06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (3923)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Ingólfur Jónsson:

Hv. þm. V.-Sk. (SvbH) lýsti yfir því hér í hæstv. Alþ., að ég hefði á framboðsfundum í haust lofað bændum, að þeir skyldu fá nóg síldarmjöl í haust. Ég mun hafa gert það, og hafði ástæðu til að halda, að nóg síldarmjöl væri til. Stjórn Búnaðarfélags Íslands hélt því fram í Frey, sem sendur var um allt land í október s.l., að nóg síldarmjöl mundi verða til í vetur handa bændum. Ég sendi pöntun á síldarmjöli í september og hafði fulla ástæðu til að halda, að öll pöntunin kæmi. Kemur þetta álit mitt heim við það, sem hv. þm. Str. upplýsti, að nóg síldarmjöl hafi verið þá til. En það er mjög óvenjulegt, að pöntuð séu 12 þús. tonn af síldarmjöli, og því eðlilegt að halda, að ekki sé nauðsyn á öllu þessu síldarmjöli til fóðurs á þessum vetri, heldur hafi menn viljað birgja sig upp til næsta vetrar og nota sér lágt verð. En það hefur sýnt sig, að bændur hafa ekki yfirleitt fengið þær pantanir af síldarmjöli, sem þeir hafa óskað. Það kaupfélag, sem ég er forstjóri fyrir, pantaði 250 tonn af síldarmjöli, en fékk ekki afgreidd nema 150 tonn. En ég hef fulla von um, að bændur þeir, sem pöntuðu hjá mínu kaupfélagi síldarmjöl, verði þó ekki í vandræðum, heldur geti haldið sínum skepnum vel fóðruðum, enda hafa þeir fengið fiskimjöl og fóðurblöndu eftir þörfum. Allir hafa þeir fengið töluvert síldarmjöl, og ég held, að mér sé óhætt að halda fram, að þeir í venjulegum vetri þurfi ekkert að óttast í þessu efni.

Það hefur verið mikið rætt um það og það notað sem hart ádeiluefni á fyrrv. ríkisstj., að síldarmjöl var ekki nóg upp í pantanir. Það er eins og þeir, sem nota það fyrir ádeiluefni á fyrrv. ríkisstj., gleymi því, að sú ríkisstj. fór til Búnaðarfélags Íslands og fékk þar ráðleggingar um, hve mikið þyrfti að ætla til næsta vetrar af síldarmjöli. Sé því einhver ásökunar verður í þessu efni, þá er það Búnaðarfélag Íslands. Og fyrrv. ríkisstj. fór vissulega alveg þá réttu leið, þegar hún leitaði til Búnaðarfélags Íslands um þetta. Og það þurfti að skera úr þessu fljótlega, vegna þess að samningar höfðu verið gerðir um sölu á síldarmjöli erlendis, og þurfti því að ákveða, hve mikið mætti flytja út.

Ég held því, að hæstv. Alþ. ætti ekki að eyða lengri tíma í umr. um þetta mál. Hins vegar er ekkert á móti því að rannsaka, hvort tilhæfa er í því, að síldarmjöl liggi einhvers staðar í haugum innanlands, sem á að nota til áburðar. Ef svo skyldi reynast, er sjálfsagt að taka það síldarmjöl til notkunar og fóðurs á þeim stöðum, þar sem menn vantar það upp í pantanir og þurfa nauðsynlega að fá það.

Tími minn er nú búinn, en ég átti eftir að svara hv. þm. Ísaf. Verð ég að láta það bíða seinni tíma.