24.02.1943
Neðri deild: 65. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Það er nú ekki seinna vænna, að Alþ. fari nú eitthvað að hugsa í dýrtíðarmálunum. Og það er auðséð, að þingflokkarnir hafa verið að bíða eftir því að sjá, hver væri vilji ríkisstj. í þeim efnum. Frv. um dýrtíðarráðstafanir er þá líka komið hér fram frá hæstv. ríkisstj. Sósfl. hafði að vísu gengið át frá því, að hægt mundi vera að hafa aðra stefnu hér í þinginu um þetta mál. Strax þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, skrifaði Sósfl., að hann væri reiðubúinn til að taka upp samvinnu við ríkisstj. um að flytja frv. um dýrtíðaranálin. Flokkurinn sá ekki ástæðu til að bera fram frv. einn um málið, þar sem hann áleit ekki hægt að fá alla flokka sameiginlega til þess að leysa þessi mál svo, að viðunanlegt yrði, og áleit, að slík mál sem þessi yrðu ekki heldur leyst öðruvísi en með samvinnu milli þings og stj.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. haft þá aðferð að bera þetta frv. hér fram án þess að hafa ráðfært sig við þingflokkana. Og eftir að hafa heyrt framsöguræðu hæstv. ráðh., verður maður að líta svo á, að hér sé fyrst og fremst að ræða um till. frá hendi hæstv. ríkisstj., en ekki lausn, sem hún ætli sér sérstaklega að halda fast við; m.ö.o., að ríkisstj. hafi ekki komið sér niður á, hvaða stefnu hún ætlar að taka í þessu máli, og treysti sér ekki til að leggja fyrir þingið ákveðna stefnu, sem hún ætli að halda fast við, heldur leggi fram till., sem hún gerir.

