06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (3924)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Ég get litlu einu svarað af því, sem ég vildi svara, af því að ræðutími er takmarkaður.

Því er haldið fram af hv. þm. G.-K., hv. þm. Borgf., hv. þm. A.-Húnv. og fleirum, að ríkisstj. fyrrv. hafi afgr. síldarmjölið eftir ábendingu Búnaðarfél. Íslands. Það er nú upplýst af fyrrv. ráðh., að sala á síldarmjölinu hafi farið fram um mánaðamótin júní og júlí. En það er upplýst, að það bréf, sem skrifað var af ríkisstj. til stjórnar Búnaðarfélags Íslands, var dagsett 5. ágúst. Það sjá nú allir hv. þm., að stj. Búnaðarfélags Íslands gat ekki ráðið því, hve miklu væri haldið eftir af síldarmjöli, sem búið var að selja meira en mánuði fyrr en hún skrifaði bréf sitt. Það er því ekki ástæða til að ásaka stj. Búnaðarfélags Íslands fyrir það, þó að of litlu síldarmjöli væri haldið eftir.

Hv. þm. Ísaf, talaði um það, að verðlagsn. styddist ekki við vísitölu fyrir tilkostnaði bændanna. Þetta er í sjálfu sér rétt, því að slík vísitala hefur aldrei verið til útgefin. En jafnvíst er hitt, að slíka vísitölu hef ég á hverju ári reynt að finna með tveimur ólíkum leiðum, annars vegar eftir þeim búreikningum, sem fyrir liggja, sem þó alltaf eru gamlir, þegar maður fær þá, og hins vegar eftir skattskýrslum bændanna sjálfra. Ég hef alltaf sundurliðað, hvað ég hef talið, að t.d. kaupgjald, fóðurbætiskaup, fæðiskostnaður og annað fleira — milli 10 og 20 liðir mundi skapa bændum mikinn kostnaðarauka við búrekstur sinn, miðað við fyrri ár. Þetta hef ég gert til þess að mynda mér skoðun um þá grunnvísitölu fyrir kostnað bænda við búrekstur sinn, sem hægt væri að fara eftir, og hef gert þetta allt frá því árið 1934. Sumir liðir hafa hækkað á þeim tíma, en aðrir lækkað.

Eftir upplýsingum formanns kjötverðlagsn. þá eru það 13 þús. eða 14 þús. fjár, sem slátrað var í haust eftir sláturstíð. Af hverju var þetta gert“ Svari þeir, sem vilja. Var það ekki gert vegna skorts á fóðri, sem aftur stafaði af svil;um ríkisstj. í síldarmjölsmálinu?

Ég vil taka undir þá ósk hv. þm. Barð., að þetta mál verði rætt, svo að stefna fyrrv. ríkisstj. og pólitík í þessu máli megi verða þjóðinni til lærdóms, svo að þjóðin megi njóta góðs af, því að til þess eru vítin að varast þau, og enginn bóndi, sem kynnist störfum og afgreiðslu fyrrv. ríkisstj. í máli þessu, mun úr því bera snefil af trausti til hennar til eins eða neins.