10.04.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (4022)

156. mál, Þormóðsslysið

Frsm. minni hl. (Sigfús Sigurhjartarson):

Ég hafði ekki búizt við því að þurfa að taka aftur til máls. Mín framsaga fyrir hönd minni hl., sem ég mynda einn að vísu, var svo stutt og hófleg, að mér komu á óvart þau svör, sem hún fékk.

Hv. 10. landsk. vill halda því fram, að það sé tryggt, að hér fari fram rannsókn, sérstök rannsókn. Í l. nr. 85 1936, 206. gr., segir svo, sem ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa hér upp: „Nú hefur skip farizt, beðið tjón eða lent í háska að öðru leyti, og ber þá sjó- og verzlunardómi að rannsaka eftir föngum öll þau atriði, er máli skipta, svo sem um skipið og útbúnað þess, farm, framferði skipstjóra og skipshafnar, hafnsögumanns“ o.s.frv. Hvar eru svo bréfin, sem sjódómi hafa verið send, sem leggi honum ríkari skyldur á herðar en greinir í þessari grein? Það er af því að sjódómur liggur undir því að hafa slælega rekið rannsókn í mörgum málum, að stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins sér sér ekki annað fært en ýta við dómnum til þess að reyna að vekja hann. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því, að dómurinn vakni? Verður ekki sama uppi á teningnum og áður? Skipin okkar sökkva með allri áhöfn og ekkert heyrist frá sjódómnum. Hver er orsök þess, að ekki hefur verið gerð ýtarleg tilraun til þess að upplýsa orsakir slysanna? Ég get ekki látið hjá líða í þessu sambandi að vekja athygli á því, hvernig hún var fyrsta rannsóknin, sem gerð var út af þessu hörmulega slysi, og hver var niðurstaða hennar. Það voru fengnir valinkunnir menn til þess að rannsaka brak, sem að landi bar úr Þormóði. og niðurstaðan var þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Á fleka þessum eru botnspor fyrir bátauglu og messing áfellingaalok fyrir olíu. Byrðingsflekinn ber það með sér, að hann er brotinn eftir harða viðkomu, þannig að skipið hefur komið á grunn eða stór partur af flekanum barizt í grjóti.“ Það var ekki lengi verið að skýra þetta í dagblöðum bæjarins svo, að skipið hefði kennt grunns. Það á enginn maður sök á því, þó að skip kenni grunns og brjóti í spón, a.m.k. er það ekki að kenna ósamræmi í byggingu vélar og skips eða útbúnaði yfirleitt. Þetta er almenningi sagt, og það er þægilegt fyrir sjódóminn að komast að sömu niðurstöðu. En hvað segja kunnugir menn? Mér segja sjómenn, sem búið hafa á Garðskaga árum saman, að það sé gersamlega útilokað, þegar athuguð er vindstaðan, að skipið hafi kennt grunns á Garðskagaflös eða á þeim slóðum, sem lýst er. Eini möguleikinn til þess, að það hafi kennt grunns eftir þeim upplýsingum, sem gefnar eru um skipið, er, að það hafi orðið á meðan það var enn ofansjávar.

Mér þykir furðulegt, að nokkur maður skuli í alvöru mótmæla því, að fulltrúar sjómanna sjálfra taki þetta. mál í sínar hendur og rannsaki það til hlítar. Mér þykir furðulegt, að allir skuli ekki vera sammála um það, að eingöngu með því er hægt að skapa það almenningsálit, sem nauðsynlegt er í málinu, að allt sé gert, sem hægt er, til þess að upplýsa þetta. Allir hljóta líka að sjá, að það eru einmitt sjómennirnir, sem eru menn fyrir því að koma fram með till. til þess að fyrirbyggja, að svo hörmuleg slys sem Þormóðsslysið var, geti komið fyrir. Það er ekki ástæða til að fara um þetta miklu fleiri orðum, en mér þykir fróðlegt að sjá, hverjir þeir þm. eru, sem vilja með atkvæði sínu segja, að sjómenn þurfi hér engan fulltrúa, hverjir þeir þm. eru, sem vilja segja, að dómar sjódómsins hafi á undanförnum árum verið þannig, að engin ástæða sé til annars, þegar hörmuleg slys ber að höndum, en að láta sjódóminn fjalla um málið. Mér þykir fróðlegt að sjá þá þm., sem vilja segja: Skipaskoðun okkar er svo fullkomin, að engin ástæða er til að láta sjómenn fara að hnýsast í þetta mál. Þetta kemur fljótt á daginn, og mun ég ekki fara fleiri orðum um till. Ég sé, hvernig þm. greiða atkv. um till. og þykir leitt að hafa þurft að ræða hana, það er svo sjálfsagt, að sjómenn framkvæmi ýtarlega rannsókn á slysum sem þessum, og geri till. um. hvernig komið verði í veg fyrir, að þau endurtaki sig.