Hér hefur farið ákaflega mikill tími til spillis. Ríkisstj. gat tekið upp samvinnu strax við þingflokkana um þessi mál, þegar hún tók við völdum, til þess að reyna með samstarfi milli þingflokkanna og ríkisstj. að leysa málið. En það hafa nú liðið tveir mánuðir síðan, sem ríkisstj. hefur verið að hugsa um þetta mál, með þeim árangri, sem hér sést. Ég er hræddur um, að árangurinn komi seint, ef nú fyrst er farið að ræða í n. það, sem átti að fara að ræða fyrir 2 mánuðum, lausn dýrtíðarmálanna. Við höfum tapað 2 mánaða dýrmætum tíma, sem átt hefði að nota til að ná þar niðurstöðu, og stöndum nú í þeim sporum að eiga fyrst um það að ræða, hvers konar þessi dýrtíð sé og hvaða ráð séu við henni, en á þingfundum er ekki þægilegt að ræða þannig allt málið frá rótum. Það er þeim mun verra viðfangs, sem þetta frumvarp sjálft er ósanngjarnara. Frumvarp hæstv. ríkisstjórnar er eins og hnefahögg í andlit meiri hluta þjóðarinnar. Hagsmunir verkalýðsins eru með frv. þessu skertir miklu meir en annarra stétta. Þegar ríkisstj. fyrri ára vorn að hækka dýrtíðina í þágu annarra stétta, var það gert á kostnað verkalýðsins, en þegar hinir vísu menn komast að þeirri niðurstöðu, að lækka þurfi dýrtíðina vegna hinna sömu, sem áður þurfti að hækka hana, þarf lækkunin líka að verða á kostnað verkalýðsins. Dýrtíðarhækkunin var eins og skipulögð herferð allt frá því vorið 1939, að gengi ísl. krónu var lækkað til þess að lækka verðgildi þeirra króna, sem greiddar voru verkalýðnum í kaup, en skapa stórútgerðinni gróða. Samtímis var verkalýðsfélögum bannað að neyta samtaka sinna til að hækka grunnkaup. Gengislækkunarleiðin var valin af því, að ekki var álitið fært að lækka kaupið beinlinis að krónutali. Þannig var dýrtíðaraldan fyrst leidd yfir þjóðina, meiri hl. hennar til tjóns. Ekkert verulegt var gert til að stöðva flóðið, ekki fengust tollar lækkaðir á nauðsynjum nema þetta litilræði, sem lagfært var í fyrra. Síðan þegar gróðarráðstafanirnar hafa borið árangur og milljónirnar fara að safnast fyrir hjá stórútgerðarmönnum, krefjast þeir að fá þær yfirfærðar og borgaðar út í íslenzkum krónum. Fráfarin ríkisstj. varð við þeirri kröfu. Með því að yfirfæra þá peninga svo að skipti hundruðum þúsunda sterlingspunda eða milljónum, án þess að ykist vöruinnflutningur sá, sem þessi aukna kaupgeta beindist að í landinu, óx dýrtíð. Þessar ónotuðu milljónir í höndum nokkurra auðmanna urðu til þess að sprengja allt upp, jafnframt því sem þær komu í klær þeirra mjög miklum fasteignum miðstéttarmanna, sem síðan kunna að standa eftir rúnir. Þannig kom hver ráðstöfunin af annarri til hækkunar dýrtíðinni. Ég þarf ekki að rekja þann þátt, sem hækkun landbúnaðarafurða átti, svo margt er búið um það að tala. Vísitöluhækkun verkalauna átti einnig þátt, en þess ber að gæta, að það var í hverjum mánuði lægsta vísitalan, sem farið var eftir á Íslandi. Á hverra kostnað hækkaði þá dýrtíðin? — Verkalýðsins auðvitað og svo sparifjáreigenda. Fyrstu stríðsárin hækkaði grunnkaupið ekkert hjá verkamönnum, svo sem Dagsbrúnarmönnum í Rvík, en eftir 10 ára meira og minna atvinnuleysi varð atvinna svo mikil og aIlmikið stunduð eftirvinna, að með auknum þrældómi gátu þeir aukið tekjur sínar í bili, tekjur, sem hin sívaxandi dýrtíð hrifsaði svo af þeim. Tvisvar var verkalýðurinn sviptur samningafrelsi með lögum. Svo loks í ágúst 1942 tekst honum að knýja fram grunnkaupshækkun. Síðan hefur það kveðið við, sérstaklega í blöðum afturhaldsins, að þessi hækkun s.l. missiri sé orsök dýrtíðarinnar, sem hófst upp úr gengislækkun 1939 og hefur svo stöðugt vaxið, og því sé ekki um annað að gera en skerða með l. þau réttindi, sem verkalýðurinn hefur áunnið sér. Af því að hann var afskiptur, meðan dýrtíðin var að hækka, á hann að bera mestan þungann af lækkun hennar og kaupið að lækka á undan dýrtíðinni, — það er hvort í samræmi við annað.

Ég held, að þá sé full ástæða til að spyrja nokkurra spurninga um dýrtíðina og tekjuskipting í landinu. Þau er vitanlegt, að með löggjöf sem þessari er verið að skipta upp þjóðartekjum og þar með þjóðareignum milli stéttanna, og furðar mann, ef þm. kæra sig ekki um að fá glögga vitneskju um þær breyt., sem verið er að gera.

Af hverju og til hvers er verið að lækka dýrtíðina? Til þess að afstýra böli, sem hún er farin að baka öllum stéttum, e.t.v. ekki sízt stórútgerðinni, sem að henni stóð fyrst og lengst í von um gróða. Böl dýrtíðarinnar er ekki aðeins efnahagslegt, heldur og siðferðilegt, — öryggisleysið, sem við hana skapast, eyðslutilhneigingin, sem fylgir, o.s.frv. En fyrir hverja þarf fyrst og fremst að stöðva dýrtíðina og lækka?

