12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Ég lét það álit í ljós við umr. í gær, að tekjuhlið fjárl. væri of hátt áætluð. Í þessu sambandi bar hv. þm. S.-Þ. fram þá fyrirspurn, hvort ég mundi hugsa til að leita heimildar til lántöku til að standa straum af þeim útgjöldum, sem frv. gerir ráð fyrir, ef tekjustofnarnir hrökkva ekki til. Mín skoðun er sú, að þegar einhver þjóð, eins og Íslendingar í þessu tilfelli, horfir fram á hrun, vegna þess að of mikið af lausbeizluðu fé streymir út í atvinnulífið og skapar verðbólgu, er það meira en óheilbrigð þróun þjóðarbúskaparins, ef ríkið fer að taka lán og þannig auka verðbólguna.

Mitt svar er því það, að ég mun ekki leita heimildar til að taka lán, á meðan ég er fjmrh., til þess að standa undir útgjöldum þessara fjárl. Gjöldin verða greidd svo lengi sem tekjurnar hrökkva. Eftir það mun auðna ráða, hversu fer.