01.02.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Forseti (GSv):

Ég vil biðja hv. þm. að ljá því athygli, að svo var til ætlazt, að hægt yrði að ljúka þessari umr. fjárl. áður en mjög langt yrði liðið nætur. Það er nú svo, að klukkan er þegar orðin tvö, og enn eru þm. á mælendaskrá. En þar sem ég þykist vita, að nokkrir þm. muni vilja kveðja sér hljóðs og hafa ekki enn gefið sig fram, þá vil ég mælast til þess, að ég fái nöfn þessara manna á mælendaskrá, til þess að auðið sé að fara nærri um það, hvort hægt sé að ljúka umr., svo að vel sé, á þessari nóttu. Auk þess ber að líta á það og taka tillit til þess, að þingfundir eru verr sóttir að næturþeli en um hábjartan daginn, þó að hins vegar forsetar megi stundum horfa á auða bekkina jafnvel þann hluta sólarhringsins. Ég vil þá enn óska eftir því, að þeir hv. þm., er hafa í hyggju að taka til máls við þessa umr., geri svo vel að gefa sig fram. (Allmargir þm. gefa sig fram við forseta). Ég hef þá skráð hjá mér þá, er hafa kvatt sér hljóðs, og eru það of margir þm., sem komnir eru á mælendaskrá, til þess að hægt sé að ljúka umr. á þessari nóttu, eins og hv. þm. geta sjálfir séð. Verður því horfið að því ráði að halda ekki umr. áfram að þessu sinni miklu meira en orðið er. En ég vil beina því til þeirra hv. þm., er hafa óskað að taka til máls, að umr. þarf að vera lokið á morgun og atkvgr. þá fram að fara. Ég vildi rétt geta þessa, til þess að hv. þm. gætu séð, að þörf er á því, að þeir tali í sem stytztu máli, enda ætti svo að geta orðið, þar sem ég sé, að á mælendaskrá eru flestir, sem áður hafa við þessa umr. tekið til máls og lýst brtt. sínum. Gef ég þá hv. frsm. orðið.