02.02.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Ég hef ekki séð ástæðu til að taka þátt í þessum umræðum. Eins og vanalega hefur fjvn. haft frv. til athugunar og gert sínar athugasemdir. Umræður kommúnista hafa aftur á móti verið eins konar „grínrevu“ þeirra á sjálfum sér.

Ég hef haft annað að gera og því ekki getað verið hér stöðugt á fundum. Úr því að umr. hafa dregizt svona lengi, vil ég taka fram, að það er ekkert nýtt fyrir mig að heyra, hvernig kommúnistar hafa hagað málsmeðferð sinni hér. En sá varanlegi ávinningur, sem af þessu fæst, er sá, að kommúnistar hafa sýnt þeim, sem ekki þekktu áður, sitt sanna eðli. Þeir hafa komið þannig fram, að það er óumdeilanlegt, að þeir skoða sig sem eins konar utangarðsmenn í þjóðfélaginu. Þeir, sem hafa villzt til þess að greiða þessum mönnum atkv., eru margir mestu sómamenn. En þeir bera ábyrgð á því, að þingið hefur innan sinna vébanda svona menn. Hver dagur, sem líður, sýnir, að ekki er hægt að trúa þessum mönnum til nokkurs hlutar, enda er það mála sannast, að ekki þýðir að kjósa þá menn á þing, sem ekki gera annað en þvælast fyrir, rifa niður og tala vitleysu. En ég er þakklátur forsjóninni fyrir það, að þeir hafa afhjúpað sig. Það er verulegur ávinningur fyrir okkur Íslendinga, að þessir menn hafa afhjúpað sig á þennan hátt.

Það hefur aldrei komið fyrir, að máli, sem er í n., hafi verið vísað til n., eins og þessir menn fara fram á. Þessum fáráðlingum er það ekki sjálfum ljóst, að þeir eru að gera sig að athlægi. Þó að búið sé að drepa allar þessar till. þeirra, sem alveg var óhugsanlegt að framkvæma, þá koma þeir bara með till. aftur og aftur.

Kommúnistar hafa hagað sér öðruvísi en áður hefur þekkzt. Þeir úr hópi kommúnista, sem eru í fjvn., hafa tekið upp úr bókum og skjölum n. ýmislegt og komið fram með það hér sem sínar till. En svo vill enginn lita við þessu, eins og líka er eðlilegt. Svona vinnubrögð eru óhæf, auk þess sem sumt af því, sem þeir hlaupa með, er ósannur þvættingur.

Það má segja það sama um kommúnista og hinn mikli gáfu- og lærdómsmaður, Brynjólfur biskup, sagði um Bauka-Jón. Bauka-Jón hafði fengið dóm fyrir meintan glæp, en kom ár sinni svo fyrir borð hjá stjórninni, að hann fékk loforð fyrir vígslu, þegar hann kæmi út, og var Brynjólfi biskupi skipað að vígja dónann, er hann kæmi heim. Alþ. verður að þola, að þessir þingóhæfu menn sitji hér. Hinn merki biskup varð að vígja Bauka-Jón. En af lærdómi sínum og þekkingu fann biskupinn úrlausn. Hann valdi sér að texta: „Sá, sem fer inn í fjárhús öðruvísi en um dyrnar, er bæði þjófur og morðingi“. Þó að ég heimfæri þetta upp á kommúnista, þá er það aðeins í andlegri merkingu. Það er öllum ljóst, hvað Brynjólfur biskup á við. Hver, sem fer öðruvísi inn í hús en um dyrnar, hlýtur að brjóta vegginn, og það gerir enginn nema í óleyfilegum tilgangi. Bauka-Jón brýtur vegginn, enda var tilgangur hans óleyfilegur.

Öll aðferð þessa flokks bendir til þess, að líkingin sé vel valin, því að kommúnistar brjóta allar reglur. Í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna vilja þeir brjóta sér leið á sama hátt. Ég spái því, að örlög þeirra verði hin sömu og Bauka-Jóns. Það er talsverður vandi að fást við þessa menn, sem standa á allt öðrum grundvelli. Það þarf sérstakar aðgerðir, sérstaka tækni til að fara rétt með þá, sem hafa farið öðruvísi inn í þingið en gegnum dyrnar.

