18.03.1943
Neðri deild: 78. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (3651)

158. mál, útreikningar þjóðarteknanna

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. — Þessi þáltill. um útreikning þjóðarteknanna er borin fram af mér ásamt þm. N.-Þ. Efni till. er að fela ríkisstj. að gera yfirlit yfir árlegar heildartekjur þjóðarinnar frá og með árinu 1936 og til þessa tíma, og er gert ráð fyrir, að því sé lokið næsta haust.

Eins og vikið er að í grg., eru ekki til skýrslur um þetta efni. Í skýrslum hagstofunnar er getið tekna einstakra atvinnugreina, en hvergi eru til skýrslur yfir tekjur þjóðarinnar í heild.

Það er bent á það í grg., sem fylgir þáltill., að það gæti haft margs konar þýðingu, að til vær í slíkt yfirlit um heildartekjur þjóðarinnar, sein gert væri árlega. Það gæti verið gagnlegt fyrir Alþ., þegar það tekur ákvarðanir um ýmis fjárhagsmál, eins og skattamál, fjárlagaafgreiðslu og fleiri þess háttar mál. Það mundi einnig koma að gagni fyrir n., mþn. t.d., sem starfa að athugun einstakra mála.

Það vakir fyrir okkur flm., að þetta væntanlega yfirlit eða skýrsla um þjóðartekjurnar eigi að sýna hreinar tekjur ár hvert eða nettótekjur þjóðarinnar. Ég ætla ekki að fara langt út í það að ræða um, hvaða þætti þarf að draga þarna saman á einn stað. En mér virðist, að það sé þó einkum öll framleiðsla þjóðarinnar, hvort sem hún er notuð af landsmönnum sjálfum innan lands eða flutt úr landi. Það er allur sjávarafli og öll landbúnaðarframleiðsla, bæði til eigin nota fyrir framleiðendur og til sölu, og það er hvers konar iðnaðarframleiðsla. En til frádráttar þessum tekjum kæmi svo að sjálfsögðu allt aðkeypt efni og aðkeyptar vörur frá öðrum löndum, sem þyrfti að nota til þessarar framleiðslu. Fleira virðist mér koma þarna til greina, sem telja megi í þessum tekjum, eins og t.d. jarðabætur, sem unnar eru ár hvert, og að sjálfsögðu líka nýbyggingar, ný hús og húsabætur að frádregnu verði innfluttra efnisvara, og má segja, að það sé aðeins einn þáttur iðnaðarins. Þá má benda á einn lið enn, sem er a.m.k. nú um stundarsakir, eða síðan árið 1940, það er endurgjald fyrir vinnu, sem látin er í té útlendingum. Á ég þar við þá vinnu, sem Íslendingar hafa framkvæmt í þágu hins erlenda herliðs, sem hér hefur verið og hér er enn. Og munu tekjur fyrir þá þjónustu, sem þeim útlendingum hefur verið veitt, hafa orðið allmiklar þessi árin.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég held, að ég hafi bent á stærstu liðina, sem þarna kæmu til greina við þennan útreikning. Ég sé, að það hefur verið ákveðin ein umr. um till. Og frá hálfu okkar flm. er engin till. um, að henni verði vísað til athugunar í n., því að mér sýnist, að ekki ætti að vera þörf á því. En hins vegar mun ekkert haft á móti því af hálfu okkar flm., ef einhver hv. þm. óskar eftir því, að þáltill. verði athuguð í n. og umr. frestað.