12.03.1943
Neðri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (3059)

21. mál, virkjun Andakílsár

Pétur Ottesen:

Ég vil láta í ljós hryggð okkar flm, út af því, að afgreiðsla þessa máls skyldi hafa, þurft að valda ágreiningi nú. Okkur flm. virðist, að málið sé þess eðlis og feli í sér svo merkilega lausn, það sem það nær, að það sé nær óskiljanlegt, að ekki skuli geta orðið um það samkomulag á Alþ. Við höfum þá reynslu af hagnýtingu rafmagns hér á landi, að okkur er ljóst, hve stórkostlega mikils virði það er. Það, sent hefur hindrað Íslendinga frá hagnýtingu þess, er það, hvað geta okkar hefur verið takmörkuð. Nú er það svo um Andakílsvirkjunina, að samkv. útreikningum, sem í öðrum hliðstæðum tilfellum hafa verið teknir gildir, er fjárhagslegur grundvöllur undir henni öruggur og aðstæður þannig, að þarna er hægt að framleiða það ódýrasta rafmagn, sem enn er á Íslandi. Þess vegna er það kynlegt, — og við hörmum það mjög, flm. —, að átök skuli þurfa að skapast um málið. Það er eins og það spor, sem stígið var s.l. sumar og átti að verða til framdráttar fyrir framkvæmd rafveitumálanna hér á landi, hafi blandazt inn í þetta frv. með óheppilegum hætti, því að þetta kemur ekki í bág hvað við annað. Af því að þetta hefur viljað svona til, að þessu er blandað saman, vil ég brýna fyrir mönnum, hversu mikill bakhjarl sveitabúskapurinn er fyrir þjóðina í heild, og einmitt af því, að lausn rafmagnsmálsins fyrir dreifbýlið er svo þýðingarmikil, en framkvæmri þess hins vegar ákaflega dýr og erfið, gefur það okkur sérstaka aðvörun um, að þegar á að fara að leggja grundvöll að þeirri framkvæmd, sé ekki hrapað að því að slá neinu föstu, fyrr en gaumgæfileg rannsókn hefur farið fram um grundvöll málsins. Mér skilst, að áður en tekin er ákvörðun og gengið frá málinu með l. á Alþ., þurfi með nákvæmum rannsóknum að vera búið að ganga úr skugga um nokkur ákveðin atriði; í fyrsta lagi að gera samanburðaráætlanir, í öðru lagi vita kostnað við að virkja beztu og hagkvæmustu fallvötn í hverju héraði og í þriðja lagi vita, hvað leiðslur kosta út frá þessum fallvötnum. Þetta er sú athugun, sem þarf að gera annars vegar, en hins vegar, hvað virkjun stærstu fallvatna landsins kostar á hvert hestafl, og hvað kosta hinar löngu og dýru leiðslur milli sýslna og landsfjórðunga. Það er ekki hægt að slá föstu, hvort ódýrara sé, fyrr en rannsókn hefur farið fram á hvoru tveggja.

Enn kemur til greina samanburðurinn á öryggi þess að dreifa leiðslum um hvert hérað fyrir sig eða dreifa þeim frá stórum orkuverum, þar sem línurnar verða að liggja um fjöll og firnindi. Við þekkjum, hve erfitt er að halda uppi símalínum um fjallabyggðir og heiðalönd hér í snjóþyngslum. Þetta hefur orðið til þess, að grípa hefur orðið til þeirra ráða að taka upp línur og staura og grafa leiðslurnar í jörðu. Með þessu móti verður símalagningin miklu dýrari en ella.

Mér er sagt, að ef leggja yrði rafmagnsleiðslur í jörðu í stað þess að leiða rafmagnið á staurum, þá yrði það 4–5 sinnum dýrara á hvern kílómetra. Þetta er því mjög mikilsvert undirstöðuatriði, þegar rætt er um að koma rafmagnsleiðslum um dreifbýlið. Annað, sem bætist við, er það, að með héraðsvirkjunum er hægt að komast af með miklu lægri spennu. Mér er sagt, að það sé hægt að komast af með 20 þúsund volta spennu fyrir 80–100 km. leiðslur. En eftir því sem leiða þarf lengri leiðir, þarf spennan að hækka. Það þarf 60 þús. til 132 þús. volta spennu, eftir því, hve langt þarf að leiða rafmagnið. Nú er kostnaðarmunurinn geysimikill eftir því, hversu há spennan er, sem þarf að framleiða. Mér er sagt, að á hvern kílómetra kosti 132 þúsund volta spenna 80 þúsund krónur, en 60 þús. volta spenna 40–50 þús. kr. En 20 þús. volta spenna aðeins um 30 þús. kr. Þess vegna er þessi kostnaðarmunur eitt undirstöðuatriðið, sem taka þarf tillit til, þegar slá á föstu, hvaða leiðir eigi að fara.

