30.03.1943
Sameinað þing: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (4159)

162. mál, Kennaraskóli Íslands

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. — Þessi þáltill. á þskj. 578 er flutt af okkur hv. þm. A.-Sk. (PÞ). Ég skal aðeins fara um hana örfáum orðum og óska þess, að henni verði vísað til athugunar hv. allshn. Þáltill. fer fram á það, að gerðar verði ráðstafanir til þess að tryggja hentugt land við jarðhita í sveit til afnota fyrir kennaraskólann, ef hnigið yrði að því ráði að byggja yfir þann skóla á slíkum stað. Það er, eins og kunnugt er, ákaflega mikil eftirspurn eftir slíkum löndum, þar sem um slík hlunnindi er að ræða. Og þess vegna er full ástæða til þess af hálfu ríkisstofnana slíkra sem þessarar að hafa undirbúning með að tryggja sér slík lönd, ef þær kynnu að þurfa á þeim að halda.

Hér er til meðferðar í þinginu og er komið nokkuð áleiðis frv. um Kennaraskóla Íslands, þar sem gert er ráð fyrir að lengja námstíma skólans um einn vetur og þar af leiðandi fjölga nemendum þar. Bæði af þeim ástæðum og öðrum má gera ráð fyrir því, að ekki líði langur tími, þangað til þarf að byggja nýtt hús yfir skólann. Ég skal ekki fara nánar út í þær ástæður nú, sem ég tel mæla með því, að byggt yrði yfir skólann á slíkum stað, sem til er tekinn í þáltill., og hann fluttur þaðan, sem hann er nú. Um það verður rætt á síðara stigi málsins. En ég vil aðeins upplýsa það, hv. þm. til athugunar og til athugunar fyrir þá hv. n., sem fær málið til meðferðar, að eftir upplýsingum, sem við flm. þáltill. höfum fengið hjá forráðamönnum skólans, þá mun láta nærri, að nú í vetur skiptist nemendur í skólanum þannig, að af hverjum 7 nemendum þar séu nálægt því að vera einn úr Rvík. Þ.e.a.s. 6 af hverjum 7 nemendum, sem nú eru í skólanum, eru komnir úr öðrum stöðum en Rvík, bæði úr sveitum, kaupstöðum og kauptúnum úti um land. Það sést af þessu, að það er þannig um þennan skóla, að nemendatala úr Rvík er þar tiltölulega mjög lág. Ef tekið væri meðaltal nokkurra síðustu ára í þessu efni, þá mun það verða enn minni hluti nemendanna, sem er úr höfuðstaðnum.

Ég skal svo ekki hafa um þessa þáltill. fleiri orð, en vænti þess, að málinu verði vísað til hv. allshn.