03.02.1943
Sameinað þing: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. —Þessar umr. hljóta að verða með nokkuð sérkennilegu sniði. Ekki þýðir að gera árásir á fyrrv. ríkisstj. né heldur veitast að óreyndri stjórn, sem nú situr við völd. Ég mun því skýra frá tilraunum þingflokkanna til þess að mynda ríkisstjórn og afstöðu Sósfl. til þeirra tilrauna.

Fyrrv. ríkisstj. fór þess á leit við þingflokkana, að hver þeirra skipaði 2 menn í n. til þess að ræða þjóðstjórnarmyndun. Þingflokkarnir urðu við þessum tilmælum, og 8 manna n. hóf starf sitt. Hún sat lengi á rökstólum, en árangurinn varð harla lítill. Umr. urðu fyrst á víð og dreif, enda var enginn flokkur viðbúinn því að taka endanlega afstöðu. Þann 7. nóv. s.l. kom þing Sósfl. saman hér í Rvík, og á sama tíma komu ýmsir ráðamenn Alþfl. og Framsfl. saman hér. Þann 25. nóv. birtu þessir þrír flokkar í blöðum sínum skilyrði hvers fyrir sig um þátttöku í ríkisstj. Ég mun hér skýra frá skilyrðum Sósfl. Hann spurði ekki um mennina, heldur um málefni, hvernig stefnan yrði, sem hin nýja stjórn ætlaði að starfa eftir.

Í fyrsta lagi lagði flokkurinn fram stefnuskrá sína um það að vinna gegn dýrtið og upplausn og setti framkvæmd hennar að skilyrði fyrir þátttöku í myndun ríkisstj. Þessa stefnuskrá þarf ég ekki að kynna hér að neinu verulegu leyti; hún var birt fyrir kosningar og rædd á flestum framboðsfundum um land allt. Og ég ætla, að kosningasigur sá, sem flokkurinn hlaut, hafi verið fyrst og fremst því að þakka, að þjóðin var í höfuðdráttum samþykk þeirri stefnuskrá, sem fl. setti fram gegn dýrtíð og upplausn. Flokkurinn setti fram kröfur um afnám tolla af öllum nauðsynjavörum, meðan stríðið stæði, og að tekin væri upp skömmtun á öllum nauðsynjavörum, sem skortur væri á. Ég minni enn fremur á, að hann setti fram svo hljóðandi stefnuskrá:

„Kaupgjald um land allt verði samræmt með frjálsum samningum við verkalýðsfélögin, er feli í sér varanlegar kjarabætur, sem tryggi verkamönnum viðunandi lífskjör til frambúðar, og geri ríkið nú þegar samning við verkalýðssamtökin um kaup og kjör í opinberri vinnu. Kaupið hækki svo eftir vísitölu, og sé þannig komið fastri skipan á kaupgjaldsmálin.“

Viðvíkjandi landbúnaðinum setti flokkurinn fram alveg hliðstætt stefnuskráratriði, og það var þannig:

„Samningar verði gerðir við fulltrúa bænda um fast afurðaverð og verðuppbætur, með það fyrir augum, að ákveðið grunnverð á landbúnaðarafurðum geti haldizt stríðið út, en hækki eins og kaupið, samkv. dýrtíðarvísitölu. Sé verðið miðað við það, að landbúnaðurinn verði samkeppnisfær við aðrar atvinnugreinar og bændum tryggð viðunandi kjör. Jafnframt séu gerðar allar ráðstafanir, sem unnt er, til aðstoðar landbúnaðinum þ.e. þess að lækka framleiðslukostnað hans, og þó einkum til að koma núverandi einyrkjabúskap í það horf, að hann verði samkeppnisfær.“

Það eru fleiri atriði í þessari stefnuskrá, sem e.t.v. væri ástæða til að rifja upp. En ég ætla þó að sleppa því, af því að það er margt, sem er meira aðkallandi, að ég kynni fyrir yður í þessu efni. Flokkurinn setti enn fremur að skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstj. margháttaðar endurbætur alþýðu manna til handa. Hann setti það að skilyrði, að gagngerðar endurbætur yrðu gerðar á alþýðutryggingunum. Stefna flokksins í þeim málum hefur komið fram í fjölda mörgum frv., sem lögð hafa verið fyrir Alþ., sem ættu að vera kunn útvarpshlustendum, sem hlusta á þingfréttir.

