04.03.1943
Efri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

116. mál, húsaleiga

Brynjólfur Bjarnason:

Ég skal ekki fara mikið út í ræðu hv. þm. Barð., en úr því að hann skoraði á mig að hlusta á hana, gerði ég það.

Hv. þm. virðist álíta það mjög þýðingarmikla atvinnugrein að eiga hús, og nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið, að sú atvinnugrein sé stunduð, og beri þjóðfélaginu að láta þá menn, sem hana stunda, hafa af henni nægar tekjur. Hv. þm. litur svo á, að þessi atvinnugrein sé sambærileg við hverja aðra vinnu, og beri að tryggja húseigendum uppeldi af henni. Samkv. ræðu hv. þm. hlýt ég að hafa það, sem hann kallar „lágan“ hugsunarhátt, því að ég álit, að það sé ekki nauðsynlegt, að til sé stétt manna, sem á hús. Hv. þm. sagði, að Alþ. mætti vara sig á að fara inn á þessa braut, því að það gæti orðið til þess að neyða þessa stétt til að fara í sams konar hernað og verkamennirnir, á meðan gerðardómsl. giltu. Ef húseigendur strækuðu nú allt í einu á það að eiga hús ! Það væru ljótu vandræðin. En hver veit, nema hægt yrði að finna verkfallsbrjóta þar, og einhverjir aðrir fyndust, sem fengjust til að eiga húsin.

Samkv. húsaleigul. hafa menn rétt til að hækka húsaleiguna að sama skapi og kostnaður til viðhalds eigninni vex. Húsaleigan hækkar samkv. sérstakri vísitölu, svo að hér er ekki um að ræða, að á neinn hátt sé gengið á hluta húseigenda. Ef farið væri að ráðum hv. þm. Barð., sem mér skilst að vilji afnema húsaleigul. alveg, eða a.m.k. nema burt að mestu leyti þær hömlur, sem nú eru á því samkv. l., að húsaleiga geti hækkað, mundi það þýða, að vísitalan hækkaði mjög og launin, sem m.a. útgerðarmenn þurfa að borga. Ég veit, að hv. þm. Barð. er á móti grunnlaunahækkun, en virðist vera með þeirri hækkun, sem leiðir af því, að húsaleiga hækkar. Ef það er nú rétt, að útgerðin beri sig ekki með núverandi launagreiðslum, mundi hún enn síður gera það, ef húsaleigul. væru afnumin. Hún mundi þá bara leggjast í rústir.

Hv. þm. var að tala um, að börnum væri sparkað út, ef samþ. væri 5. gr. frv. Ég held, að hv. þm. hafi verið eitthvað miður sín. Veit hann ekki, að fjöldi barna er sama sem á götunni, í lélegum skúrum, sem eru fjarri því að vera mannabústaðir? Til þess að koma þeim í húsaskjól, er 5. gr. sett. Það er alveg tilgangslaust fyrir hv. þm. að halda slíka ræðu á Alþ. Menn verða að vita nokkurn veginn, hvað þeir eru að segja.

Annars þarf ég ekki að hafa um þetta fleiri orð. En mig langaði til að gera aths. við nokkuð, sem hæstv. félmrh. sagði í sinni ræðu. Það var rit af fyrirspurn um eitt atriði í frv., þar sem segir í 2. mgr. 5. gr. að „Bæjar- og sveitarstj. getur, þegar alveg sérstaklega stendur á, ákveðið að taka til ráðstöfunar handa húsvilltu fólki tiltekna hluta af íbúðarhúsnæði“ — o.s.frv. Mér skildist hæstv. félmrh. segja, að einhver nm., sem fjallað hefur um frv., hafi litið þannig á, að þetta „þegar alveg sérstaklega stendur á“ þýði, t.d., þegar fólk kynni að verða húsvillt vegna loftárásar eða sérstakra slysa, er yrðu þess valdandi, að margt fólk yrði húsnæðislaust. Ég hef ekki heyrt þessa skýringu á umræddum orðum fyrr. Ef einhverjir nm. telja, að leggja beri þessa merkingu í orðin, þá tel ég nauðsynlegt að breyta þessu orðalagi, því að þeir hv. þm., sem um þetta hafa fjallað, hafa áreiðanlega ekki lagt þennan skilning í þetta ákvæði. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég hafði skilið þau þannig, að þau ættu við það ástand, sem nú ríkir hér í húsnæðismálum, og þannig var það skilið í allshn. þessarar deildar.