16.03.1943
Sameinað þing: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (4046)

105. mál, virkjun Lagarfoss

Skúli Guðmundsson:

Ég vil minna á það í sambandi við þessa till., að á Alþ. 4. sept. 1942 var samþ. þál. um raforkumál. Samkv. 2. mgr. þeirrar þál. var ákveðið að fela ríkisstj. að láta fara fram undir umsjón Rafmagnseftirlits ríkisins rannsókn á fallvötnum landsins og því, hvernig hagkvæmast væri að fullnægja raforkuþörf manna víðs vegar á landinu. Mér virðist, þar sem þetta er svona nýsamþykkt, hefði verið eðlilegra, að áhugamenn um þetta mál hefðu snúið snúið sér beint til hæstv. ríkisstj. Slík mál eiga ekki erindi á Alþ. Það hefði átt að fara til stj. en ekki þingsins með ósk sem þessa, eftir að búið er að samþykkja þál. þá, er ég hef nefnt. Ég sé á grg., að ekki er ætlazt til, að Alþ. ákveði, í hvaða röð rannsóknir eru gerðar, heldur eigi það að vera á valdi ríkisstj. eða raforkumálan. Þess vegna finnst mér eðlilegast, að þeir, sem vilja framgang þessa máls, snúi sér beint til ríkisstj.

Ég vil benda á, að það er óeðlilegt eins og þessum málum er nú fyrir komið, að hver einstakur þm., sem hefur áhuga fyrir raforkurannsóknum einhvers staðar á landinu, fari að bera fram á þingi till. um það. Þess vegna vil ég gera að till. minni, að málinu verði á þessu stigi vísað til hæstv. ríkisstj.