02.04.1943
Neðri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (3268)

122. mál, tímarit til rökræðna um landsmál

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Eins og hv. frsm. meiri hl. n. gerði grein fyrir og eins og þingskjöl bera með sér, þá klofnaði allshn. um þetta mál við hv. 2. þm. Eyf. viljum ekki samþ. þetta frv. Við teljum ekki, að það yrði til neinna bóta, þó að það væri samþ. Tímarit það, sem hér um ræðir, á að verða til upplýsingar í pólitík, það á að auðvelda kjósendunum að komast að réttum niðurstöðum um landsmál, og á útgáfa þess að vera kostuð að mestu af almannafé.

Ég vona nú, að hæstv. forseti umberi mér, þótt ég fari hér nokkuð almennum orðum um málið við 2. umr. þess, en það er nauðsynlegt til að gera sér grein fyrir innihaldi frv., sem tekur til ýmislegs fleira en beint kemur fram í greinum þess. Ég mun þó víkja að þeim, þótt ég drepi hér fyrst á nokkur önnur atriði. Frsm. meiri hl. fór einnig þannig að, ræða hans var meira um almenn atriði, sem mér þótti ekki nema eðlilegt.

Ég ætla þá fyrst að víkja nokkuð að ræðu hans. Ég tel bezt á því fara, því að síðar, er ég kem að hinum einstöku greinum frv. og öðru viðvíkjandi þeim, þá verður ljóst, hve mikils rök hans mega sín um, að tilgangi þessa frv. verði náð.

Hann gat þess í upphafi máls síns, að menn læsu almennt ekki um landsmál nema frá einni hlið. Ég skal ekki þrátta um það, en mín skoðun er sú, að menn lesi yfirleitt blöð fleiri flokka, a.m.k. tveggja til þriggja. Það kom fram hjá hv. frsm., að hann bæri mest fyrir brjósti fólkið í dreifbýlinu í þessum efnum, því það fengi sízt réttar upplýsingar, og á hann sjálfsagt við þau blöðin, sem þangað fara helzt. Meining hans er eflaust sú, að þau blöðin halli ekki réttu máli, sem gefin eru út í þéttbýlinu. Þó kemur þetta nú í bág við grg. frv. og það, er hv. frsm. sagði síðar um þetta atriði. Ég vil sízt mótmæla því, að blöðin halli oft réttu máli og segi stundum hreinlega ósatt, og það lítur oft svo út sem þau geri það móti betri vitund, þó að ég fullyrði ekkert um það. En ég held, að þetta eigi ekki síður við um hin blöðin, sem koma út í þéttbýlinu. Annars ætla ég ekki að fara að flokka blöðin neitt, þau hafa öll syndir á samvizkunni í þessum efnum, og vil ég ekki réttlæta misgerðir þeirra. Ég tel þvert á móti, að ritháttur þeirra sé svo herfilegur, ef honum heldur áfram enn um skeið, þá geti það illt eitt af sér leitt fyrir þjóðina, og er það illa farið um annað eins stórveldi og þau geta verið í þjóðfélaginu. Það væri sannarlega betur farið, ef menn gætu hikað trúað málflutningi þeirra og sá drengskapur og þroski ríkti í blaðamennskunni, að þau leiðréttu sjálf, ef þeim yrði á að fara með rangt mál. En það er nú eitthvað annað en svo sé. Og ég verð að segja það, ef menn trúa því, að í pólitísku riti, sem gefið er út á ríkisins kostnað af pólitískum flokkum, verði farið að flytja málin af fullum drengskap og sannleik, þá er það oftrú.

Ég veit ekki, hvernig menn fara að komast að þeirri niðurstöðu, ef þeir dæma eftir þeirri pólitísku blaðamennsku, sem tíðkazt hefur hér um nokkurt skeið. Ætli það yrðu ekki svipaðir menn, sem réðu þessu riti, og þeir, sem starfa í flokkunum og ráða hinum pólitíska blaðakosti þeirra. Ég held, að hér sé svo mikill skyldleiki á milli, að útgáfa þessa rits yrði ekkert til bóta.