Ég vil kasta fram nokkrum ágizkunum. Framleiðslutekjum landsmanna má nú skipta í þrennt. Hve mikil er sú framleiðsla, sem við njótum í landinu? Hvað er m.ö.o. aðeins í umferð milli okkar sjálfra? Það er afarerfitt að vita. Ég veit ekki, hvort það er út í loftið að gizka á 300 millj. kr. s.l. ár. Það mætti e.t.v. álíta það meira. Okkur er það ekkert sérstakt böl, þó að verð þessarar framleiðslu sé reiknað hátt, ef hver stétt fær rétt látlega upp skorið. Þá eru í öðru lagi útfluttar vörur, um 200 millj. kr. s.l. ár. Þar er það, sem skórinn kreppir núna. En liggja fyrir nokkrar rannsóknir um það, hvaða vörutegundir það eru, sem seldar eru erlendis með halla? Ég býst t.d., við góðri útkomu á lýsissölunni, enn sem komið er, og á ísfiski togaranna, sem sigla á vesturströnd Englands, og stærstu skipa, sem á austurströndina sigla. Sérstaklega hefur mikið verið talað um halla á rekstri hraðfrystihúsa. En eftir þær ívilnanir, sem fengizt hafa, vildi ég vita, hver sá halli er eða hvort hann þarf nokkur að vera, — ef rétt er reiknað. Þá er smábátaútgerðin. Það mun vera rétt, að þar sé um þó nokkurt tap að ræða. Einnig mun framleiðslukostnaður síldarútgerðar vera orðinn of hár í ísl. krónum. Ég vil spyrja hæstv. stjórn, hverjar athuganir hún hefur gert á því hverjar framleiðslugreinar aðeins verði reknar með tapi, eins og er, og hverjar sýnast geta gengið án þess. Vitneskja um þetta þarf að liggja fyrir, þegar verið er að ræða um dýrtíðarmálin. Það er vel hugsanlegt að jafna milli framleiðslugreina eins og stórútgerðar og smáútgerðar, t.d., með því að reikna þessum aðilum mismunandi gengi í yfirfærslum, án þess að nokkur heildargengisbreyting ætti sér stað. Svör við þeirri spurningu, hvernig hægt er að láta útflutning bera sig, byggjast á þekkingu, sem þarf um þessa hluti. Nú mun verða sagt, að við þurfum líka að þekkja til hins, hvaða útflutningsvörur okkar seljist án halla eftir stríðið og hvaða verðlækkunar megi þá vænta á þeim. Mér virðist auðsætt, að tap verði á landbúnaðarafurðum á erlendum markaði hvort sem er, ríkið verði eins og nú að ráða fram úr fjárhagsafkomu bænda án mikils tillits til erlends verðlags, svo að það sé hér aukaatriði.

En ég vil spyrja að einu: Hvaða vissu höfum við um verðlag í markaðslöndum okkar, t.d. Englandi, eftir stríð? Ef verðlag í Englandi hækkaði stórkostlega eftir stríðið, ef ensku stj. finnst það hentugt að lækka peningagildið í hlutfalli við vöru, — ef ekki í hlutfalli við aðrar myntir —, meðan landið er að hrinda af sér stríðsskuldunum, en við hefðum með miklum fórnum lækkað dýrtíðina hér og hlytum svo að fá dýrtíð aftur, þá væru þær fórnir okkar unnar fyrir gýg. Verði hins vegar engin hækkun í Englandi og öðrum markaðslöndum eftir stríð, kemur hér auðvitað kreppa, og við verðum að færa framleiðslukostnað okkar til samræmis við erIenda verðið. En það er mikið íhugunarefni, hve langt við eigum að ganga í fórnum, sem hugsanlegt er, að unnar verði fyrir gýg, þótt ég álíti vafalaust, að við verðum að færa dýrtíðina eitthvað niður. Og þessu má ekki gleyma, að það er fyrst og fremst gert vegna útflytjendanna.

Þá kem ég að þriðja þætti framleiðslunnar, en það er sú vinna og framleiðsla, sem keypt er af erlendum mönnum í landinu sjálfu. Afurðir. sem þeim hafa verið seldar, og vinna nema 130 millj. kr. á s.l. ári, en það er álíka mikið og allur ísfiskurinn eða meir en af útflutningnum í vörum. Á þessum liðum getum við að vissu marki grætt á aukningu dýrtíðarinnar. Að henni hefur orðið þar þó nokkur beinn hagur. En fyrir þeim hagnaði eru þau takmörk, að minna er keypt, ef verð er hátt, og ég býst við, að á síðasta ári hafi að því takmarki komið, er á leið, svo að dýrtíðin sé þar farin að baka okkur tjón, og þetta þarf að athuga. Þess er skemmst að minnast, að fjandskapazt var yfir því, að íslenzkir verkamenn skyldu vinna í setuliðsvinnunni, af því að ekki var um að ræða útflutningsverðmæti, sem kapítalistarnir í landinu gátu hirt bróðurpartinn af. Það hefur sem sé alltaf verið hugsað um það eitt, að stórútgerðin haldi sínum gróða og hlunnindum, hvernig svo sem fari fyrir þeim, er lítið sem ekkert hafa sér til lífsframfæris, varla ofan í sig og á.

