18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (3992)

160. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Það var talsverður fróðleikur í ræðu hv. 7. landsk. Hann og hans flokksbræður virðast hugsa um þessa æskulýðshöll með flokkshagsmuni fyrir augum. Við þann hugsunarhátt er í rauninni ekkert að athuga út frá þeirra sjónarmiði, síður en svo, því að þeir lifa aðeins til að agitera fyrir sinni stefnu. Ég er þakklátur þessum hv. þm. fyrir það, að hann benti einmitt á þá hættu, sem þessu máli getur stafað af honum og hans líkum, og það er nauðsynlegt að taka það til athugunar og rannsaka málið óhlutdrægt. Þetta hús verður aldrei til gagns, ef það á að vera háð áróðri einstakra manna. Það verður að vera yfir allan áróður hafið.

Það, að íþróttafélögin í bænum vil ja ekki taka þátt í þessu, þá lái ég þeim það ekki, þó að þeir vilji ekki ganga í félagsskap við kommúnista hér í Rvík. En íþróttafélögin eru aðalstofninn í æskulýðsfélögum bæjarins, og þess vegna á að leita álits þeirra um málið, þegar allt hefur verið rannsakað til hlítar.

Ég sé ekkert athugavert við það, þó að málið fari nú til allshn., því að á þessu stigi þarf það gaumgæfilegrar athugunar við. Ég er ekki með því, að málið fari til Sþ., því að mjög er nú liðið á þingtímann, og ég treysti mér ekki til þess að fá þessa þáltill. útrædda þar, því að mörg mál daga þar uppi. Enda ætti það að koma í sama stað niður, þó að málið sé aðeins rætt í annarri d., þar eð hún er skipuð fulltrúum allra flokka.