Hv. frsm. drap á það, að flokkarnir gætu haft misjafna aðstöðu til að boða skoðanir sínar. Það er vafalaust rétt. Mér skildist, að þetta rit ætti að ráða einhverja bót á því. En annaðhvort stafar þessi skoðun af of lítilli athugun á málinu, eða hún er oftrú, og kem ég að því nánar.

Hv. frsm. sagði, að það hefði ekki þótt drengskapur forðum. að menn berðust með mislöngum vopnum. Mér skildist af þessum ummælum hans, ef öllum flokkum yrði gert auðveldara um útbreiðslu sinna skoðana, þá væri bætt úr þeim aðstöðumun, sem felst í misjafnri fjárgetu flokka og útbreiðslustarrfsemi. Ef þetta væri tryggt og víst, að skoðanir þessar yrðu til að þroska og upplýsa þjóðina, þá mætti vera vinningur að þessu. En ég hef litla trú á því eins og ég mun koma nánar að. Annars bjóst ég við, að hv. frsm. mundi samtímis þessu minna á önnur ummæli úr sögunni, sögu einnar hinnar þroskamestu þjóðar. Einn sonur þessa lands kom til móður sinnar og kvartaði um það, að skaptið á vopni hans væri of stutt. „Gakktu þá feti framar,“ sagði móðirin. Svo mun það jafnan vera, þegar barizt er fyrir hugsjónum, þó að hugsjónamennirnir standi ekki allir fjárhagslega vel að vígi eða jafnt að vígi og þeir, sem þeir eiga í baráttu við. Þeir leggja því meira á sig fyrir málstað sinn, og hann sigrar jafnaðarlega, ef barizt er af heilum huga. Þessi siðferðisstyrkur og hugsjónaeldur vegur því jafnan meir en upp á móti því, sem kann að vinnast við betri fjárhagslega aðstöðu eina. Og eitt er víst, að enda þótt þetta sé tekið jafnbókstaflega og hv. frsm. vildi, þá er engin trygging fyrir því, að eftir þessu yrði farið í framkvæmdinni. Hann. sagði seint í ræðu sinni, að meiri hl. mundi tilleiðanlegur til að ganga inn á breyt. við frv. Ég vona, að hann geri það. Ég vil vera með í að gera á því þá breyt., að 1.–9. gr. falli burt. Sú breyt. hentar bezt þessu máli.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um frv. sjálft. Í 1. gr. segir, að tímaritið eigi að rökræða um stjórnmál. Fyrirheitið er gott í þessari gr., og má segja, að eftir henni sé tilgangurinn góður. En þá er það, hvernig hægt er að ná honum. Í 2. gr. segir, að þeir stjórnmálaflokkar eigi aðgang að ritinu, sem eigi a.m.k. þrjá fulltrúa á Alþ. Aðrir eiga ekki að upplýsa eða þroska þjóðina, og tæpast er búizt við. að þeir geti stuðlað að atvinnuþróun hennar eða þroska. Eftir að flokkur hefur orðið þrjá fulltrúa á þingi, þá er þó auðveldara fyrir hann að hafa áhrif á þjóðmál en flokk, sem er í myndun og á engan fulltrúa á þingi. Ég vil þó ekki vænta, að það vaki fyrir hv. flm., að þá fyrst geti menn farið að hafa góð áhrif á gang mála, þegar þeir séu komnir minnst þrír frá flokki á þing. Þegar fluttar eru góðar og gagnlegar hugsjónir, þá standa oft fáir að þeim í byrjun, sem alls engan fulltrúa eiga á þingi og eiga oft erfitt með að koma skoðunum sínum á framfæri. Þeir, sem hafa mest áhrif og bezt hafa barizt fyrir hugsjónum, hafa oft verið fáliðaðir. En af því að þeir eru svo fáir, þá eiga þeir engan rétt á að birta skoðanir sínar í tímariti ríkisins fremur en ritnefndinni gott þykir. Menn skyldu nú ætla, að þetta væri ekki svona einskorðað, því að þarna væri e.t.v. þörfin mest fyrir hendi, það gæti verið, að þessir menn hefðu langréttast mál að flytja, þó að ég segi það ekki. Við skulum hugsa okkur, að komin væri pólitísk spilling í þingflokkana og menn vildu á það benda, en ættu erfitt með að koma skoðunum sínum á framfæri. Þá ættu þeir enga kröfu til rúms í þessu riti. Með öðrum orðum, þegar þörfin væri máske mest á því að eiga aðgang að þessu riti til að koma skoðunum á framfæri, þá eru þeir útilokaðir frá þessu riti.