Einn liður enn, sem skiptir miklu máli, þegar rætt er um, hvort byggja skuli eina stóra eða fleiri litlar stöðvar, er það, að það þarf dýrari afspennistöðvar, þegar færa á — segjum t.d. 132 þúsund volt niður í 20 þús. volt og síðan niður í notendaspennu. Þá kemur mikill munur fram í því, hve miklu kostnaðarsamari þessir spennibreytar eru.

Þetta eru þá allt mikilsvarðandi atriði, sem gera þarf á ýtarlegar rannsóknir, áður en bundið er í löggjöf, hvernig þessum málum skuli háttað.

Það er mjög eðlilegt, að mþn. í rafmagnsmálum, sem ekki settist á rökstóla fyrr en í haust, sé ekki enn þá búin að afla sér þeirra nauðsynlegu gagna, sem hún þarf að fá til athugunar og samanburðar, áður en hún getur gefið endanlega álitsgerð um það, hvernig þetta vandamál verði leyst á hagkvæmastan hátt. Þess vegna harma ég það, að n. skuli hafa látið frá sér fara það plagg, sem meiri hl. fjhn. hefur notað sem átyllu fyrir brtt. þá, sem hún hefur gert við frv., eins og við lögðum það fram, þar sem slegið er fram, að farin sé ákveðin leið, án þess að rannsóknir n. séu fullgerðar og hinar endanlegu niðurstöður hennar liggi fyrir.

Ég get fullvissað hv. Alþ. og hv. meiri hl. fjhn. um það, að við flm. þessa frv. viljum ekki stíga neitt spor, sem gæti valdið erfiðleikum um úrlausn þessa mikla máls — veitingu raforku til dreifbýlisins. Þess vegna vildi ég óska, fyrir hönd okkar flm. þessa frv., að hv. fjhn. vildi tala við okkur nánar um málið áður en nokkru er slegið föstu. Og ég vil fullvissa fjhn. og hv. Alþ. um það, að samþykkt þessa frv. getur ekki orðið þröskuldur í vegi fyrir því, að rafmagni geti verið dreift út um sveitir landsins. Þvert á móti mundi samþykkt þess verða til þess að flýta fyrir því.

Við flm. þessa frv. höfum skrifað tveimur þeirra manna, sem mest allra manna hérlendra hafa fengizt við þessi rafmagnsmál, að undanskildum formanni Rafmagnseftirlits ríkisins, sem nú dvelur í Ameríku og við náðum því ekki til. Við höfum leitað álits þeirra um þessi mál og þessa stefnu, sem hér er um að ræða. Ég skal ekki hér á þessu stigi málsins — og ekki fyrr en ég heyri undirtektir fjhn. um að ræða við okkur um þessa brtt., sem hér um ræðir, — fara að lesa langa kafla úr þessum bréfum. En þau fela í sér, að nákvæmar rannsóknir á undirstöðuatriðum þessa máls verða að vera fyrir hendi, áður en nokkru er slegið föstu um fyrirkomulagið. En þau sýna, að héraðsvirkjun er ódýrari og hagkvæmari lausn á rafmagnsmálum sveitanna, a.m.k. fyrst til að byrja með.

Þá gefur annar þessara manna í bréfi sínu nokkrar upplýsingar um, hvernig stendur á um aðstöðu til virkjunar ýmissa fallvatna annarra en Andakílsár. Þetta eru fallvötn í báðum Húnavatnssýslum og Strandasýslu. Þessar upplýsingar eru mikilsverðar í þessu máli, og vildi ég láta koma hér fram, hvað sagt er um aðstöðu til virkjunar í þessum 3 sýslum, sem lítils háttar Lendingu um þá stefnu, sem ég tel heppilegast, að tekin verði.

Það er Árni Pálsson verkfræðingur, sem segir þannig í sínu bréfi, með leyfi hæstv. forseta: „Skal nú aðeins stuttlega minnzt á helztu fallvötn í Húnavatnssýslu og Strandasýslu. Skal þá fyrst tekin Laxá hjá Blönduósi. Rennur hún um tvö (stór) vötn, Svínavatn og Laxárvatn, og hefur því ágæt miðlunar skilyrði. Þar má fá allt að 60 m. fallhæð, er fullvirkjuð gefur 3-4000 hestöfl, en það er 0,6–0,15 kw. á hvern íbúa Húnavatnssýslu (frá Andakílsá verður ekki kleift að láta meira en 0,5 kw. í té, og fer nokkuð af þeirri orku forgörðum við hinn langa flutning“. Þarna virðist fullkomið rannsóknarefni, hvort ekki séu fyrir hendi í Húnavatnssýslu þau skilyrði, að þar megi fá rafmagn á ódýrari hátt en með því að sækja það suður í Borgarfjörð, og það er ótvírætt öruggara að fá rafmagn heima í. héraði en að leiða það um Holtavörðuheiði.