Árið 1939 var um að gera að lækka laun verkamanna til þess að bjarga stórútgerðinni frá hruni, eins og það var kallað. Það var m.ö.o. verið að bera fyrir brjósti gróðavon stórútgerðarinnar, og svo er nú það sama að endurtaka sig, þegar á að fara að lækka laun verkalýðsins, svo að stórútgerðin geti haldið áfram að græða eins stórkostlega og hún hefur gert undanfarið. Og sú hæstv. ríkisstj., er nú situr, sér ekki aðra leið en þessa til þess að vinna bug á dýrtíðinni. Lausnin á með öðrum orðum að vera sú að halda við stórgróða stórútgerðarinnar á kostnað verkalýðsins í landinu. Er hægt að trúa því, að hv. þm. sjái ekki, að hér er farið þveröfugt í sakirnar? Því að hvort er réttlátara að láta verkalýðinn, sem dýrtíðin bitnar hvað harðast á, bera kostnaðinn af völdum dýrtíðarinnar, eða stórútgerðina, sem mest hefur auðgazt og mest hrúgað upp hjá sér stórgróðanum vegna styrjaldarinnar og dýrtíðar? Það þarf enginn maður með heilbrigða skynsemi að vera í vafa um annað eins og það, hver það á að vera, sem bera skal kostnaðinn af dýrtíð þeirri, sem nú er í landi voru. En það er samt sem áður eins og þessi sérréttindi útgerðarfyrirtækja séu eins og einhver heilagur hlutur, sem á engan hátt megi hrófla við, og að voðinn væri vís, ef það yrði gert. Það má með l. hindra það, að stórútgerðin tapi, og það á að mega með l. ákveða stórútgerðinni ákveðinn og öruggan stórgróða, en það má líka ræna rétti þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, til þess að semja um kaup sitt og kjör. Ef verkalýðurinn fær tækifæri til að kaupa sér ver utan um koddann sinn, föt til að klæðast í eða til að lifa sómasamlegu lífi með því að þurfa ekki að búa við skort, þá má það ómögulega viðgangast, þá þarf að rýra kjör þessa fólks, til þess að stórútgerðin, togaraeigendurnir, fái óáreittir að safna til sín stórgróðanum. Nei, það á að vera réttlátara að láta verkalýðinn koma biðjandi til fátækrafulltrúans og biðja hann ásjár, en sérréttindi stórútgerðarinnar má ekki með neinu móti skerða. Þetta er sú stefna, sem mestu hefur ráðið og verið aðalinntakið í þeim dýrtíðarfrv., sem komið hafa undanfarið.

Þá ætla ég nú að ræða einstaka liði og atriði í dýrtíðarfrv. því, sem hér liggur fyrir.

Það er þá fyrst við 1. kafla frv., um nýbyggingarsjóðinn. Hæstv. fjmrh. lýsti yfir því, að um 13 millj. kr. mundu nú vera í þeim sjóði, en ekki var neitt um það sagt, hvað í varasjóðnum væri.

Hvað skyldi það vera? En ég vil leyfa mér að spyrja, hvernig á því stendur, að eftir að flutt hefur verið út árlega af ísfiski fyrir um 100 millj. kr. og eftir allt skattfrelsið, sem þjóðin hefur veitt stórútgerðinni, þá skuli hún ekki hafa í nýbyggingarsjóði eftir þennan stórgróða annað en einar 13 millj. kr. Það hlýtur eitthvað meira en lítið að vera bogið við þetta. Og ég er hræddur um, að það sé full þörf á strangari skattaaðgerðum gagnvart stórútgerðinni með því að taka undan yfirráðum hennar þann sjóð, sem ætlaður er til endurbyggingar á skipastólnum, og að engar undanfærslur geti þar átt sér stað, og enn fremur þarf það að vera gersamlega fyrirbyggt, að togarigendurnir geti að stríðinu loknu beitt stórgróða sínum gegn þjóðinni.