Ég vil benda á ummæli eftir hinn merka, brezka stjórnvitring, Balfour, í sambandi við það, hvernig fara þarf með þá, sem komast þannig inn í þingið: „Það er ekki hægt að láta þingræði og þingstjórn lifa lengur en á meðan þm. standa á lýðræðisgrundvelli“.

Þegar kommúnistar og nazistar komust inn á þing hinnar stóru og merku þjóðar, Þjóðverja, varð það að skrípamynd. Öllum var ljóst, að Þýzkaland gat ekki blómgast undir stjórn slíkra manna.

Margir álasa íslenzka þinginu fyrir, að það gat ekki myndað stjórn. En ég vil spyrja: Hvernig mundi ganga í knattspyrnu, ef knettinum væri sparkað öfugt við það, sem rétt væri? Fimmti partur þingsins hlýðir ekki reglum þess, heldur haga þeir menn sér eins og ólátabelgir. Lífstefna kommúnista sýnir, að þeir vilja, að farið sé að eins og í knattspyrnu, þar sem alltaf er sparkað öfugt. Þessar umræður og meðferð kommúnista á fjárlagafrv. sannar þetta. Hv. þm. verða að skilja, að hér eru öfl, sem stefna að því að spilla og gera þ. óstarfhæft. Hver, sem hjálpar kommúnistum til að komast annars staðar inn en gegnum dyrnar, er því samsekur þeim.

Ég sé varla ástæðu til að ræða um hnútur þær, sem kastað hefur verið að nefnd, sem ég er í, og á ég þar við Menntamálaráð.

Það er kunnugt, að kommúnistar hafa lagt. fram lista með nöfnum ýmissa manna, sem þeir vilja, að komist á föst laun hjá ríkinu. En það mun koma í ljós, þegar gengið verður til atkvæða um þetta, að ekki er hægt að taka það til atkvgr. Nú hafa þau undur gerzt, að tveir þm. úr Sjálfstfl. hafa gerzt flutningsmenn till. um að bæta nýjum staflið við 18. gr. fjárl., sem ég hef áður minnzt á. Er það skiljanlegt að nokkru leyti. Hér er um reynslulitla menn að ræða bæði um störf hér í þinginu og annars staðar. En ég vona, að með tíð og tíma sjái bæði þeir og aðrir, að betra er að fara inn í húsið um dyrnar en öðruvísi.

Hér koma því óþroskuðustu menn þingsins með lista með 32 nöfnum. Þar er Davíð skáld Stefánsson settur lægra en rithöfundar; sem ekkert er keypt eftir. Það er hægt að fara um heilar sýslur án þess að sjá bók eftir þá menn, sem þessir fáráðlingar ætla að stilla hátt. Og það er athyglisvert, að bæði Davíð Stefánsson og Guðmundur á Sandi eru gerðir hálfdrættingar við menn, sem standa þeim langt að baki. Kommúnistar hafa hlunnfært báða þessa reynslulitlu þm., en sett ritfé sitt í hæstu röð. Þessir þm. hafa ekki gætt flokkshagsmuna, eins og eðlilegt hefði verið, heldur látið véla sig af einum allra grunnfærasta viðvaningi þingsins.

Þegar búið er að setja Þórberg og Kristmann Guðmundsson svona hátt, álitum við hinir, að setja beri marga aðra menn eins hátt. En stríðsgróðavitleysan á að fá að njóta sín á þessu sviði og standa í eitt ár.

Ég efa það stórlega, að þessir tveir ungu sjálfstæðismenn fái nokkra þökk fyrir þessi störf sín hjá kjósendum sínum, þegar farið verður að þukla um það, sem þeir eru að búa til hér. Það versta við þetta mál er það, ef menn verða settir í tugatali inn í þingið, ekki einungis án allrar ráðdeildar, heldur og á strákslegan og viðvaningslegan hátt. En þetta er í samræmi við stefnu kommúnista.