Þá segir Árni Pálsson enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: „Víða eru nokkur virkjunarskilyrði í Blöndu, þar sem fá má ekki einasta nokkur þúsund hestöfl, heldur jafnvel tugi þúsunda. Það getur því komið til greina, að önnur héruð, sem minni virkjunarskilyrði hafa, sæki orku til Húnavatnssýslu, og má þar nefna Skagafjörð, að minnsta kosti þá hluta þess héraðs, sem næstir eru“. Í sambandi við þessa hugmynd, sem þarna er slegið fram, að að svo svo miklu leyti sem sækja þarf að rafmagn fyrir Skagafjörð, þá sé hagkvæmara að fá það frá Húnavatnssýslu, vil ég benda á það, að frá Blönduósi til Varmahlíðar í Skagafirði eru aðeins 50 km., en frá Laxárfossum til sama staðar 160 km. Vegalengdin er mikilsvert atriði.

Þá skal ég aðeins geta þess hér, sem Árni Pálsson segir um virkjunarskilyrði í Strandasýslu:

„Í Strandasýslu eru mörg vatnsföll, þótt eigi verði þar um stórvirkjun að ræða, og þá sérstaklega í Steingrímsfirði, en það er fólksflesta hérað sýslunnar og er í henni miðri.

Álitlegust er Þverá, er fellur úr Þiðriksvallavatni. Þar eru framúrskarandi miðlunarskilyrði, svo að fá má þar fullkomna ársmiðlun, jafnvel miðlun fyrir nokkurra ára bil. Áin fellur þar fram úr vatninu um þröngt klettagil. Þar er 40 m. fallhæð á 530 metrum og virkjunarstaðurinn er 4,5 km. frá Hólmavík. Virkjunarskilyrði eru því svo hagstæð sem á verður kosið. Fullvirkjað gefur fallið 1500 hestöfl, en það eru 540 watt á hvern íbúa Strandasýslu“. M.ö.o., sama magn og gert er ráð fyrir að flytja frá Borgarfirði í Strandasýslu.

Svo skal ég ekki hafa þessi orð fleiri, en leiða aftur athygli að því, að við flm. frv. viljum heyra undirtektir meiri hl. fjhn. um það, hvort hann vill ekki ræða við okkur með tilliti til þess undirbúnings, sem að sjálfsögðu þarf að gera, áður en nokkru er slegið föstu um fyrirkomulag rafvirkjana og dreifingu rafmagns út um sveitirnar. Mér finnst, að á meðan þessi samanburðarrannsókn um hagnýtingu fallvatna á stærri eða smærri virkjana er ekki fyrir hendi, þá eigi alls ekki að slá því föstu með löggjöf, hverjar leiðir skuli fara eða hvað, sé frá fjárhagslegu sjónarmiði hyggilegast.

Að því, er mér er sagt, þá hefur þróun rafmagnsmálanna í þeim löndum, þar sem staðháttum svipar mest til þess, sem hér á sér stað, þ.e. Svíþjóð og Noregi, einmitt verið sú, að þar, sem byggðarlögin hafa sjálf getað ráðið við virkjun, hafa þau framkvæmt hana á eigin kostnað, en ef um stærri virkjanir hefur verið að ræða, þá hefur ríkið gripið inn í. Mér finnst að svo stöddu ekki vera hægt að slá því föstu, að ríkinu beri undir öllum kringumstæðum að hafa þessi mál með höndum hér hjá oss. Mér finnst, að rannsókn kunni að leiða í ljós, að það fyrirkomulag, sem er í þessum löndum, sem ég hef nefnt, geti einnig verið heppilegast hér.

Ég ætla ekki að fara ýtarlega út í einstakar gr. frv. eða brtt., en aðeins mælast til þess, að meiri hl. fjhn. ræði við okkur um þessi sjónarmið, sem ég hef lagt fram fyrir hönd okkar flm. frv., og væri þó eðlilegast, að umr. væri frestað, unz séð verður, hvern árangur viðræðurnar bera. Það er leiðinlegt fyrir okkur, sem stöndum saman um að hrinda þessum málum í framkvæmd, að vera að deila um þessi atriði, ef leiðir eru til, að samkomulag náist um afgreiðslu málsins. Og ekkert sýnir betur, að alvara er á bak við málið (og á ég þar við rafmagnsmál sveitanna í heild) en að standa saman og ræða þau svo sem ræða má og reyna að komast að hinni hagkvæmustu niðurstöðu. Vænti ég svo að heyra undirtektir hv. fjhnm.