Svo eru reglur um það í 2. gr., hvað ritgerðirnar megi vera langar og eftir hvaða reglum það færi o.s.frv., en út í það ætla ég ekki að fara, það skiptir minna máli. Þó hefði ég haldið, að það skipti meira máli, hvernig efnið er, hvað gagnlegt það hefði að flytja, heldur en orðafjöldinn. En ritn. er nokkuð bundin af orðafjöldanum um það, hvernig þetta skuli skiptast á milli flokka. Það kann að vera nauðsynlegt að hafa um þetta mælikvarða og þetta sé sá handhægasti, en það fer þá nokkurn veginn saman, að hann er líka sá fráleitasti. Svo er til þess ætlazt, samkvæmt þessari gr., að ritn., sem sett er, eigi að dæma um ritgerðirnar og sjá um, að þær birtist í tímaritinu:

Þá sný ég mér að því, sem skylt er, þ.e.a.s. því atriði, frá hvaða flokkum skylt er að birta ritgerð. Hvernig mun þetta verða í framkvæmdinni hjá þessari ritn.? Náttúrlega réði meiri hl. því, hvað birta skyldi. Meiri hl. n. ákvarðar því, hvað birt skuli í þessu tímariti. Hver er þá tryggingin orðin fyrir minni hl.? Er það endilega víst, að meiri hl. hefði þarna rétt fyrir sér? Það held ég ekki. Það stendur einhvers staðar, að minni hl. hafi alltaf rétt fyrir sér. Nú vil ég að vísu ekki taka undir það, að svo sé ætíð. En það getur vel staðið þannig á, að minni hl. hafi mjög mikið rétt fyrir sér. Það getur líka verið, að minni hl. hafi alveg rétt fyrir sér, en þá getur farið svo. að hann sé ofurliði borinn og fái ekki birt það, sem hann óskar eftir. Eru menn svo ákaflega trúaðir á það, að þeir menn, sem veljast til þess að starfa hjá þessu tímariti, hljóti alltaf að gera rétt? Við skulum geta hins bezta til, að þeir vilji gera rétt. En er það endilega víst, að þeir sjái alltaf það rétta? Ef þeim missýnist, hvað þá, þá er engu réttlæti fullnægt. Þá er það, sem að þessu leyti átti að tryggja með þessu frv., fokið út í veður og vind. Þá er málum hallað og vilhallur dómur kominn um þessi mál. Tímaritið, sem átti að uppfylla allt réttlæti, getur þannig orðið til þess að halda ranglætinu við. Jafnvel gæti farið þann veg, að það yrði til þess að auka ranglætið, og væri þá ríkisvaldið sjálft gengið til liðs við þá, sem að þeim verknaði stæðu að fullkomna það ranglæti. Þetta liggur alveg í hlutarins eðli, og ég er ekki að segja það, að með fyrirfram settum reglum sé hægt að tryggja þetta. En við sjáum við nánari athugun á þessu, að þarna eru svo mörg ljón á veginum, að alls ekki er stofnandi til slíkrar útgáfu sem þessarar. Þó hef ég ekki vikið að því atriði, sem má sín mest, þ.e. þeirri skylda, sem þjóðfulltrúarnir hafa ætíð við lagasetningu, og þá ekki sízt við svona lagasetningu, þ. skyldu þeirra að gæta þess, að af henni leiði ekki aukið misrétti á milli þegnanna, að sú lagasetning gæti jafnvel verið til ófarnaðar. Ákvæði gr. mun nú eitthvað eiga að bæta úr. Þar er talað um, að hver stjórnmálaflokkar eigi að bera ábyrgð á þeim ritgerðum, sem birtar eru í tímaritinu. En það efni, sem birtist í tímaritinu, getur verið þess eðlis, að þetta sé líka brotið. Það nær aðeins til þess, ef meiðyrði, sem varða við landslög, eru birt. Það er aðeins hægt að koma fram ábyrgð á hendur þeim fyrir það og þá auðvitað fulltrúum flokkanna, eða flokksins, sem er í ritn. En hversu margt mætti ekki birta í þessu tímariti, sem væri þess eðlis, að það varðaði ekki við landslög, en eigi að síður gæti orðið skaðlegt almenningi, en þó væri ekki hægt að koma fram neinni ábyrgð á hendur neinum flokki, sem að slíkum ritsmiðum stæði? Við verðum að gá að því, að þó að engu slíku væri til að dreifa hjá okkur nú, þá getum við ekki séð, hverjar stefnur kunna að vera uppi í framtíðinni, hvaða pólitískar hreyfingar kunna að verða hér uppi og hver áhrif það kynni að hafa á þetta tímarit. En því þá að vera að setja þetta af stað?

