29.03.1943
Sameinað þing: 34. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (3736)

150. mál, jarðeignarmál kaupstaða, kauptúna og sjávarþorpa

Jón Pálmason:

Það er nú svo, eins og ég tók fram áðan, að ég lít þannig á, að það sé ekki nein framför frá upphaflegu till., sem hv. allshn. hér hefur lagt til, að ríkisstj. skipi þessa n., í stað þess, að hún sé kosin af Alþ. sjálfu með hlutfallskosningu, eins og venja er til um kosningu slíkra n. Ég býst ekki við að geta greitt atkv. með þessari brtt. allshn., vegna þess að ég tel á hinu betur fara, ef menn á annað borð eru á því að láta afgreiða þetta mál, að slík n. sé kosin af Alþ.

En það voru sérstaklega nokkur orð í ræðu hv. þm. Borgf (PO), sem gerðu það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs, því að mér virtist gæta hjá honum nokkurrar hræðslu út af þessari þáltill. um, að með henni væri meint allt annað en raunverulega er ætlað að ná með henni. Það er misskilningur hjá honum, að með þessari þáltill. sé það meiningin af flm. hálfu að fara inn á svipaða leið og farið var inn á með 17. gr. jarðræktarl. Þetta mál er alveg óskylt því máli og því óþarfi að blanda því inn í umr. um þessa þáltill. Það, sem aðallega vakir fyrir okkur flm. með flutningi þessarar till., er, að sett verði nákvæmari ákvæði um það, hvernig eigi að koma í veg fyrir stöðugan ágreining, sem verður, þegar þarf að tryggja kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum aukið landrými vegna þeirra þarfa, sem þeir er um að ræða. Þau mál hafa verið meðal heitustu deilumála hér á Alþ. á undanförnum árum. Og ætla má, ef ekki verða settar frekari reglur um það efni, þá haldi þær deilur áfram. Það má vel vera, að með löggjöf verði erfitt að koma í veg fyrir slíkar deilur. En þetta er svo víðtækt mál, að þörf er á að gera á því nákvæmari athugun og betri heldur en hingað til hefur verið gert.

Hv. þm. Borgf. var að tala um, að sér virtist, að með þessari þáltill. væri verið að gera einhverja herferð á eignarrétt manna í landinu. Þetta er alls ekki ætlun okkar flm., nema ef hv. þm. Borgf. eða aðrir, sem svipaðar skoðanir hafa, teldu, að gerð væri herferð á eignarréttinn í landinu með því að gera nánari ákvæði um það, hvernig eigi að tryggja kaupstöðum og kauptúnum aukið landrými. Það hefur nú komið fyrir í einstökum tilfellum, bæði varðandi stærri kaupstaði og smærri þorp, að það hefur verið farið inn á þá braut að grípa til þess að taka með eignarnámi lönd, ef samkomulag hefur ekki fengizt um sölu á þeim til afnota fyrir þessa staði. Og þetta gæti orðið að einhverju leyti áframhald á þeirri leið. Og ef það er þetta, sem hv. þm. Borgf. á við, þegar hann talar um herferð á eignarrétt manna í landinu, þá er það ekkert nýtt mál í þessari þáltill.

Varðandi hitt, hvernig eigi að koma í veg fyrir þessa verðhækkun, þá er það vandasamt mál, það hefur verið það, er það og hlýtur jafnan að verða það. En ég hygg, að flestir menn, sem um félagsmál hugsa, verði á einu máli um það, að það sé ekki heppilegt allra hluta vegna, að það sé haldið áfram með það í stórum stíl að braska með fasteignir í landinu á þann hátt, að þær hækki stöðugt í verði. Ég hef aldrei haft neina trú á því, að það kæmi í veg fyrir verðhækkun að láta ríkið eiga hlutdeild í jörðum landsmanna með þeim styrkjum, sem veittir eru til jarðræktar; það er atriði, sem ég hef aldrei getað fallizt á. En það kemur ekki þessu máli við. En á því búnaðarþingi, sem nýlega var haldið, mun hafa verið samþ. með öllum atkv. og því vísað til mþn., að nauðsyn væri, eftir því sem kostur er á, að koma í veg fyrir, að jarðir í landinu hækkuðu óeðlilega mikið í verði. Og því skyldi þá ekki eins vera fullkomin ástæða til þess að taka það atriði og rannsaka það, hvernig komið verði í veg fyrir, að lóðir í kaupstöðum og lönd þar hækki stöðugt í verði? Fullkomnasta skipulagið, sem um er að ræða á því sviði, er í mínum augum það, að hver kauptúnshreppur og hver kaupstaður eigi það land, sem viðkomandi kauptún og kaupstaðir standa á og þurfa að nota. Ef hægt væri að koma því svo fyrir, án þess að gengið væri of nærri eignarrétti einstakra manna, þá tel ég, að það væri vel farið.

Ég er algerlega andvígur því, að farið verði inn á þær leiðir, sem sumir menn hafa mælt mjög eindregið fyrir, að ríkið sé látið kaupa upp lönd og lóðir í kaupstöðum og kauptúnum og í nánd við þá staði og leigi svo kaupstöðum og kauptúnum það. Hitt er frá mínu sjónarmiði fullkomnasta aðferðin á þessu svíði, að kauptún og kaupstaðir eigi sjálfir land það, sem þeir standa á.

Annars held ég, að það sé hreinasti óþarfi að fara út af þessari þáltill. að búa til einhver ljón á veginum til þess að hræða menn á þann hátt með því að tala um, að ganga eigi á eignarrétt manna, þó að samþ. verði að athuga, á hvern hátt þessum jarðeignamálum verði bezt fyrir komið, þannig að sem heppilegast og hagkvæmast yrði þeim, sem þurfa þessara laga með. Og mér þykir mjög undarlegt, ef meiri hluti er fyrir því hér á Alþ., að heppilegra sé, þegar á að setja n. í eitthvert stórt mál, að hún sé skipuð af ríkisstj., hver sem sú ríkisstj. er, heldur en af Alþ., þannig að hún sé kosin eftir venjulegri aðferð með hlutfallskosningu á Alþ.