Þá er það og sett að skilyrði, að framfærslul. verði endurskoðuð og komið í fullkomnara og réttlátara horf en nú er. Einnig, að samþ. verði á Alþ. l. um 8 stunda vinnudag og að hvíldartími á togurum verði lengdur í 12 stundir á sólarhring og gerðar ráðstafanir til að auka öryggi og vinnuvernd fyrir sjómenn á flotanum og fyrir annan verkalýð. Enn fremur, að ákvæði vinnulöggjafarinnar, sem hefta athafnafrelsi verkalýðsfélaganna, verði afnumin og að ráðstafanir verði gerðar með að bæta úr húsnæðisskortinum, svo sem með skömmtun húsnæðis og hagnýting byggingarefnis til íbúðarhúsa fyrir almenning.

Þá er það og sett að skilyrði, að gerðar verði gagngerðar ráðstafanir til eflingar landbúnaðinum, og vitna ég þar til þeirra till., sem Sósfl. hefur sett fram á síðasta Alþ., um að vinna að því að koma landbúnaðinum á þann grundvöll, að hann verði samkeppnisfær við aðra atvinnuvegi, og í sambandi við það, að jarðræktarl. verði breytt í það horf, er farið var fram á í frv. Sósfl. á Alþ. En landbúnaðinum verður ekki komið í það horf, að hann verði þannig samkeppnisfær, nema hann taki í sína þjónustu véltækni nútímans og hann verði rekinn meira en hefur verið á félagslegum grundvelli.

Þá er það sett að skilyrði, að ráðstafanir séu gerðar til þess að tryggja smáútgerðarmönnum fullt ver ð fyrir afurðir sínar og útvega samtökum þeirra skipakost, svo að þeir geti sjálfir flutt fisk á erlendan markað. Jafnframt sé séð fyrir því, að stöðugt sé nóg beita á öllum útgerðarstöðum, tryggð geymsla fyrir hana og komið í veg fyrir okur með beitu og aðrar nauðsynjar útgerðarinnar. Enn fremur, að gerðar séu ýmsar aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja hagsmuni fiskimanna í samræmi við ályktun 3. flokksþings Sósfl. um sjávarútvegsmál.

Þá er það og gert að skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstj., að tekin sé upp ný stefna í menntamálum til þess að efla vísindi, listir og bókmenntir og vernda og auka íslenzka þjóðmenningu og alþýðufræðslu. Alþ. taki aftur inn á 18. gr. fjárl. styrkveitingar til rithöfunda og listamanna, er felldar voru niður.

Þá er það enn fremur gert að skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstj., að í utanríkismálum sé tekin upp ákveðin stefna með Bandamönnum og móti fasismanum. Ríkisstj. gefi út samúðaryfirlýsingu með Bandamönnum og stuðli að virkri aðstoð Íslendinga við landvarnir Íslands í samvinnu við hernaðaryfirvöldin, jafnframt því sem staðið sé á verði gegn hvers konar yfirgangi erlends valds hér á landi á sviði viðskiptamála og stjórnmála. Tekið sé upp þegar í stað gagnkvæmt stjórnmálasamband við Sovétríkin. Leitað sé samvinnu við Bretland, Sovétríkin og Bandaríkin og stjórnir annarra frjálsra þjóða um öryggi Íslands og tryggingu fyrir friðhelgi þess og algeru sjálfstæði, er friður verður saminn í styrjaldarlok.