Ég fer nú ekki út í hin minni háttar atriði, t.d. eins og um kostnaðinn við þetta og annað þess konar. Stjórnmálaflokkarnir eiga að annast kostnað ritgerðanna. Bæjar- og hreppssjóðir greiða kostnað við dreifingu ritsins, ríkissjóður aftur kostnað við prentun og útsendingu o.s.frv. Svo er talað um það, hverjir eigi að vera aðnjótandi ritsins og fá það ókeypis, en það eru heimilisfeður, sem öðlazt hafa kosningarrétt til Alþingis. En auðvitað eru nú kjósendurnir miklu fleiri en heimilisfeðurnir. Mér finnst, að allir kjósendur landsins þyrftu að eiga kost á að fá ritið, ef talið yrði nauðsynlegt að gefa það út. Í grg. fyrir frv. benda flm. á það, hvernig pólitískar deilur hafi hér orðið, það hafi að undanförnu verið þrætzt á um mál og hið rétta hafi alls ekki verið viðurkennt. En í þessu riti er einmitt til þess ætlazt, að þessar deilur haldi áfram, því. að ritið á að ræða um þau mál fyrst og fremst, sem hafa verið deilumál milli flokka.

Ég er nú búinn að víkja að því, hverjar líkur eru til þess, að úr þessu verði bætt. Ég er hræddur um það, að hinir pólitísku flokkar, sem að þessum ritgerðum eiga að standa, taki ekki allt í einu miklum stakkaskiptum í þessum efnum. Ég held, að þeir muni halda áfram að halda fram sínum málstað, eins og verið hefur. Ég held, að það muni verða alveg eins í þessu riti eins og í blöðunum, að hver flokkur muni reyna að ota sínum tota fram. Það mætti þá alveg gera ráð fyrir því, að menn fari með rangt mál í þessu riti eins og annars staðar, og jafnvel, að persónulegar móðganir kæmu fram, eins og drepið er á í grg. Svo láta flm. það í ljós í grg., að þeir eygi ný lönd framundan í þessum efnum. Þar stendur í niðurlagsorðum: „Hagsmunastreita milli stétta kynni að þverra til mikilla muna, og andlegur vopnaburður mundi færast í viðunanlegra horf, því að þekkingunni mundi ekki verða boðið hið sama sem vanþekkingunni áður. Slíkur árangur, ef hann næðist, er áreiðanlega þess virði, að tilraun sé gerð til að öðlast hann. Er mál þetta borið fram í því trausti, að um það geti menn þó a.m.k. orðið sammála.“ Væri það tryggt, að þekkingu og réttum málstað væri komið út á meðal þjóðarinnar, þá væri eðlilegt, að menn vildu vera með þessu máli. En ég er nú búinn að víkja að því allrækilega, að þetta frv. gefur enga tryggingu fyrir því, og það er aðalatriðið. Ég efa það, að allt í einu komi öllu betri menn til þess að standa fyrir slíkri útgáfustarfsemi heldur en eru fáanlegir nú og starfa við rit pólitísku flokkanna. Maður getur því ekki búizt við, að þarna verði um verulega framför að ræða. En annað getur fylgt þessu máli, ef samþ. verður. Það getur orðið til þess að greiða götu fyrir skoðunum út á meðal almennings, sem ég held, að engin þjóðþrif stafi af. Við skulum hugsa okkur öfgaflokka, sem halda allt öðru fram um skipulag þjóðfélagsins heldur en við flestir, sem nú sitjum á Alþ., viljum viðurkenna. Við skulum segja, að það væru til flokkar, sem vildu rífa niður okkar þjóðskipulag, þau grundvallaratriði, sem þjóðskipulag okkar byggir á. Ef þeir ættu þrjá fulltrúa á Alþ., ættu þeir rétt á því að koma sínum kenningum á framfæri í þessu tímariti. Nú vita menn, hvernig ástatt er um slíkar hreyfingar úti í löndum, og þeirra hefur orðið nokkuð vart hér heima. Við byggjum á lýðræðisfyrirkomulagi, og stjskr. okkar byggir á þeim grundvelli. En til