15.03.1943
Efri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

110. mál, ráðstafanir og tekjuöflun vegna dýrtíða og erfiðleika atvinnuveganna

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun, frá því að þetta kom til umr. hér fyrir nokkru í sambandi við þessi l., að það sé ekki ætlazt til þess, að þessi tollur sé greiddur af taprekstri. Það virðist vera gengið beint út frá því í l.

Hinu þori ég ekki að slá föstu á þessari stundu, hvort ég sem fjmrh. gæti ákveðið, að skatturinn skuli niður falla eða hvort farnar yrðu aðrar leiðir til þess að létta honum af. En það virðist ekki leika á tveim tungum, að ekki er ætlazt til þess, að þessi fyrirtæki, ef þau reka starfsemi sína með tapi, greiði þá þennan skatt, enda væri það í fyllsta máta ósanngjarnt.

Hvað frádráttinn snertir, þá er ekki vafi á því, að það er álitamál, hvernig á að reikna slíkan frádrátt: Og það væri að öllu leyti æskilegast, að það væru til skýrari ákvæði í l. um það, hvernig slíkt ætti að framkvæma. Mér hefur verið þannig skýrt frá, að undanfarið hafi verið lagðir til grundvallar kostnaðarliðir þeir, sem útgerðarmenn sjálfir hafa sent fjmrn., og sá kostnaður, sem skipunum er leyft að draga frá fyrir hvern dag, sem þau eru í siglingu milli Íslands og Bretlands, er byggður á þeim tölum, sem útgerðarmenn hafa sjálfir komið fram með. Nú fyrir nokkrum dögum hefur slíkur útreikningur legið fyrir í fjmrn. og hefur þegar verið afgreiddur þannig, að sá kostnaður hefur verið hækkaður, sem togurum er leyft að draga frá. Hann mun hafa verið 7 þús. kr., ef ég man rétt, en hefur nú, í samræmi við tölur, sem útgerðarmenn hafa sjálfir sett fram, verið áætlaður 9500 kr. á dag. Og þetta hefur verið gert, eftir að athugað var — ég verð að segja með mjög miklum velvilja — það, sem útgerðarmenn báru fram. Og samkv. þeim tölum, sem fyrir liggja í því efni, er ekki hægt að segja, að gengið hafi verið á hlut útgerðarmanna. Eftir öðru en því, sem útgerðarmenn sjálfir bera fram í þessum efnum, er ekki hægt fyrir ríkisstj. að fara, eins og sakir standa í þessu máli, og að reynt verði að fara með þennan rekstur eins sanngjarnlega og hægt er, meðan gjaldið er reiknað eftir þeim forsendum, sem nú er gert.

Ég gat þess áðan, hvernig þetta 10% útflutningsgjald hefur verið innheimt, þ.e. eftir sömu reglum og eldra útflutningsgjaldið. Og meðan ekkert liggur fyrir frá Alþ. um breyt. á þessum l., getur ríkisstj. ekki séð sér annað fært heldur en að halda þeirri venju um innheimtuna, sem þegar hefur verið sköpuð.