08.02.1943
Neðri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

116. mál, húsaleiga

Páll Þorsteinsson:

Eftir að ég talaði hér síðast, flutti hv. 6. landsk. ræðu og kom nokkuð víða við. Það er nú svo í þessu máli, að ýmsir þykjast eiga högg í annars garð, og mikið af því, sem rætt hefur verið um hér, snertir ekki efni málsins. Til dæmis, að því er snertir umboðslaun af útflutta fiskinum. Það kemur alls ekki til kasta þingsins að kveða á um þau, því að slíkt verður samningsatriði, og er ekki rétt að teygja umr. út á þau svið. — Hv. þm. spurði, hvaðan ég hefði mínar heimildir. Ég get skýrt honum frá því, að ég hef þær ekki aðeins frá Jóni Ívarssyni, og gætu þær verið góðar fyrir því. Ég hef þær meðal annars frá Þorkeli Daníelssyni í Hornafirði, Sigurði á Stafafelli og Garðari Sigurðssyni útgerðarmanni í Hornafirði. Ég tel að t.d.. Sigurður á Stafafelli, sem hefur verið í stjórn kaupfélagsins í 20 ár, ætti að hafa nokkra þekkingu á þessu. Viðvíkjandi því, er hv. þm. sagði, að allar samningatilraunir hefðu reynzt árangurslausar, vil ég geta þess, að Sigurður á Stafafelli sagði mér í gær, að búið væri að ganga svo frá samningum um það, að kaupfélagið hefði ekki von um mikinn nettóhagnað, þótt afli yrði mikill, hvað þá ef hann reyndist í minna lagi. Hv. þm. getur því létt af sér öllum áhyggjum út af þessu. Ég vil ekki mæla því mót, að okur eigi sér stað í þessu eða öðru í Hornafirði eða annars staðar, og ég er reiðubúinn að vinna að því með hv. 6. landsk. að koma í veg fyrir okur að því er snertir viðgerð báta og annað slíkt. Það er ekki þetta, sem á milli ber, heldur hitt, hvort sá háttur eigi að haldast eða ekki, að þessi kostnaður sé greiddur af aflahlut. Fyrir honum vakir að afnema þetta, en ég vil, að þessi háttur sé í gildi, eins og verið hefur. Ég vil einmitt koma því á í öllum framleiðslugreinum okkar, að þeir, sem að framleiðslunni starfa, beri meira úr býtum, er vel gengur, en þegar illa árar og þeir, sem framleiðsluna reka, séu ekki bundnir við að greiða alltaf sama kaup.

Fyrri málsliður brtt. okkar hv. þm. N.-Þ. felur í sér mest allt hið sama og fyrri málsliður í brtt. á 301. þskj. En til þess að koma í veg fyrir, að okur geti átt sér stað, setjum við það ákvæði, að hvor aðilinn, sem er, geti krafizt mats á því, hve stór sá aflahlutur á að vera, sem greiddur er í leigu. Hafi það t.d., komið í ljós, að þessi aflahlutur sé of stór, virðist ekkert sjálfsagðara en hægt sé að ákveða með mati, að hann skuli lækka. En reynist það, að aflahlutur hafi ekki nægt til að greiða leiguna, ætti að mega ákveða, að hann stækkaði, nema samkomulag yrði um, að allir tækju á sig hallann sameiginlega. Þetta vildi ég að hv. þm. athuguðu fyrir atkvgr.