12.04.1943
Neðri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (3848)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Barði Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég verð að segja það, að mér geðjast ekki alls kostar að þessari þáltill. á þskj. 690. Fyrst og fremst álít ég hana algerlega ónauðsynlega. Ég býst við, að öllum sé kunnugt um, að menntamálaráð hefur gert samþykkt um það ekki alls fyrir löngu að hefja útgáfu á Íslendingasögunum, og hefur verið gert ráð fyrir að ráðast ekki í þetta nema með fullu samkomulagi við stjórn fornritaútgáfunnar. Það er sjálfgefið, ef menntamálaráð færi að gefa út Njálssögu á þessu ári, mundi það verða til óþæginda fyrir fornritaútgáfuna. Kaupendur að bókum menntamálaráðs eru tæplega 13 þús. Það þýðir, að bækur þessar fara svo að segja inn á hvert heimili á landinu. Ef Njála yrði nú gefin út af menntamálaráði, mundi verða stór halli á Njáluútgáfu fornritafélagsins. Á hinn bóginn get ég ekki séð, hvernig þessi fyrirhugaða Njáluútgáfa ætti yfirleitt að geta orðið Halldóri Kiljan Laxness eða útgáfu hans til nokkurs trafala. Það vita allir, að það tekur alllangan tíma að undirbúa slíka útgáfu, sem hér ræðir um. Bókin gæti naumast verið tilbúin fyrr en í haust, löngu eftir að Njála Laxness er komin út. Það er verið að prenta hana. Aftur á móti virðist allt þetta Njáluumstang hér í þingsölunum vera vel til þess fallið að vekja athygli á útgáfustarfsemi Laxness og verða honum óbeint til stuðnings. Ég álít sjálfsagt, að þetta mál sé athugað nánar og verði vísað til menntmn., en umr. frestað.