11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Það eru fáir þm. viðstaddir, og má ætla, að gagnslitið sé að tala fyrir brtt. Ég vil þó ekki láta hjá líða að tala nokkur orð um brtt., sem ég er flm. að ásamt fleirum. Ég vil einkum nefna till. á þskj. 411, sem ýmsir þm. hafa sagt, að væri sérstök í sinni röð, því að það hafi ekki sézt fyrr, að brtt. fylgi löng grg. Ég held nú, að það væri kostur, ef almennt fylgdi grg. brtt., svo að þm. gætu kynnt sér þær á þann hátt.

Þessi till. á þskj. 411 er um, að Handíðaskólinn skuli njóta sömu kjara og héraðsskólar. Handíðaskólinn var stofnaður haustið 1939 af áhugasömum og duglegum skólamanni, Lúðvíg Guðmundssyni, og hefur nú verið gerður að sjálfseignarstofnun. Húsið kostaði 85 þús. kr., og farið er fram á, að ríkið greiði 3/4 af stofnkostnaðinum. Flm. eru með mér hv. 5. landsk. þm., hv. þm. Mýr. og hv. 7. landsk. þm. Í grg. geta þm. séð meðmæli frá fræðslumálastjóra, sem telur skólann mjög merkilega og þarfa stofnun. Það er vitað, að skólinn tekur alltaf nemendur úr kennaraskólanum, kennir þeim smíðar og fleira nauðsynlegt. S.l. haust efndi hann til kennslu í smíðum fyrir 6 bændaefni, svo að þeir gætu lært að lagfæra húsáhöld og gera ýmsa nauðsynjamuni. Þetta var gert endurgjaldslaust.

Með því að skýr grg. fylgir till., sem ætlazt er til, að þm. lesi, er óþarft að fjölyrða um hana, og vænti ég, að hv. þm. taki tillit til meðmæla fræðslumálastjóra.

Ég hef í hyggju að flytja brtt. við till. hv. þm. V.-Sk. um Suðurlandsskip. Hann vill hækka framlagið um 49 þús. kr., en ég mun flytja brtt, um hækkun upp í 79 þús., og renni viðbótin til Rangárvallasýslu. Meðan Suðurlandsskip var, flutti það vörur að Rangársandi. Það þarf ekki mörg orð til að rökstyðja það, að óréttmætt er, að Eyjafjallasveit, sem er næsta sveit við Vík, fái engan styrk, en Vestur-Skaftafellssýsla fái allan styrkinn. Það er svo, að nú er ekkert Suðurlandsskip til, og þessi styrkur; sem áður var veittur Flóabátnum, hefur verið veittur sem flutningastyrkur á landi, og það er ekki sanngjarnt að láta þetta hafnlausa hérað gjalda þess að verða að flytja þennan langa veg á dýrum bílum, af því að skipið er úr sér gengið og getur ekki annað flutningunum. Ég mælist eindregið til, að þessi varatill. verði samþ.

Þá er þriðja till., frá okkur þm. á Suðurlandi, um byrjunarframlag til bændaskóla á Suðurlandi. 6 þm. sendu hv. fjvn. erindi og lögðu með því, að í þessum fjárl. yrðu veittar 300 þús. kr. til bændaskóla á Suðurlandi. Fjvn. sá sér ekki fært að verða við þessu, þar eð þetta væri svo stór fúlga og enn væri ekki búið að velja skólanum stað. Nú er það svo, að búið er að samþykkja að reisa skóla á Suðurlandi, af því að þm. var ljóst, að þörfin er brýn. Ekki nema helmingur þeirra, sem sækja um skólavist á Hvanneyri og Hólum, fær inngöngu. Það er ekki nóg, að þm. séu sammála um, að bændaefnin þurfi að fara í bændaskóla og samþykki lög um bændaskóla. Skólinn verður ekki reistur, nema fé verði veitt til þess. Nú höfum við flutt brtt. og biðjum aðeins um 100 þúsund krónur sem byrjunargreiðslu. Við teljum, að fjvn. hafi nokkuð til sína máls um, að 300 þús. kr. sé mikið í einu og hægara sé fyrir ríkissjóð að greiða þetta smám saman og byrja á 100 þús. kr.

Að ekki sé hægt að veita framlagið, af því að ekki sé búið að velja staðinn, eru engin rök, því að vitanlegt er, að skólinn á að standa í Árneseða Rangárvallasýslu og á vísan stuðning, hvort sem hann verður austan eða vestan Þjórsár. Það er búið að skipa n. til að velja staðinn, en hana skipa búnaðarmálastjóri, Guðm. Þorbjarnarson og hv. 2. þm. Skagf.