Okkur, sem viljum þinginu vel, mundi taka sárt til þess, ef 60–10 menn færu inn í þingið á þennan hátt til þess að vanvirða það. En það væri viss ávinningur. Vanmáttur og eymd þessara manna (kommúnista) yrði þá augljós. Skrílveldi þeirra mundi standa skamma stund og þjóðin fá óbeit á framferði þeirra og heimta, að þeir yrðu vandir af því, jafnvel í gríni, að spila nokkra herra hér á Alþ.

Þá ætla ég að víkja að einum þessara manna, sem mest er barizt um, en það er Halldór Kiljan Laxness. Það þarf ekki að fjölyrða um það, að þessi maður er góðum gáfum gæddur og hæfileikamaður. Hann hefur búið sig vel undir starf sitt, farið víða og hefur gott vald á móðurmálinu. Það virtist um stund, að hann mundi geta orðið góður rithöfundur hjá þjóð sinni, eða þar til hann hafði lokið Sölku Völku og fyrra bindinu af Sjálfstæðu fólki. Þó tekur þar að gæta byrjunar á öfgum. Hann verður viðskila við fólkið, en ekki árásarmaður. Þessar bækur sýndu, að Halldór er talsvert skáld, eða a.m.k. lézt leitast við að vera það. Í síðara bindinu af Sjálfstæðu fólki er hann orðinn forhertur flokksmaður og fer þar að koma fram áróður. Þau laun, sem farið er fram á, að Halldór fái, ber því að skoða sem flokkslaun. Allir flokkar hafa menn, sem berjast fyrir málstað þeirra og borga þeim auðvitað fyrir það. Kommúnistar vilja, að ríkið greiði Halldóri laun fyrir áróður hans. Aðrir flokkar mundu fara hins sama á leit, ef þeir hefðu nógu mikla ósvífni til þess. En þetta eru þau sérhlunnindi, sem kommúnistar ætla að veita sínum mönnum.

Það er alltaf eitthvað sorglegt við það, þegar skáld fer að blanda agitation saman við skáldskap. Það var dálítið hliðstætt með Einar H. Kvaran. Hann lamaði sig sem skáld, þegar hann hætti að hugsa um listina, en tók að gefa sig að áróðri.

Svipað fer fyrir öllum rithöfundum, sem taka að vinna fyrir kommúnista. Þeir lamast sem skáld, þegar þeir gerast áróðursmenn fyrir stefnu þeirra, því að hún er fúin.

Einar H. Kvaran var mikill rithöfundur og var mikils metinn, en skáldskapur hans var lamaður af þessu eina, spíritismanum. Þar var ekki lengur hugsað um listina fyrst og fremst, heldur var þar um áróður að ræða. Hið sama má segja um Kiljan; skáldskapur hans er áróður; hann er baráttumaður gegn öllu, sem ekki veitir bolsevismanum lið. Kiljan er færari í sinni grein heldur en margir hinna, og er honum því meiri eftirtekt veitt. Það hefur farið fyrir Kiljan eins og öllum hinum, sem hafa farið inn á það stig að nota sérstök trúarbrögð í skáldskap sínum. Fólkið vill ekki sjá nýjustu bækur hans, af því að það segir: „Við erum engir kommúnistar og kærum okkur ekkert um að lesa þessar bækur.“ Það vill ekki kaupa bækur um það, að Íslendingar séu svívirðileg þjóð. Kona ein á Akureyri sagði, að þegar hún læsi bækur Kiljans, þá gerði hún það eins og þegar hún færi milli húsa í stórhríð. Það væri eins og mann sviði af kuldanum, og væri því bezt að ljúka því af á sem skemmstum tíma. Komi það fyrir, að menn, sem skrifa bækur, leggi lag sitt við kommúnista, þá er eins og það sé dauðadómur fyrir þá, jafnvel þó að bækurnar séu eftir merka menn. Það er varla hægt að segja, að það fáist ritdómar um þessar bækur; þær eru settar fyrir neðan annað í þjóðfélaginu. Af hverju fá þá kommúnistar liðstyrk? Í sumum öðrum löndum borga Rússar þessum smáskáldum fastan lífeyri til þess að vinna fyrir sig. Hvort svo hefur verið hér, veit ég ekki, en það er eðlilegt, að Rússar vilji leggja slíkt fé fram, það er þeirra „business“. En þetta kemur ríkissjóði okkar ekki við.

