18.03.1943
Neðri deild: 78. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (3324)

159. mál, bann gegn minkaeldi o.fl.

Flm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. — En hef í grg., sem fylgir frv., leitazt við að færa fram ástæður fyrir því, að hér er lagt til, að minkaeldi verði bannað í landinu; og gangi bannið í gildi um næstu áramót.

Í þessari grg. eru ummæli eins þess manns, sem bezt þekkti til þessara mála um það leyti, sem fyrst var farið að flytja minka til landsins, en það var Guðmundur Bárðarson náttúrufræðingur, og eru ummælin úr tímaritsgrein, sem hann skrifaði um þær mundir. Af þeirri þekkingu, sem hann hafði aflað sér um lifnaðarhætti þessara dýra, dró hann þá ályktun, ef svo færi, að þau slyppu úr girðingu, yrðu þau hættulegur bitvargur, ekki einungis fyrir dýr og fugla, heldur og fiskistofninn í vötnum og ám. Hann varaði við að ala þessi dýr af ótta við, að þau gætu sloppið og orðið til tjóns.

Sú tíu til tólf ára reynsla, sem fengin er, staðfestir, að viðvörun Guðmundar Bárðarsonar hefur verið á rökum reist. Það hefur komið á daginn, að allmikill fjöldi dýra hefur sloppið víðs vegar úr búrum og girðingum.

Þessi dýr laga sig vel eftir þeim skilyrðum, sem þau hafa til að lifa við. Byggist það á mikilli hæfni til að bjarga sér. Þau eru jafnfær til að afla sér fanga á landi, í ám, vötnum og sjó með ströndum fram. Skilyrði til tímgunar og til að auka kyn sitt eru þeim hagstæð, og stafar mikil hætta af dýrum þessum, verði svo látið ganga lengi sem hingað til. Þarf varla að ræða það frekar en gert er í grg., sem frv. fylgir. Þó vil ég bæta því við, að þess vegna er miðað við áramót, að þá er venjulegt að lóga dýrunum, því að þá eru skinnin verðmætust.

Ég hef lagt til, að verðlaun verði veitt fyrir að vinna villiminka. Má gera ráð fyrir, að sú veiði verði kostnaðarsöm.

Eins og getið er um í grg., var hert eftirlit með minkabúum 1938. Leyfði ráðherra þá og, að veitt væru verðlaun fyrir unna villiminka, allt að 30 kr. á dýr. Eitur má nota við þessa eyðingu. Tek ég ákvæði um þetta upp í frv., en það komi ekki til framkvæmda, fyrr en búið er að eyða þeim dýrum, sem í girðingum lifa hér á landi. Eigi er hyggilegt, að þetta ákvæði komi til framkvæmda fyrr, því að það getur verið varhugávert að láta menn fá hærri verðlaun út á dýr en nemur bjórverði þeirra. Eftir þeirri reglu hefur verið farið að undanförnu, og mun sú upphæð varla freista manna til þess að gerast lögbrjótar. Hins vegar sé ég ekki annað en allur vari sé góður og ekki eigi að greiða verðlaun fyrir önnur dýr en þau, sem veiðast sem villiminkar.

Ég skal geta þess, að ég hef fengið upplýsingar frá loðdýraráðunaut um tölu minka og skiptingu milli landshluta, og er hún frá 1. sept. 1941. Gullbringu- og Kjósarsýsla og Reykjavík 15116 Mýra-, Borgarfj: , Snæfellsnes- og Barða

strandarsýslur ........................ 186 Ísafjarðarsýslur ........................ 1686 Stranda-, Húnavatns- og Skagafj.sýslur……………………… 379

Eyjafjarðarsýsla ....................... 1429

Þingeyjar-, Múla-, Skaftafells- og

Árnessýslur og

Vestmannaeyjar .............. 1448

Samtals á öllu landinu… 20244

Mest er af dýrum þessum í nágrenni Reykjavíkur, eða 3/4 hlutar.

Þá vil ég enn fremur geta þess, að minkabúin eru 112, og eru sum sameign. Tala eigenda er um 500. Er því augljóst, að hlutur hvers manns er ekki ýkja stór.

Ég held, að fleira þurfi ekki að taka fram I þessu sambandi. Vil ég vænta þess, að tekið verði með fullum skilningi á þessu máli. Vænti ég, að frv. verði samþ. og hv. þm. geri sér ljósa þá hættu, sem stafað getur af þessum dýrum, leiki þau lausum hala. En vonandi eru þau ekki svo útbreidd enn þá, að ekki sé hægt að halda þeim niðri og eyða þeim og firra landið þeirri plágu, sem af útbreiðslu þeirra stafar.

Ég veit ekki, hvaða n. ætti helzt að fjalla um frv. þetta. Hvað hættuna snertir þá lýtur hún aðallega að landbúnaðinum, og ætti það því að fara til landbn., þótt það að öðru leyti gæti átt heima hjá allshn. Ég held þó, að ég geri það að till. minni, að málinu verði að lokum vísað til landbn. og að hún taki það sem fyrst til athugunar, svo að hægt verði að ljúka því, áður en þessu þingi lýkur.