08.04.1943
Efri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (3018)

155. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Allshn. hefur haft þetta mál til athugunar og gert grein fyrir því í nál. á þskj. 659, og mælir með samþykkt frv., að vísu með nokkrum breyt. Það er lagt til, að einn maður sé felldur niður, sem hv. Nd. hafði ákveðið fyrir sitt leyti að veita ríkisborgararétt, Jón Meyvant Sivertsen Sætran. Þessi maður er í Kaupmannahöfn, og ekki liggja fyrir frá honum sjálfum gögn um það, að hann sæki um ríkisborgararétt, heldur frá aðstandendum hans. En okkur virtist það lágmarkskrafa, að slík beiðni lægi fyrir frá honum sjálfum. Enn fremur hefur n. tekið til greina ýmis gögn, sem ýmist bárust frá stjórnarráðinu eftir að Nd. gekk frá málinu eða lágu fyrir í plöggum þingsins frá fyrra ári. Og hefur n. fylgt þeirri reglu að taka alla þá upp, sem fullnægja ákvæðum l. nr. 64 frá 28. jan. 1935 um það, hvernig menn öðlast og missa íslenzkan ríkisborgararétt, en hins vegar ekki aðra.

Þess ber að geta, að það er a.m.k. einn af þeim, sem hafa sótt um ríkisborgararétt, sem stendur eins á um og Jón Sætran, að það liggur ekki fyrir umsókn frá honum sjálfum. Og þó að bann hafi að öllu leyti fullnægt skilyrðum l. um þetta að öðru leyti, þótti ekki rétt að fullnægja beiðninni um að veita honum ríkisborgararélt.

Aðrir, sem um ríkisborgararétt hafa sótt, en ekki hafa verið teknir upp, hafa ýmist dvalizt of skamma stund hér á landi eða hafa þá gert sig seka um afbrot, svo að ekki er þess vegna hægt að verða við óskum þeirra. Mestur fjöldinn af þeim, sem teknir hafa verið upp hér, eru nunnur í Landakoti, sem hafa sótt um ríkisfang. Það hefur ekki þótt rétt að veita þeim það, vegna þess að frá þeim vantaði fæðingarvottorð. Þessar konur allar eru fæddar í Þýzkalandi nema ein í Póllandi, svo að ekki er hægt að fá vottorð þaðan. Hins vegar eru allar þær af þeim, sem n. tók til greina, búnar að dveljast hér á landi lengur en 10 ár og hafa unnið íslenzku þjóðinni gagn. Og frá trúverðugum mönnum liggja fyrir upplýsingar um ætt þeirra og uppruna, og þess vegna þótti ekki rétt að vefengja það. Og úr því að þær sóttu um ríkisfang og hafa í hyggju að halda mannúðarstarfi sínu áfram, m.a. við spítalann í Landakoti, þá þótti n. sjálfsagt að verða við þeirri beiðni.

Það eru tvær umsóknir enn, sem n. hefur ekki til hlítar athugað, og kann að vera, að brtt. við frv. verði bornar fram við 3. umr. Það lágu ekki fyrir gögn, sem n. taldi nauðsynleg, þegar athuganir fóru fram á þessum beiðnum.

Við höfum enn fremur lagt til, að bætt verði í frv. nýrri málsgr., sem er nauðsynleg vegna núverandi styrjaldarástands, um, að niður falli gagnvart þessu fólki ákvæðin um, að ríkisborgararétturinn falli niður, ef það hefur ekki leyst sig eftir eitt ár frá hinu fyrra heimilisfangi sínu og öllum skyldum, sem af því leiðir. Vegna styrjaldarástandsins verður þetta óframkvæmanlegt, og var fallizt á að fela ríkisstj. þetta atriði til umsjónar og frekari ákvörðunar.

Þessar brtt. n. eru bornar fram að vel athuguðu máli, og væntir n. þess, að d. samþykki þær og greiði að öðru leyti fyrir frv.