Af því að ég vil ekki tefja fyrir því, að málið gangi áfram með hraða, skal ég ekki fara um þetta miklu fleiri orðum. En til viðbótar langar mig til að segja örlítið frá því, hvað mesti höfundur kommúnista hefur að segja um íslenzkan landbúnað. Í bókum þeim, sem komið hafa út eftir Kiljan, eftir að hann skrifaði fyrra bindið af Sjálfstæðu fólki, hefur hann gefið þá lýsingu af Íslandi, að hann hefur tekið allar stéttir nema kommúnistana og svívirt þær, eftir því sem hann hefur bezt getað. Hann lýsir hreppstjórum og oddvitum þannig, að þeir séu mannleysur og níðist á fólki, eftir því sem þeir frekast geti. Læknum lýsir hann sem þeir séu fyrst og fremst með sjúklingana hjá sér til þess að hræða út úr þeim peninga. Það vita allir, hvað hann hefur að segja um prestana og hvernig heimvon þeir eiga í öðrum heimi. Það er ánægjulegt fyrir hv. Þm. N.-Ísf. og hv. þm. Snæf. að fylgja þeirri till. að veita þessu skáldi kommúnista 26 þús. kr. í laun af fé landsmanna. Ef við tökum lýsingu, sem Kiljan gefur af íslenzkum nútímamönnum, þá er þar sagt, að þeir séu bæði heimskir og illgjarnir. Það er sagt, að skipin séu götótt, til þess að þau geti sokkið með sjómennina, og er gert ráð fyrir því í pólitískum tilgangi. Þannig er lýsingin af íslenzku útgerðarmönnunum. Mér hefur aldrei dottið í hug, að til væru svo lítilmótlegir menn í Sjálfstfl., að þeir færu að styðja slíkan skáldskap. Ég ætla nú með leyfi hæstv. forseta að lesa dálitinn kafla úr allra nýjustu grein Kiljans um bændastéttina, sem hann vill óvirða hvað mest. Þessi kafli hljóðar Svo .

„Landbúnaðarafurðir eru hér fátæklegri en í flestum öðrum löndum, þótt Ísland sé að mörgu leyti tilvalið landbúnaðarland. Kjöt er hér fábreyttara og lítilfjörlegra en annars staðar. Aðallega er á markaðnum kindakjöt og fæst þó ekki ferskt nema stuttan tíma á ári, en er illætur matur mikinn hluta árs, bragðlaust eða bragðvont af langri frystingu, næringarrýrt og bætiefnasnautt. Auk þess hefur kjöt þetta verið svo dýr vara, að almenningur hefur ekki haft efni á að neyta þess að jafnaði.

Mjólk sú, sem hér er á boðstólum í Reykjavik, er illnotandi fyrir menn, sem gera nokkra kröfu til þessarar vöru. Hún er iðulega gamall upphristingur og fjörefnarýr, þolir ekki daglanga geymslu nema í aftakakuldum, oft með alls konar óbragði eftir að hafa gengið í gegnum ónýtar vélar, og því hefur verið haldið fram með rökum af heilsufræðingum, að hún sé beinlinis skaðleg neyzluvara.“

