03.03.1943
Neðri deild: 70. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (3515)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. — Þessi þáltill., sem kemur frá iðnn., fer fram á að rannsaka, hverjar fjárhagslegar afleiðingar hið hækkaða hráefnaverð hefur á rekstur og afkomu þeirra atvinnufyrirtækja, sem þau hafa orðið að sæta. En inn í þessar umr. eru kaupgjaldsmálin dregin. En á þau mál er ekkert minnzt í þessari þáltill. En það er vitanlegt, að samningsbundin grunnlaun hækkuðu ekki fyrr en 22. ágúst í sumar, og verkamenn fengu ekki dýrtíðaruppbót á kaup sitt fyrr en 1940, svo að það er vitanlegt, að kaupgjald í sveitinni hefur ekki hækkað vegna þess, að grunnkaup verkamanna hafi hækkað. En hitt er annað mál, að þegar atvinna jókst, þá fóru atvinnurekendur að bjóða hærra kaup, einnig í sveitinni.

En það er annað mál, þungamiðjan í þessu máli, uppbæturnar, sem alltaf er verið að deila um. Og hv. þm. V.-Sk. (SvbH) er einmitt alveg á réttri leið, þegar hann segir, að peningar, sem veittir hafa verið í uppbætur til sveitanna, hafi ekki náð tilgangi sínum, því að fólk flýr jafnmikið burt úr sveitunum þrátt fyrir þær, svo að það hlýtur því að vera einhver önnur ástæða en sú, að það vanti lagafyrirmæli slík sem um uppbætur nar hafa verið sett. Enda hlýtur það að verða svo, að t.d. fjallbóndi fær, minnstar eða jafnvel kannske engar uppbætur, af því að hann getur lítið eða ekkert selt. En svo eru bændur, sem fá miklu meiri peninga heldur en þeir þurfa til að lifa af og sumpart sem uppbætur á vörur sínar. Og hvað eiga þeir að gera við þá peninga? Annað hvort verða þeir, ef þeir vilja ávaxta þá, að kaupa það, sem í kringum þá er, eða fara með þá til kaupstaðanna og ávaxta þá þar.

Þessi áframhaldandi straumur fólksins til kaupstaðanna sýnir, að það eru ekki peningarnir, sem vantar, heldur annað, sem til þess þarf að halda fólkinu í sveitinni. Og hv. þm. ættu að endurskoða hugmyndir sínar um þetta.

Og ég vil vekja sérstaka athygli manna á því , að það var ekki fyrr en 22. ágúst í sumar sem grunnkaup verkamanna var hækkað.