12.02.1943
Neðri deild: 57. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

132. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1943

Pétur Ottesen:

Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir þeirri breyt., er orðið hefur á frv. þessu í Ed. — Mér finnst það undarlegt, að frv. skyldi vera breytt í þetta horf, er Ed. var því samþykk, að reglulegu Alþ. yrði frestað, að samkomudagur þess yrði annar að þessu sinni en ákveðið er í l., vegna aukaþ., er nú stendur yfir.

Sú aðferð að framlengja aukaþ. virðist eðlileg, eins og ástatt er nú. —

Aðalverkefni aðalþ. verður eðlilega að afgreiða fjárl. fyrir árið 1944, og ég geri ráð fyrir því, að mönnum komi saman um, að á þessum yfirstandandi tímum, þegar öll þessi óvissa ríkir í hverju sem er, þá standi Alþ. því betur að vígi með að áætta fjárhagsáætlun næsta árs því síðar sem það er gert á þessu ári. Á þann hátt fæst bezt yfirsýn yfir fjárhagsafkomu þessa árs og einnig bezt innsýn í það, hvernig hún muni verða á næsta ári, eftir því sem næst verður komizt á þessum tímum. Það hefði því verið eðlilegt og í samræmi við þetta að fresta samkomudegi aðalþ. þangað til síðar á árinu, eins og stj. vildi líka að gert yrði.

Mér finnst það vera ákaflega einkennileg ráðstöfun, ef á að fara að setja nýtt þ. 4 dögum eftir að þessu aukaþ. er lokið til þess eins að fresta því þangað til síðar á árinu. — Ég held, að þessu athuguðu, að hv. þm. hljóti að vera ljóst, að breyt. hv. Ed. á frv. þessu hefur verið alveg óþörf, og heldur til hins verra.

Ég vildi nota þetta tækifæri við 2. umr. þessa máls, til þess að láta þessa skoðun mína í ljós, að ég hefði heldur kosið, að frv. þetta hefði verið í sinni upprunalegu mynd eins og það kom frá stj.