30.03.1943
Sameinað þing: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3974)

29. mál, aðflutningstollar á efni til rafvirkjana

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég lít í kringum mig og sé, að hv. form. fjvn. er ekki viðstaddur, en raunar væri eðlilegast að spyrja hann að þessu. En þar sem hann er nú ekki við, skal ég svara þessari fyrirspurn. — Engin ákvörðun hefur verið um það mál gerð í fjvn., en lagt aðeins á vald ríkisstj. að ganga frá því. Það er ekki rétt, að gerðar hafi verið samþykktir í n. um einstaka liði í þessum undanþágubeiðnum.

Eins og nál. meiri hl. fjvn. ber með sér, lítur meiri hl. n. svo á, að ekki eigi að hafa þá aðferð; sem hér er viðhöfð, að óska eftir þessum undanþágum tolla með einfaldri þál., heldur telur n. réttara, að farið sé fram á það í frv.-formi, þar sem farið er fram á breyt. á l. Þessi aðferð hefur hingað til verið höfð, og n. lítur svo á, að henni eigi að fylgja. Skammt er að minnast þess, að afgreidd hefur verið undanþága á tolli af innfluttu efni til kassagerðar, og var það gert með l. Enn fremur var og sama aðferð viðhöfð við undanþáguumleitun á aðflutningstolli á pappa utan um hraðfrystan fisk. Því hefur það og verið álit n., að sömu aðferð ætti að hafa áfram í frv.- formi, um hvaða undanþáguheimild frá tollskránni, sem um væri að ræða, og ætti að vera nægur tími til þess að hafa einnig þá aðferð hér, þegar efni til þessara virkjana fer að berast til landsins.