28.01.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3283)

27. mál, beitumál vélbátaútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Ég get lýst ánægju minni yfir undirtektum allshn. við þessa þáltill. mína og lýsi mig jafnframt samþykkan þeirri orðalagsbreyt., sem n. leggur til, að gerð verði, og vil mælast til, að brtt. n. verði samþ. og þáltill., þannig breytt, samþ.

Þegar við fyrri hl. þessarar umr. var ég stuttorður að beiðni hæstv. forseta. Ég geri og ráð fyrir því, að hv. þm. sé þetta mál vel kunnugt. Mér þykir þó rétt að rifja upp aðdraganda þessa máls og nauðsyn þess, að það nái fram að ganga, vegna þess, hve fáir þm. voru viðstaddir, er till. var fyrst til umr.

Það, sem einkum ber nauðsyn til að gera í þessu máli, er: Í fyrsta lagi að setja löggjöf til þess að tryggja vélbátaútvegi landsmanna næga beitu. Í öðru lagi, að það verði tryggt í lögunum, að beitan verði seld með eðlilegu verði, en ekki með slíku okurverði sem nú á sér stað. Í þriðja lagi, að sett verði ströng ákvæði um mat á síld til beitu.

Tilgangurinn með till. minni er að tryggja þetta í framtíðinni. Ástæðurnar fyrir þessari till. minni munu flestum kunnar. Nú er högum okkar svo háttað eftir eitt hið mesta síldveiðisumar, að mikill hluti vélbátaflotans er nú beitulaus. Hér í verstöðvunum við Faxaflóa mun nú um helmingur vélbátaflotans ekki geta farið á veiðar vegna beituleysis. Á Austurlandi leit út fyrir, að meginhluti vélbátaflotans yrði af allri útgerð á þessari vertíð vegna beituleysis, nema því aðeins, að keypt væri mjög dýr beita alla leið fra Færeyjum. En úr þessu rættist þó nokkuð, vegna þess að síld fór að veiðast eystra. Af þessu mætti mönnum vera ljóst, hve illa er búið að þessum málum nú og ekki má láta reka lengur á reiðanum með þetta.

Þá er annað ákvæði, sem er mjög knýjandi, að sett verði nú, en það er um verðið á beitunni. Nú er algengt, að verð á beitu sé 1.25–2.00 kr. á kg. Á sama tíma er svo þúsundum mála af síld kastað í sjóinn um síldveiðitímann, en vélbátarnir verða að kaupa beitusíld á 2 kr. kg. Hér er bersýnilega um stórkostleg mistök að ræða, enda eru nú stærstu útgjöld vélbátaflotans einmitt beitukostnaðurinn.

Þá mun flestum, sem þekkja til við sjóinn, það kunnugt, hvílík vandkvæði eru á því að þurfa að kaupa beitu úr fjarlægum landshlutum. Það er engin trygging fyrir hendi um gæði vörunnar, en menn verða svo að neyðast til að nota hana, hvernig sem hún er, þegar hún kemur. Það munu oft allmikil brögð að því, að seldur sé klaki með beitunni, en margir hafa gott lag á því að frysta mikið af vatni með síldinni, og síðan er allt selt eftir vigt. Með þessu móti er hægt að leika mjög á kaupendur, og auk þess er sú beita, sem þeir hafa keypt með ærnum kostnaði, oft nær ónýt. Það er því ekki nema sjálfsagt og réttmætt að setja lög um mat á beitunni, enda hefur fiskiþingið oft farið þess á leit við Alþ., þótt því hafi ekki verið sinnt enn.

Ég sé svo ekki þörf á því að lýsa þessu máli frekar. É g vona, að Alþ. taki því vel og hæstv. stj. taki þetta til athugunar í samráði við Fiskifélagið og láti síðan leggja fyrir næsta Alþ. frv. til l. um beitumál sjávarútvegsins.