12.04.1943
Neðri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (3868)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Einar Olgeirsson:

Þó að margt bendi til þess, að ýmsir menn vilji takmarka ritfrelsi, er enginn réttur til að takmarka málfrelsi hér, nema umr. dragist úr hófi fram. Málið hefur ekki farið til n., en hv. flm. gekk alveg framhjá því að ræða brtt. mína og þar með sýna fram á, að með hans þáltill. yrði betur vandað til útgáfu Njálu en með brtt. minni. Það er gleymska, sem kemur sér vel fyrir hv. flm. Það hefði verið gaman að heyra, hvað helzt mælti með því að fara að hroða af útgáfu nú. Hv. flm. bar engin rök fram og reyndi ekki að mótmæla því, að rétt væri það, sem ég gat upp á um tilgang þáltill. Formaður Framsfl. vill nefnilega ekki láta útgáfu með formála eftir Sigurð Nordal fara inn á hvert heimili á landinu. Ef menn vilja, að Njála sé gefin út, er ekki til betra tækifæri en útgáfa fornritafélagsins með formála eftir Sigurð Nordal. Ef hún væri svo prýdd listrænum myndum, væri hér um hreinustu perlu að ræða í íslenzkri útgáfustarfsemi. En hv. flm. hafa engan áhuga á slíku, en vilja heldur hroða af einhverri útgáfu nú þegar. Í grg. stendur, að þetta eigi að vera vönduð heimilisútgáfa. Hún getur t.d. verið með formála eftir Jónas Jónsson og álíka vandað til hennar og var um Einar Benediktsson um árið. Það er hart, ef menn, sem eru riðnir við þjófnað um ritverk, eiga að fara ráða í menningarmálum Íslendinga.

Flm. var að tala um, að það væri erfitt að koma út vandaðri útgáfu af Njálu í ár vegna handrita, sem lægju í Khöfn og ekki væri hægt að ná hingað heim. Samt álítur hann, að það eigi að fara að ráðast í að drífa af útgáfu nú, þó að hann líti svo á, að ekki megi breyta stafkrók og hafi ekkert handrit. Ætla þeir þá að prenta upp þá útgáfu, sem nóg er til af?

Ég vona, þó að lítill tími gefist til að ræða brtt. mína, að það muni koma í ljós við atkvgr., að þm. vilji heldur vandaða útgáfu með formála Sigurðar Nordals en óvandaða útgáfu með formála Jónasar Jónssonar.