10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3600)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Það kemur fram talsverður misskilningur hjá hv. 10. landsk. og hv. þm. Ísaf. um afstöðu mína til þessa máls, og tel ég, að það sé óþarft, þar sem ég var búinn að gera grein fyrir henni.

Ég treysti mér ekki til að greiða atkv. með þessari till. nú, en tek afstöðu til dýrtíðarmálanna yfirleitt.

Ég tel, að fyrirkomulagið á launagreiðslum embættismanna sé þannig, að það fái ekki staðizt, og álít ég því óþörf þau ummæli, sem viðhöfð voru um það, að embættismönnum hefði verið greidd nokkur uppbót á laun sín. En hún var í rauninni ekki nema fyrir þann vinnukraft, sem þeir keyptu. Fyrir upphitun, ljós og ritföng var engin uppbót veitt. Urðu því embættismenn miklu verr settir, þegar dýrtíðin óx, en fyrir stríð. Í raun og veru var dregið af launum þeirra á þennan hátt.

Þessi greiðsla var innt af höndum án þess, að lagaheimild væri fyrir hendi, og var til þess að koma í veg fyrir það misrétti, sem skapaðist vegna styrjaldarinnar og nam 25% til 30% og dýrtíðaruppbót.

Þá var og greitt til þeirra, sem eru lægra launaðir, t.d. barnakennara.

Það er ómögulegt að greiða atkv. með þessari till., vegna þess að taka verður afstöðu til dýrtíðarmálanna yfirleitt, og það mun sýna sig, að ríkið hefur ekki efni á að inna þessar greiðslur af hendi. Þær ættu að falla niður, því að þær voru greiddar út úr vandræðum í byrjun. Þessi afstaða álít ég, að sé svo skýr, að ekki þurfi fleiri orðum að eyða til þess að skýra hana. En æskilegt væri, að þessi till. næði ekki fram að ganga fyrr en afstaða væri tekin til dýrtíðarmálanna yfirleitt.

Ég ætla ekki að fara út í það að ræða um verðuppbót til bænda, sem þeir hv. þm. þm. V.-Húnv. og hv. 2. þm. Reykv. voru að ræða. En ég vil einungis benda á það, að öllum stéttum væru tryggð viss lágmarkslaun. Árið 1931 fengu bændur yfirleitt það verð fyrir sínar afurðir, sem þeir þurftu til þess að reka atvinnu sina.

Útfluttar vörur hækkuðu lítið á erlendum markaði og var um að kenna aðgerðaleysi ríkisvaldsins. Og í raun og veru er hér um að ræða, hvort ríkið eigi að greiða bændum skaðabætur fyrir það tjón, sem það hefur gert þeim með því að gera þeim ófært að framleiða. Þetta eru ekkert annað en skaðabætur fyrir það.

Um það, hvort tryggja eigi stéttum yfirleitt lágmarkslaun, mun ég fara fáum orðum. En ég vil aðeins benda á, að fjárlögin eru ekki samin án tillits til þess, að verkamönnum sé tryggð nægileg vinna, og harma ég það ekki. Atvinnuleysi í þessu landi er þjóðhagfræðileg vitleysa. (ÞG: Heyr!). Ég býst við því, að það standi hvorki á mér né hv. þm. V.-Húnv. til þess að vinna að því, að vinnukrafturinn sé notaður, hvar sem er, og atvinnuleysinu útrýmt. Það er hið mikilsverðasta fyrir öll þjóðfélög.

Það er sanngjarnt, að ríkið greiði bændum skaðabætur vegna þess, hvernig það hefur farið með atvinnuveg þeirra, auk þess sem svo er litið á, að ríkið eigi að skaffa atvinnuna.