Þá er enn fremur gert að skilyrði, að nægilegt fé sé veitt á fjárl. og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir gerðar gegn yfirvofandi atvinnuleysi, fjármagni þjóðarinnar verði varið eins og kostur er til tryggingar atvinnulífinu, kaupa á atvinnutækjum, vélum til útgerðar og landbúnaðar, bátum, skipum og byggingarefni, og að framkvæmdir verði hafnar eins fljótt og unnt er á nauðsynlegum byggingum, verksmiðjum og rafvirkjunarstöðvum. Stórfelldar umbætur verði gerðar á höfnum, þar sem annars eru góð skilyrði til fiskveiða, hafinn undirbúningur undir stofnun ,byggðahverfa í sveitum, þar sem skilyrði eru hagkvæmust o.s.frv.

Þá er enn gert að skilyrði fyrir samvinnu um ríkisstj., að réttarfari og hegningarlöggjöf verði breytt í frjálslyndara horf. Einfaldari skipan sé komið á starfsmannakerfi ríkisins, afnumdar aukagreiðslur og óþörf embætti og launalögin endurskoðuð.

Í síðasta lagi er sett sem skilyrði, að nauðsynlegar breyt. verði gerðar á framkvæmdavaldinu, embættis- og starfsmannaliði ríkisins og opinberra stofnana til þess að tryggja framkvæmd þeirrar stefnu og þeirra verkefna, sem hér hafa verið talin. Ríkisstj. styðji sig við og hafi samráð við samtök fólksins og bandalag þeirra samtaka, verkalýðsfélög, samvinnufélög, ungmennafélög, stjórnmálafélög og önnur, er sameinast vilja um þessa stefnuskrá. Sem víðast á landinu verði myndaðar sameiginlegar nefndir slíkra samtaka, sem ríkisstj. hafi náið samstarf við.

Og allra síðast er tekið fram: Verði ágreiningur, sem leiðir til samvinnuslita, skuldbindur ríkisstj. sig til þess að leggja málin undir dóm þjóðarinnar með því að rjúfa þing og ganga til nýrra kosninga.

Mörg af skilyrðum Alþfl. og Framsfl. fyrir þátttöku í stjórnarmyndun voru mjög svipuð þeim, sem Sósfl. setti fram. Þegar þessi skilyrði voru komin fram, virtist hafa fengizt nýr grundvöllur undir viðræður 8 manna n. En það kom þá í ljós, að n. sá sér ekki fært að inna það hlutverk af hendi, sem henni var ætlað. Hún sá, að ekki fannst grundvöllur undir fjögurra flokka stjórn. Þess var líka að vænta, því að sannast mála er það, að erfitt verður að samræma vilja auðmannanna, stríðsgróðamannanna og milljónamæringanna við hag verkamanna, bænda og annarra smáframleiðenda. Og niðurstaðan varð sú, að 7. desember var því lýst yfir, að n. hefði lokið störfum sínum og ekki fundið grundvöll undir fjögurra flokka stjórn. Nú leið vika, og fóru fram ýmsar viðræður um möguleika á stjórnarmyndun. En 15. desember ákvað hæstv. ríkis:tjóri að taka málið í sínar hendur og skipa utan-þingflokka ríkisstj. Þegar næsta dag á eftir, eða 16. desember, ritaði Sósfl. Alþýðuflokknum og Framsóknarflokknum bréf og einnig Sjálfstæðisflokknum varðandi samstarf í þinginu. Ég vil nú leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það bréf, sem Alþfl. var ritað. Það var svohljóðandi:

„Með skírskotun til samþykktar flokksþings Alþýðuflokksins, sem birt er í Alþýðublaðinu 25. nóv. 1942, og þess, sem fram hefur komið í 8 manna nefndinni, fer Sósíalistaflokkurinn þess á leit við yður, að þér hafið samstarf við hann um að hrinda í framkvæmd eftirfarandi málum, sem flokkarnir virðast vera sammála um:

