28.01.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (3930)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. Þessu máli, sem hér er til umr., var vísað til hv. allshn. N. ræddi málið á fundum sínum og gerði tilraunir til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um afgreiðslu þess. Málið hefur áður mikið verið rætt bæði utan þings og innan, og af þeirri ástæðu fannst n. ekki ástæða til að hafa það lengur hjá sér. En þegar að niður stöðum kom, þá skildu leiðir hv. nm., og tveir skárust úr og skrifuðu undir nál. með fyrirvara með það fyrir augum að bera fram brtt. síðar. Þessi ágreiningur var þó mjög smávægilegur. Meiri hl. allshn. leggur til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá, og er hún prentuð í nál. á þskj. 226. Í þessari rökstuddu dagskrá eru tekin meginatriði till., sem sé, að ráðstafanir verði gerðar til þess, að keypt verði og flutt til landsins kjarnfóður og enn fremur rannsakað, hvort síldarmjöl liggi fyrir í landinu, sem ætlað væri til annars en fóðrunar bú penings. Að öðru leyti fannst meiri hl, allshn., að hitt efni till. væri komið á áfangastað. Hinir tveir hv. nm. voru ekki ánægðir með þessa afgr. málsins og hafa nú borið fram brtt. á þskj. 227, sem fer fram á, að við hina rökstudda dagskrá bætist þessi orð: „og hvernig verði hægt að bæta úr þeim misrétti, er fram kom við úthlutunina“. Meiri hl. gat ekki fallizt á þetta og taldi það atriði till. þegar útkljáð, enda um það framkomnar skýrslur þær, er fyrir lágu. Meiri hl. fannst ekki hægt að tala um, að einn eða annar hefði orðið fyrir misrétti við síldarmjölsúthlutunina á síðastliðnu hausti. Ef til vill væri hægt að tala um misræmi en að kenna einhverjum ákveðnum aðila um það misræmi, það gat meiri hl. ekki fallizt á. Það hefur komið fram, að sá aðili, sem veitzt var að í þeim sökum, sem sé fyrrv. hæstv. ríkisstj., átti eigi sök á þessu misræmi úthlutunarinnar, vegna þess að við síldarmjölinu var tekið af verzlunum og viðskiptastöðum víðs vegar á landinu, og þeir aðilar áttu að annast um dreifingu þess eins og um dreifingu annarra vara, er slík fyrirtæki hafa með höndum. Hér var því í fyllsta máta um ósanngirni að ræða, að taka þetta atriði upp í hina rökst. dagskrá. Það vill oft verða með dreifingu slíkra vara, að ýmsir verða út undan, án þess að það þurfi að vera nokkrum sérstökum að kenna, nema þá ef til vill þeim sjálfum. Sumir koma kannske of seint með pöntun og aðrir hafa pantað of lítið í byrjun, en hafa svo orðið of seinir að sjá sig um hönd í þeim efnum. Ef aftur á móti þeir vita til þess, að þeir hafi verið misrétti beittir og vita um þann, sem slíkum rangindum hefur beitt, þá geta þeir að sjálfsögðu gengið að þeim aðila og lögsótt hann, eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði, er hann kvaðst geta lögsótt vissan aðila í þessu máli. Þetta er auðvitað leiðin, en ekki sú, sem hv. flm. brtt. á þskj. 227 vilja fara.

Fyrir þessa skuld telur meiri hl. allshn., að málinu sé borgið með hinni rökstuddu dagskrá á þskj. 226, og leggur til, að hún verði samþ. óbreytt.