það var mest fyrir áhuga minn í málinu, að það var rannsakað niður í kjölinn. Það man hann með mér, að Jón Auðunn Jónsson sat hér dögum saman í hliðarherbergjum, af því að beðið var eftir rannsókn. Þá lá fyrir ákæra, en hún snerti aðeins fáein atkvæði, og atkvæðamunurinn var miklu meiri en nú er um að ræða. Þegar málið hafði verið athugað nokkuð eins og hér er farið fram á, var Jón Auðunn látinn fá kjörbréf.

Ég hef enga ástæðu til að kvarta undan álitsleysi samflokkamanna minna og jafnvel ekki andstæðinga, og get ég þar bent Gunnari Thoroddsen á vitnisburði, sem ég vona, að hann fyrirlíti ekki. Annað er blaðið Þjóðólfur, þar sem Árni Jónsson lætur nú í veðri vaka, að ég hafi eiginlega stjórnað Sjálfstæðisflokknum undanfarið, og hitt er bæklingur eftir Héðin Valdimarsson, nefndur Skuldaskil og fjallar m.a. um það, hvað ég hafi verið vel séður í Alþfl. eftir 1934 og haft þar blessunarrík áhrif. Ef mínir svörnustu andstæðmgar hafa slíkt álit á völdum mínum og afrekum, þarf ég manna sízt að kvarta um álitsleysi.

Ég vildi, að þessi hv. frambjóðandi hefði komið fram með hreinar sakargiftir gegn S.Í.S., en ekki þessar dylgjur sínar, sem ekki er hægt að ganga úr skugga um. Ég skora á hann að skýra frá því á prenti, hvað í þeim ásökunum átti að felast. ef hann skýrir ekki frá því, — og það veit hann gerir ekki, —- er hann maður að minni.

Ég skal gefa þessu þingmannsefni Sjálfstfl. einasta ráðið, sem hann getur haft til að hrósa „sigri“ sínum. Hann á að kannast við það, sem satt er, og segja: Á Snæfellsnesi er dönsk kúgun, sem merkti marga sýslubúa. Þeir, sem enn lifa þar af kúgurum og kúguðum, eru stuðningsmem Gunnars Thoroddsens. En þar hafa líka komið menn, sem skapað hafa kaupfélögin og önnur samtök frjálsra manna, sem eru ekki stuðningsmenn Thoroddsens og ekki þjónar þeirra dansk-íslenzku labbakúta,' sem eru fortíðarleif héraðsins. Það er spá mín, að þessi frjálsu samtök, sem mest hafa bætt hag fólksins, eigi eftir að frelsa það frá því valdi, sem þessi frambjóðandi berst fyrir, og fella yfir honum þann dóm, sem þarf.