1. Flokkarnir undirbúi og flytji sameiginlega frumvarp um eftirfarandi mál á Alþingi:

a) Lækkun tolla og endurskoðun tollalöggjafarinnar til að vinna gegn dýrtíðinni.

b) Þingið komi á fót stofnun til að hafa yfirstjórn utanríkisverzlunarinnar með höndum í því skyni að hagnýta skipakostinn sem bezt og stuðla að lækkun vöruverðs.

c) Stofnun til eftirlits og rannsóknar á skattamálum til þess að koma í veg fyrir skattsvik.

d) Hækkun skatta á hátekjum og sérstakur skattur á eignaaukningu þá, sem orðið hefur frá stríðsbyrjun. Nýbyggingarsjóðir teknir í opinbera vörzlu og framlag í varasjóði verði ekki skattfrjálst.

e) Binding stríðsgróðans.

f) Ráðstafanir til að hindra brask með fasteignir.

g) Endurskoðun landbúnaðarlöggjafarinnar. Stofnun byggðahverfa. Aukinn innflutningur landbúnaðarvéla. Vísindalegar tilraunir í þágu landbúnaðarins. Aukinn ræktunarstyrkur til smærri býla o.fl.

h) Strangt eftirlit með sölu og notkun byggingarefnis.

i) Ráðstafanir til þess, að bændur og fiskimenn fái nægar nauðsynjar til atvinnureksturs síns með sanngjörnu verði.

j) Ráðstafanir til að tryggja nægilegan skipakost til vöru- og farþegaflutninga með ströndum fram.

2. Flokkurinn vinni að því með Sósíalistaflokknum að komast að samkomulagi við fulltrúa bænda um fast grunnverð á landbúnaðarafurðum, er breyst samkvæmt sérstakri vísitölu.

Loks vill flokkurinn gjarnan hafa samstarf við flokk yðar um önnur mál, sem samkomulag kann að nást um.

Jafnframt væntir flokkurinn þess, að þér takið upp umræður við hann um málefnagrundvöll fyrir ríkisstjórn, er þér takið þátt í, ásamt Sósíalistaflokknum.“

Framsfl. var ritað annað bréf, sem hafði sömu tilboð að færa, nema hvað þar var lögð sérstök áherzla á mál, sem Framsfl. hefur gert að sínum málum.

Þá var svo Sjálfstfl. rita bréf og boðið samstarf um framgang vissra mála. En ekki var honum boðið að taka þátt í umr. um myndun ríkisstj., því að sýnt þótti í 8 manna n., að ekki væri grundvöllur fyrir það.

Alþfl. og Framsfl. svöruðu bréfum þessum um hæl á þá lund, að þeir vildu taka þátt í við. ræðum um málið, og voru kosnir 3 menn í hverjum flokki til þess að raða um samstarf flokkanna og um svo kallaða myndun vinstri flokka ríkisstjórnar. Þessi n. starfar enn. Hún hefur sett undirnefndir til þess að vinna að ýmsum málum, og þær eru enn starfandi.

Nú geri ég ráð fyrir, að hlustendur vilji fá að vita, við hverju megi búast um vinstra samstarf um ríkisstj. Ég get ekki svarað því að svo stöddu, heldur sagt það aðeins, að ég álít, að ekkert það hafi fram komið í viðræðum þessara flokka, sem útiloki, að mynduð verði vinstri stjórn. Og ég álít, að ekkert það hafi fram komið í þeim viðræðum, sem útiloki, að þeir fylgist að um framgang margra nytjamála innan þingsins, og það jafnvel þó að ekki kæmi til stjórnarmyndunar.