eru þjóðlönd úti í heimi, sem hafa allt annað fyrirkomulag, þau hafa einræðisfyrirkomulag. Þar ríkir ekki skoðanafrelsi, alls ekki prentfrelsi, ekki einu sinni frelsi í athöfnum og langt frá því, að þar ríki trúarbragðafrelsi. Við byggjum þjóðfélag okkar á lýðræðisgrundvelli, þar sem þegnarnir hafa frjálsræði til þess að velja og hafna, óþvingað af ríkisvaldinu eða nokkru öðru. Hér ríkir skoðanafrelsi fullkomið og athafnafrelsi. Ef það er að einhverju leyti heft, þá er það í þágu almennings og bætt þeim, sem fyrir tjóni verða af þeim aðgerðum. Prentfrelsi ríkir hér og trúarbragðafrelsi, og svo ríka áherzlu leggjum við á þessi atriði, að þau eru vernduð og löghelguð í gildandi stjskr. Væru hér uppi flokkar, sem vildu vinna gagnstætt þessu og ættu þrjá fulltrúa á Alþ., þá ættu þeir rétt á því að hirta ritgerðir í þessu tímariti, og þeir mættu skrifa hvað sem þeim sýndist í þessu efni. Ef eitthvað af því kæmi í bág við landslög, þá ætti fulltrúi flokksins aðeins að svara til saka, en það mundi áreiðanlega ekki koma í veg fyrir það, ef þeim sýndist svo, að þeir gætu haldið kenningum sínum fram. Við vitum að, að í þessum einræðislöndum er eignarrétturinn upp hafinn. Hann er verndaður í stjskr. okkar, og hann er talinn mikilsverður, og á því byggjum við starf okkar. Þá hefur þjóðfélagið tekið að sér að vernda trúarbrögðin. Ríkið hefur tekið þjóðkirkjuna í vernd sína. Við vitum það, að út um heiminn er það svo, að það er ekki einungis, að þar ríki ekki trúarbragðafrelsi, heldur eru uppi stefnur um það að gerbreyta kristinni trú, og meira að segja er gengið svo langt í sumum þjóðlöndum, að því hefur verið haldið fram, að dauðlegir menn ættu jafnvel að koma í staðinn fyrir guð almáttugan. Það hefur verið ráðið til að dýrka þá, þeim ætti að trúa, þeir væru sendir af forsjóninni þjóðunum til handleiðslu og endurlausnar. Þessu hefur verið haldið fram, meira að segja, það hefur verið talið, að kristin trú hefði mjög skaðleg áhrif á mannkynið, menn yrðu ekki eins móttækilegir til þess að gera ýmisleg verk, sem þyrfti stundum á að halda, menn yrðu of veigrunarsamir og meyrlyndir og ekki líklegir til stórræða, ef eitthvað stórt væri að vinna. — Það er ekki einungis, að þetta brjóti í bág við gildandi l. og settar reglur hjá okkur, heldur brýtur það beinlínis ákvæði stjskr., ef slíkum kenningum er haldið á loft af ríkisvaldinu sjálfu. Fulltrúar þjóðarinnar hafa áreiðanlega þá skyldu, auk þess hvernig háttað er um kjör þeirra og framboð, þá hafa þeir skyldu til þess og hafa eiðfest það, að þeir ætli að vinna samkvæmt þessari stjskr. að þjóðmálum. Þeir hafa því skyldu til þess að gæta þess í athöfnum sínum á Alþ., að ekki sé farið að halda uppi kennisetningum og áróðri innan þjóðfélagsins um atriði, sem ganga gersamlega í bága við stjskr. ríkisins. Af því að ákvæði stjskr., þær gr. hennar, sem fjalla um kristna trú, eru svo fáorðar, þykir mér rétt að minnast á gildandi l. um þetta efni, en ég skal ekki fara langt út í það. Þar er sagt, að landsmenn eigi rétt á því að stofna félög til þess að þjóna guði eftir sannfæringu sinni. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp nokkur atriði, sem eru það mikilsverð, að það má vel minna á þau. Ég vil þá lesa fáein orð um þessi atriði, það eru l. frá 1736. Það er talað um uppfræðslu barna og ungmenna og segir á þessa leið:

