06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (3926)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Pétur Ottesen:

Það er nú skammtaður tími hjá mér eins og öðrum hv. þm. Enda er síðari hluti þessara umr. þannig, að það er ekki eftirsóknarvert að halda áfram umr. með slíkum hætti. En það hefur greinilega komið fram í dag, hve öfgarnar geta farið langt, þegar síðasti hv. ræðumaður sagði, að til þess máls að lækka verð á síldarmjöli hefði verið stofnað af illvilja við bændur, en ekki búskapnum til heilla. Í ræðu hv. 1. flm. sýndi sig líka, að þungamiðjan hafði ekki lagazt í kollinum á honum síðan hann talaði síðast, þegar hann talaði um bréfaskipti ríkisstj. við Búnaðarfélag Íslands.

En ef hv. þm. Str. (HermJ) heldur því fram, að það hafi verið brotnar reglur með því að selja einstaklingum síldarmjöl, þá var það einnig gert í stjórnartíð hans, og það síldarmjöl var sent til Akraness og viðar. Þá kom einnig síldarmjöl með bátum, sem komu að norðan, og það voru útgerðarmenn þeirra báta, sem áttu það og seldu. Þegar þessi hv. þm. (HermJ) því deilir á fyrrv. hæstv. ríkisstj., þá deilir hann líka á sjálfan sig fyrir hans stjórn. (HermJ: Þetta getur ekki verið rétt). Ég skal færa honum heim sanninn um þetta síðar, ef hann óskar. Mér þykir ekki ástæða til að fara langt út í þetta mál. En þegar hv. þm. Str. talar um, að nóg síldarmjöl hafi verið til upp í pantanir, þá er því til að svara, að það er ljóst, að þegar sá ráðgjafi, sem ríkisstj. hafði í þessu efni, Búnaðarfél. Íslands, til tók 6500 tonn, en pantanir fóru langt fram úr því, þá er vitað, að skortur mundi verða á þessari vöru til þess að fullnægja pöntunum. Og þegar sagt er, að stjórn Búnaðarfélags Íslands hafi gefið það út, að menn geti fengið fullnægt pöntunum sínum, þá hélt hún því fram, að fóðurmjöl væri til í landinu upp í pantanir. (SkG: Hvar er það mjöl?). Það eru 800 tonn. sem til eru, en sumt er óunnið. (raddir af þingbekkjum: Er það í sjónum?). Já, sumt er í sjónum (Hlátur). Hvar væri íslenzka þjóðin stödd, ef hún mætti aldrei treysta á að fá fisk úr sjó? Á hverju byggjum við okkar tilveru? Ég held, að menn ættu að spara sér þennan hlátur, þegar á það er litið, að sjávarútvegurinn er okkar aðalatvinnuvegur. Hvar er fiskurinn, sem við veiðum? Hann er í sjónum. Kannske hv. 2. þm. N.-M. haldi, að fiskurinn sé drepinn á þurru landi.

Hv. þm. Str. sagði, að ég hefði látið falla ómakleg orð um hv. 2. þm. ,N.-M. (PZ) í sambandi við þetta mál, þar sem hann hefði látið í ljós við sig, að hann vildi losna úr kjötverðlagsn. Það getur vel skeð, að hann hafi gert það. Ég hef frétt um það eftir hv. 2. þm. N.-M., að það væru einhver bréf uppi í stjórnarráði um þetta. Þau hafa ekki fundizt. (ÓTh: Þau eru ekki til). Og um það, að ég hefði vikið að hv. 2. þm. N.-M. sem undirmanni í stjórn Búnaðarfélags Íslands er það að segja, að hann veik að mér sem yfirmanni í stjórn Búnaðarfélags Íslands. Og hafi ég rétt að honum köpuryrði, þá verðskuldaði hann þau sannarlega.