Ég geri líka ráð fyrir, að margir muni spyrja: Álítið þið heppilegt, að vinstri stjórn taki nú þegar við völdum? Eða álítið þið, að sá tími sé nú í nánd? Ég vil heldur ekki svara þeirri spurningu beint. Ég segi aðeins, að við höfum nú fengið utan-þings og utan-flokka ríkisstj. Og því hefur verið haldið fram af ýmsum blaðamönnum og stjórnmálamönnum, að það, sem mest væri í vegi fyrir þjóðnýtum framkvæmdum ríkisstjórna, væri það, að þær væru flokksstjórnir fyrst og fremst. Nú höfum við stjórn, sem ekki er flokksstjórn. Hún hefur enn fengið allt fram í þinginu, sem hún hefur um beðið, og er nú gott að sjá, hversu auðveldlega málin leysast. En mér virðist afrek stjórnarinnar til þessa dags næsta lítil, og ég hygg, að brátt muni sannast, að ekki er einhlítt að hafa stjórn, sem er utan þings. og ekki háð beinlínis neinum flokki. Það mun sýna sig, að vandamálin mæta henni ekki síður en öðrum ríkisstj., og hún mun ekki eiga hægara með að leysa þau. Ég býst við, ef þessi stjórn situr lengi, þá muni hann reyna þann sannleika stéttaþjóðfélagsins, að ef hún ætlar eitthvað að gera, þá muni hún reka sig annaðhvort á aðfinnslur stríðsgróðamannanna og milljónamæringanna eða verkamanna, bænda og annarra smáframleiðenda, eftir því hvernig hún vinnur. Ég hygg, að reynslan muni sýna, að það er ekki flokkslaus stjórn, sem við fyrst og fremst þurfum, heldur stjórn, sem styður sig við sterka og markvissa flokka, og þá fyrst og fremst við hinn vinnandi földa þessa lands.

Ég verð því að segja það við þann mikla fjölda manna um gervallt landið, sem fylgt hefur þessum þremur flokkum: Ég býst við, að þið viljið vinstri stjórn. En til þess að hún geti orðið mynduð, þarf fyrst og fremst fullkomna einingu verka lýðssamtakanna, og ég tel hana þegar fengna. En styrkjast þarf hún betur, og ljóst þarf að vera, ef vinstri stjórn verður mynduð, að það sé stjórn þeirra samtaka og að þau standi þar á bak við, eins og það þarf reyndar líka að vera ljóst, að samtök bænda vilji slíka stjórn og standi á bak við hana. Slík stjórn þarf að vera stjórn þeirra stétta. Þetta er sá stéttalegi grundvöllur, sem þarf að vera fyrir hendi. Stjórnmálalegur grundvöllur þarf einnig að vera fyrir hendi um myndun slíkrar stjórnar. Og það þarf fyrst og fremst öruggt, einhuga og fullkomið samstarf Alþfl. og Sósfl., því að þeir eru að vissu leyti umbjóðendur vissra stétta fyrst og fremst. Það þarf samvinnu þessara flokka, og það þarf að fá fulla tryggingu fyrir því, að þau hægri öfl, sem til eru innan Framsfl. og Alþfl., verði lögð í læðing og fái ekki að spilla áhrifum vinstri ríkisstj., ef mynduð verður. Ég segi við kjósendur míns flokks og vinstri flokkanna almennt: Ef þið viljið vinstri stjórn, þá gerið ykkur ljóst, hvaða skilyrði verða að vera fyrir hendi. Ykkur er ljóst, hvaða skilyrði Sósíalistar hafa sett fram. Og það þarf að knýja flokkana fram til samstarfs með samtökum ykkar. En til þess að við fáum verkhæfa stjórn, er nauðsynlegt, að verkamenn og bændur standi á bak við hana. Slík stjórn þarf að vera til styrjaldarloka, ef á eftir stríðinu á ekki að koma kreppa eins og eftir síðasta stríð. Verkamannasamtökin þurfa að sameina sig til að knýja þrjá vinstri stjórnmálaflokkana til samstarfs, til þess að þeir geti haft þá stjórnarforustu, sem stéttir verkamanna, bænda og smáframleiðenda óska og krefjast.