„Engin börn mega confirmerast, sem eigi hafa áður gengið í skóla eða verið uppfrædd í þeim sérlegustu kristindómsins höfuðgreinum, en þar engir opinberir skólar eru stiftaðir í söfnuðinum, þá skulu þau fyrst af djáknanum eða öðrum hæfum manni leiðast til að þekkja guð, áður en þau að síðustu verða af prestinum uppfrædd í skilningi fræðanna, yfirheyrð og confirmeruð.“ Við þá athöfn, að börnin voru „konfirmeruð“, þá ákallaði presturinn ásamt söfnuðinum guð í hjartnæmri bæn. Svo er hér í konungsbréfi vikið að þessu sama. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Allir prestar skulu eftir þeim 4 artic. confirmationsfororðningunni, gæta þess nákvæmlega, og með allri vandlæting, sérhver í sínu kalli og embætti, að það, sem börnin, er eiga að confirmerast, svara til spurninga í þeirra kristindómsþekkinga, sé ekki einungis innifalið í minninu án skilnings og athuga, heldur skulu þeir eftir hljóðan þess sama artikula, kenna þeim þannig, að þau geti fengið eina lifandi þekking framkvæmi það, sem þau hafa lært, til nytsemda og kristindómsiðkunar í verkinu, þá guðs sannindi verða innprentuð hjá honum með alvörugefni, kynni að uppvekjast til að gefa sannleikanum rúm og að eftirfylgja honum í lifnaði og framferði, einnig að hann fái rétta umbreyting hjartans og hugskotsins.“

Ég hirði nú ekki að lesa fleira upp um þetta efni. Ég vil vænta þess, að hv. dm. sjái, að ákvæði stjskr. eru ekki sett út í loftið um þetta efni. Svo rík áherzla er lögð á þessi atriði, sem þjóðfélag okkar hefur tekið að sér að vernda, að það er sannarlega þess vert, að þm. hafi það í huga, að þetta byggist á ákvörðum stjskr. Við byggjum starf okkar á þeim grundvelli. Alþm. hafa skyldu til að gæta þess, að ekkert sé gert, sem rýrt getur gildi þessara ákvæða eða brotið í bág við þau.

Ég hef þá vikið að nokkrum atriðum, sem snerta þetta mál, og ég held, að málið sé þess eðlis, að það sé engan veginn víst, að neitt af því, sem vakir fyrir hv. flm., náist, síður en svo. Meira að segja það, sem líklegast er, er það, að árangurinn gæti orðið þann veg, að hann gengi í þveröfuga átt við það, sem vakti fyrir hv. flm.

Ég vil segja hv. flm. þessa frv. það, að ég tel, að þeim hafi missýnzt að flytja þetta mál. Ég er engan veginn að beina því til þeirra, að fyrir þeim hafi vakað nema gott eitt. Þetta eru mætir menn, sem áreiðanlega hvorugur vildi gera nokkuð til þess að koma hér af stað því, sem brýtur í bág við þær grundvallarreglur, sem þjóðfélag okkar byggir starfsemi sína á. En það gæti vel tekið þannig til, og það er ekki hin minnsta trygging fyrir því, að ekki takizt þannig til, að þetta gengi alveg í öfuga átt við það, sem til er ætlazt af hv. flm. fyrst þannig er ástatt um málið, þá á ekki að samþykkja það. Þess vegna er það till. okkar, minni hl., að þetta frv. verði fellt. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Ég tel, að ég hafi gert nokkra grein fyrir afstöðu okkar, minni hl., og hvers vegna við viljum ekki, að hv. þd. samþykki frv.