10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (3591)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Hermann Jónasson:

Ég vildi aðeins gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli og get lýst yfir því strax, að ég get ekki greitt þáltill. þessari atkv. mitt. Þegar komu til atkv. launagreiðslur til embættismanna ríkisins í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna, þá gerði ég grein fyrir því með 2–3 orðum, hvers vegna ég gat ekki fallizt á þá tilhugsun, sem var lagt til, að viðhöfð væri.

Ég lít svo á, að eftir að gengið var inn á það af fyrrv. stj. og m.a. þeirri stj., er ég átti sæti í, að greiða uppbót til einstakra embættismanna án lagaheimildar, en með till. frá fjvn. En það endaði, eins og kunnugt er, með því, að hverri einustu launastétt voru greiddar upplortur frá 1000–2000 kr. á laun sín. Eftir þetta voru með l. lagfærð laun barnakennara. Í þriðja lagi kom svo ómagauppbótin og í 4. lagi 25–30% greidd á launin, og ofan á þetta allt saman kom svo dýrtíðaruppbótin. Tel ég með þessu öllu saman, að ríkissjóður fái. ekki staðið undir þessum launagreiðslum öllum, og þetta vil ég segja strax, að þetta fyrirkomulag fær ekki staðizt, og það mun sýna sig fyrr eða síðar. — Ég sé ekki ástæðu til að vera að taka þetta fé aftur með sköttum og vera þannig að koma með falskar eða ímyndaðar uppbætur. Slíkt tel ég ekki vera rétt eða samboðið hv. Alþ. að gera. Þegar horfið var að því ráði að greiða 25–30% uppbótina, átti vitanlega að fella niður allar óheimiluðu greiðslurnar. Því er það, að ég sé mér ekki fært að greiða þessari þáltill. atkv. mitt, því að mér finnst ekki svo haldið á þessu máli sem vera ber.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að þetta mál snertir bæði bændur og verkamenn. Með því að greiða þessar launauppbætur verður það til þess að hækka dýrtíðina, sem svo orsakar atvinnuleysi, þar sem atvinnuvegirnir þola ekki þunga dýrtíðarinnar og afleiðingin lendir auðvitað á bændum einnig. Af þessum ástæðum, sem ég hef nú rakið í stuttu máli, treysti ég mér ekki til að greiða atkv. með þáltill., en vil óska þess, að þetta mál verði ekki tekið til endanlegrar afgreiðslu, fyrr en dýrtíðarmálin eru leyst, og tel ég það réttlátt og sjálfsagt, að allar stéttir séu teknar til athugunar, hvað launamálin snertir, því að launamál einnar stéttar snertir svo aðra stétt, að óhjákvæmilegt er að athuga þetta mál í heild.

Og hvað þessa þáltill. snertir, þá vildi ég vænta þess, að hv. þm. séu svo réttlátir og framsýnir að sjá það, að hér er einungis um að ræða ímyndaða velvild til embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins, þar sem ríkissjóður verði ekki fær um að inna þessar greiðslur af hendi. Af þeim rökum get ég ekki greitt þessari till. atkv.