10.04.1943
Efri deild: 95. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

176. mál, samflot íslenzkra skipa

Frsm. minni hl. (Guðmundur I. Guðmundsson):

Herra forseti. — Í tilefni af ummælum hv. þm. Barð. áðan þarf ég að koma að nokkrum aths. Eins og greinilega kom fram í ræðu minni, er aðalágreiningurinn um það, hvernig eigi að ganga frá fyrirmælum l. um heimild til að veita undanþágu frá samfloti. Ég lagði á það höfuðáherzlu, að um fullt samkomulag væri að ræða milli fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna í Rvík, Hafnarfirði mg á Patreksfirði um fyrirkomulagið í þessum atriðum. Hæstv. atvmrh. staðfesti það áðan, að áður en ríkisstj. afgreiddi þetta frv. til d., ásamt þeirri reglugerð, sem prentuð er sem fylgiskjal með frv., var frv. og reglugerðin borið undir fulltrúa frá togaraútgerðarmönnum og sjómönnum í Rvík, Hafnarfirði og á Patreksfirði. Fulltrúar þessara aðila lýstu yfir því við ríkisstj., að þeir væru ásáttir um, að l. og reglugerðin yrðu afgreidd eins og þau lægju fyrir, þ. á m., að það væri samþ., að n., sem úrskurðar um beiðnir um undanþágu, verði eins skipuð og gert er ráð fyrir í reglugerðinni. Þegar fulltrúarnir mættu í sjútvn., voru þeir spurðir, hvort þeir væru því ekki samþykkir, að fyrirkomulagið á undanþágunum væri eins og ráð væri fyrir gert í reglug., og lýstu þeir allir yfir því, að þeir felldu sig við það. Það má segja, að þær till., sem gerðar eru af hálfu ríkisstj., er samkomulag um milli fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna í Rvík, Hafnarfirði og á Patreksfirði. Ég lít svo á, að úr því að samkomulag er komið, sé það skylda þingsins að gera ekkert til að rifta því. Ef hv. d. fer nú inn á það að ganga á þetta samkomulag, er verið að koma aftan að fulltrúunum.

Formaður Sjómannafélags Rvíkur kom í sjútvn. og skýrði mér frá því, að það sé að óvilja Sjómannafélags Rvíkur og Sjómannafélags Hafnarfjarðar, ef breyt. verði gerð á skipun n. Það er ekki sæmandi fyrir hv. d. að ganga á þetta samkomulag. Þess vegna er ég á móti því, að nokkrar breyt. séu á því gerðar. Hitt er annað mál, að til eru nokkrir aðilar, sem samkomulagið getur ekki tekið til, sem sé fiskkaupaskipa- og línubátaeigendur. Frá þeim komu engir fulltrúar, og ég get játað það, að fyrir þeirra hagsmunum er ekki fullkomlega séð. Það er alveg rétt hjá meiri hl. sjútvn., að það er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til, að hægt verði að afgreiða beiðni um undanþágur á öllum útflutningshöfnum tafarlaust, en ég tel, að með minni brtt. séu gerðar fullkomnar ráðstafanir til úrbóta í því efni, því að þar er gert ráð fyrir, að ráðh. sé fyrir lagt að haga reglugerðinni þannig, að hægt verði að afgreiða beiðnirnar tafarlaust á öllum höfnum.

Ég sé mér ekki fært að fallast á brtt. meiri hl. sjútvn. Ég get að vísu fallizt á, að rétt sé að hafa í þessu tvo menn, en fellst ekki á að hafa lögreglustjórann á staðnum fyrir oddamann. Þekking lögreglustjóranna er á öðrum sviðum þannig, að þá má jafnvel telja með fáfróðari mönnum í þessum málum. Þetta er ekki sagt þeim til lasts, heldur aðeins af því, að þetta liggur utan við þeirra starfssvið. Það hefði verið eðlilegra að nefna t.d. fulltrúa skipaskoðunarinnar eða formann slysavarnardeildarinnar á staðnum. Þeir standa a.m.k. nær en lögreglustjórinn. Ég vil einmitt, að ráðh. fái tækifæri til að athuga það sérstaklega, hvernig n. verði bezt skipuð, og að að fengnum þeim athugunum verði frá reglug. gengið. Afstaða mín er sú, að ég vil, að samkomulagið, sem gert hefur verið, fái að standa og jafnframt, að trygging sé tekin í l. fyrir því, að aðrar útflutningshafnir verði svo settar, að þar verði hægt að afgreiða beiðnir viðstöðulaust, en úrskurðarvaldið verði ekki lálið vera hjá lögreglustjórunum.