04.12.1942
Neðri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (3045)

21. mál, virkjun Andakílsár

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru örfá orð. Það var réttmæt aths., sem hv. 11. landsk. kom með, að athuga þarf í sambandi við þessa virkjun, hvort hún komi í bág við það heildarskipulag, sem um hefur verið rætt á rafmagnsmálunum. En nú er það svo, að þessi virkjun getur alveg fallið inn í þetta kerfi, eins og hv. flm. tók fram. Eftir er aðeins að athuga, hvort heppilegra sé að hafa sérstaka aflstöð eða leiða rafmagnið frá Soginu, þegar frekari virkjun hefur farið þar fram. Af þessu geta menn ljóslega ráðið, hversu áríðandi það er, að Alþ. taki ákvarðanir um, hvernig á að leysa þetta mál. fjhn., sem fær málið til meðferðar, hefur aðstöðu til að fylgjast með, hvað þessum málum líður, og ég vil vona, að hún leiti fyrir sér um það, eftir því sem föng eru á, og kynni sér allar aðstæður varðandi þetta mál, áður en ákvarðanir eru teknar. Ég skil vel, að þau héruð, sem hafa einhverjar vonir um að geta fengið þetta mál leyst, leggi sig fram um að fá raforku til nauðsynja sinna. en þannig mun það vera um öll byggðarlög landsins meira og minna, að þau vilja ráðast í framkvæmdir og undirbúning í þessu efni. Þetta er í alla staði skiljanlegt, og er ekki á neinn hátt hollt, að dráttur verði á þessum málum. Það er alveg víst, að atvinnulífi landsins er það hollast, að þessi aflgjafi komist sem víðast út um byggðir landsins, svo að ekki þurfi að flýja til þeirra fáu staða, sem þetta afl er komið til.

Það er alveg víst, að atvinnulífi Íslendinga er það hollast, að þessi aflgjafi komist sem víðast út um landið, svo að ekki þurfi að flýja frá þeim stöðum, þar sem rafmagn er enn ekki nægilegt, með allar mögulegar framkvæmdir, sem gerast skulu, og flykkjast til örfárra staða á landinu, eins eða tveggja. Slíkt er hvorki heppilegt né æskilegt fyrir atvinnulíf landsins.

Ég vil á engan hátt leggja hinn minnsta stein í götu framkvæmda í þessu máli, en vil undirstrika það, að það má þó ekkert það gera í því, sem kemur í bága við það heildarfyrirkomulag, sem þjóðinni er heppilegast í meðferð þessara mála.