Svo bætir hann við, að smjörið sé að vísu ætt, en allt of lítið handa honum, og að það sé hart, að bændur skuli ekki hafa það, sem hann þá í með. Hann segir um mjólkina, að hún þoli ekki daglanga geymslu nema í aftakakuldum. Hann heldur, að mjólkin batni við það að frjósa. Í þessari grein heldur hann því fram, að Ísland sé vont land til landbúnaðar, og hann gerir stöðugt gys að bændastéttinni, og segir það, sem aðeins heimskustu menn í þjóðfélaginu hafa leyft sér að segja um bændastéttina. Það eina, sem hann viðurkennir að sé ætt, er smjörið frá rjómabúunum, en hann segir að það sé ekki til nóg af því. Það liggur næst að halda, að með þessu sé verið að brigzla sveitafólkinu um iðjuleysi og leti. Halda menn, að þetta fólk sé stöðugt í fríum og vinni ekki fyrir kaupi sínu? Nei, það litla, sem þessi maður veit um sveitafólkið, því stingur hann áreiðanlega niður hjá sér.

Svo kemur áframhaldið. Hann vill, að hætt sé að hugsa um að framleiða landbúnaðarvörur til útflutnings; það á bara að framleiða handa bæjarfólkinu það, sem því þóknast að kaupa. Það eina, sem honum finnst vera ætt af sveitaframleiðslunni, er smjörið. Honum finnst líka sjálfsagt, að sveitafólkið framleiði þessa vöru handa honum og hans liði. — Svo tekur Halldór það fram, að það sé mesta vitleysa að halda það, að nokkur bóndi sé öðruvísi en aumingi, andlega og líkamlega, og að okkar andlegu mikilmenni hafi verið frá stórum heimilum og þeir hafi verið efnaðir menn. Ég ætla nú að fara fáeinum orðum um það, hvort saga okkar sannar þetta. Hverjir skrifuðu Íslendingasögurnar? Um það eru aðeins tilgátur, en það má telja víst, að það hafi verið alþýðumenn fyrst og fremst, þó að þar standi tilgáta á móti tilgátu.

Tökum mann eins og t.d. Hallgrím Pétursson. Aðstaða hans í lífinu var eins og flestra okkar beztu manna hefur verið. Allir vita, hvernig efnahagur hans var. Ef við tökum til dæmis búandi mann eins og Þorgils gjallanda, þá er vert að athuga það, að hann var svo greinilegur einyrki, að hann hafði ekki einu sinni heimili algerlega út af fyrir sig, heldur varð hann að búa í öðrum enda baðstofu, þar sem fólk frá tveim búum hafðist við, og vinna þar að ritverkum sínum. Þá má nefna Guðmund á Sandi, sem jafnhliða ritstörfum sínum hefur komið upp stórum barnahóp. Ef við tökum Stephan G. Stephansson og athugum heimili hans, þá sjáum við, að hann var einyrki, eftir að hann kom til Ameríku, og ég hygg, að það mundi ganga illa fyrir kommúnista að sanna, að hann hafi ekki verið skáld. Ég hygg því, að það megi fullyrða það, að ekkert af skáldum okkar eða andans mikilmennum hafi verið efnaðir menn eða ríkir, ekki einu sinni Einar Benediktsson. Það mætti miklu frekar segja, að allt það bezta, sem gert hefur verið fyrir þjóð okkar í .þessum efnum, hafi verið gert af fátækum mönnum, sem ekki hafa leigt sig, hvorki utan lands né innan.

Ég vildi ekki móðga hv. d. með því að lesa meira upp úr landbúnaðarriti Kiljans. Þetta, sem ég las, getur þó verið sýnishorn af því, hvernig hann lýsir þjóð okkar, ekki sízt sveitafólkinu.

Atkvgr. fer fram í dag eða á morgun um það, hvort Alþ. ætlar að veita Halldóri Kiljan fjárstyrk út á það að svívirða sveitirnar og sveitafólkið. Þá kemur það í ljós, hverjir vilja bera ábyrgð á slíkum fjárveitingum. Það er áreiðanlegt, að sveitirnar eru ekki eins aumar eins og Halldór heldur, og ég gæti vel hugsað mér, að sveitirnar eigi eftir að hrista af sér þær svívirðingar, sem hann hefur leyft sér að bera fram um þær, jafnvel þó að síðar verði.