N. mun nú fara að velja skólanum hinn bezta stað á Suðurlandi, en þeir eru margir góðir. Það má treysta því, að hið bezta og hentugasta verði gert í þessum efnum. Það eru því eindregin tilmæli þm. af Suðurlandi, að þegar verði veitt tillag til þessa skóla.

Þá er það leiðrétting á frv., þar eð fjvn. hefur gleymt tillagi til Raforkusjóðs, en það er ákveðið með l. kr. 500000 árlega. Annaðhvort er þetta gleymska hjá fjvn. eða hæstv. ríkisstj.

Í 5. lagi er það tillag vegna Rangárvallavegar. Um það hefur hv. 1. þm. Rang. þegar farið nokkrum orðum, en ég bendi aðeins á, að 20 þús. til þessa vegar er alltof lítið framlag. Vegna lægða þeirra og síkja, sem eru þarna á Söndunum, verður vegurinn ófær við fyrstu snjóa á haustin, enda viðurkennir vegamálastjóri, að þarna sé mikillar umbótar þörf. Ég tel því brýna nauðsyn á að fá þetta leiðrétt. En af því að svo margar till. liggja fyrir þessu þingi, þá hef ég ekki komið fram með brtt. til hækkunar á þessu framlagi. Önnur ástæða er sú, að hv. 1. þm. Rang. á sæti í fjvn. og hefur fullan huga á framgangi þessa máls við fyrsta tækifæri.

Í 6. lagi er það framlag til efniskaupa til Hólsárbrúar. Það er aðeins 80 þús. kr. Þessi upphæð hrekkur ekki meira en fyrir því efni, sem þegar er komið á staðinn. Það er því sýnt, að ekki verður hægt að byrja á verkinu á næsta vori. En til marks um kapp bænda í þessu máli er það, að þeir hafa þegar lofað um 500 gjafadagsverkum til brúarinnar. Þetta er gott fordæmi og prófsteinn á nauðsynina, að þeir skuli sjálfir vilja svo mikið á sig leggja. Ég flyt ekki brtt. um hækkun þessa liðs heldur af sömu ástæðu og ég nefndi áðan og af því, að ég vænti ríflegs framlags á næsta þingi.

Það hefur verið mikið um það talað, að fjárl. væru há að þessu sinni. Samkv. frv. eru tekjurnar áætlaðar 65 millj., en gjöldin 62 millj. Nú hefur fjvn. flutt brtt. um 9 millj. hækkun á gjöldunum, svo að þau verða þá 71 millj., og yrði þá 6 millj. tekjuhalli.

Ég hef nú eftir föngum reynt að bera tekjuáætlun núverandi fjvn. saman við tekjuliðina eins og þeir hafa reynzt undanfarið, og það er aðeins einn liður, sem ég hef von um, að geti farið fram úr áættun svo að nokkru nemi. Það er verðtollurinn. Síðasta ár reyndist hann 34 milljónir, en nú er hann áætlaður 21 millj. Nú er náttúrlega ekkert víst um aðflutninga á þessu ári, en verði þeir svipaðir og árið 1942, þá mætti áætla þennan lið hærra. Og hann þarf líka að reynast hærri ef fjárl. eiga ekki að verða þinginu til vansæmdar. Það mundi þó ekki skaða, þótt tekjurnar reyndust eitthvað hærri en gjöldin. Mig undrar það mjög, að niður skuli felld heimild fyrir stj. til að skera niður útgjöld, ef þess gerist þörf á þessum viðsjárverðu tímum.

Það er þó varfærnisskylda á þessum tímum að veita þessa heimild, ef tekjurnar kynnu að bresta. Ég er hissa á, að reyndir og fullorðnir þm. og samvizkusamir í mörgu, skuli nú hafa fellt niður það eina öryggi, sem við höfðum í þessu efni um samræmi tekna og gjalda.

Ég tel fyrirgefanlegt, þótt Alþ. gangi nú þannig frá þessum fjárl., að tekjur og gjöld séu hátt áætluð, ef þessi heimild væri fyrir hendi. Hún er eina trygging okkar fyrir því, að ríkissjóður sé ekki bundinn þyngri byrðum en nauðsynlegt er og hann getur borið.

Ég tel því, að það sé ábyrgðarskylda hv. þm. að hafa þessa heimild, þetta öryggi, fyrir hendi. Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira, og ef ætlunin er að ljúka þessari umr. í nótt, þá mun ég ekki taka aftur til máls. En ef henni verður frestað til morguns, þá mun ég e.t.v. tala meira um hina ýmsu þætti fjárl.