Um skattamálin er það að segja, að ég vil talta það fram, að mér finnast undanþáguheimildir stj. vægast sagt óviðfelldnar. Annars er svo mikið búið að ræða þetta, að ég ætla ekki að eyða neinum orðum að því. En þó get ég ekki látið hjá líða að minnast á það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að fyrirtækin mundu ekki samkeppnisfær, ef þau nytu ekki þessarar undanþáguheimildar. Nú vill einmitt svo til, að þessar dýru húsabyggingar, sem hann var að minnast á, að væru svo þungbærar fyrir fyrirtækin, þær eru eitt af beztu ráðunum til þess að svíkja undan skatti. Það er því harla lítil ástæða til þess að heimila undanþágur hjá fyrirtækjunum af þeim sökum. Væri ekki nær að hjálpa eitthvað með undanþágu eða öðru slíku því fátæka fólki, er af húsnæðisvandræðum hefur orðið að ráðast í að reisa sér húskofa í dýrtíðinni og berst í bökkum með að standa straum af kostnaðinum? Nei, það er ekki gert, heldur á að veita einhverjum fyrirtækjum undanþágu og innleiða með því stórfellda spillingu.

Nú, svo er það viðreisnarskatturinn. Sá skattur á sérstaklega að leggjast á hina efnaðri gjaldendur í landinu, að því er ríkisstj. ættar, og mun þessi skattur samtals nema 11 millj. kr. að frádregnum 2 millj. kr., sem eiga að endurgreiðast á sínum tíma. En eins og þessari skattaálagningu er fyrir komið, þá mun skattur þessi aðallega greiðast af millistéttinni í landinu. — En hvað er nú þessi upphæð í samanburði við þann stórgróða, sem yfirstéttin í þessu landi hefur fengið? Árið 1940 höfðu 40 íslenzkir gjaldendur í Rvík 17 millj. kr. í tekjur, og 1941 höfðu 1I6 menn 34 millj. kr. í hreinar tekjur, og þetta er þó eftir óáreiðanlegu skattaframtali, en það er þó bersýnilegt af þessu, hversu hverfandi lítið það er, sem auðmannastéttin þarf að greiða af gróða sínum í sambandi við þennan skatt.

Ég vil nú spyrja: Ef það er svo mikið nauðsynjamál að lækka dýrtíðina, eins og þessi hæstv. stj. vill halda fram, því er þá ekki hægt að takmarka blátt áfram þá tekjuupphæð, sem hver einstakur maður má hafa, og láta það, sem fram yfir er, ganga til hins opinbera? Því ekki að taka fyrir uppsprettuna sjálfa að dýrtíðinni? Nei, þetta er ekki gert, sem er þó það eina, sem vit væri í, heldur á að hjálpa stórgróðamönnunum til að varðveita sinn stórgróða, á meðan þjóðin er látin fórna. Er ekki von, að manni blöskri þetta háttalag, sem innleiða á og staðfesta með l.

Þá kem ég að eignaraukaskattinum. Það hefði nú verið hægt að ímynda sér, að þegar stjórnarvöldunum loksins hugkvæmdist að leggja á kapítalskatt hér í þessu landi, þá væri hann hafður það ríflegur og honum hagað þannig, að hægt yrði með honum að bæta afkomumöguleika hinna eignalausu og afstöðu þeirra í þjóðfélaginu. En hvað skeður? Það á að verja þessu fé til þess að reisa hús fyrir ráðuneytin, hæstarétt og helztu stofnanir ríkisins, en þegar farið hefur verið fram á það allt fram á þennan dag að reisa hús og stofnanir, sem bráðnauðsynlegar eru allri alþýðunni í landinu, þá hafa þær till. verið drepnar og því borið við, að fé væri ekki fyrir hendi til þessara hluta. Svona er nú samræmið á háu stigi, og eftir því fer viljinn til þess að hlúa að alþýðunni og þeim, sem verst eru settir í þjóðfélaginu og alltaf eru látnir fórna. — Ég býst því við, að þessi eingaraukaskattur og tilhögun hans eigi hvorki vinsældum að fagna hjá þingi né þjóð.

Þá kem ég að 4. kafla frv. Ég þarf í raun og veru ekki mörgum orðum um hann að fara, því að verkalýðurinn í landinu hefur þegar sýnt það með samtökum sínum og einingu, að hann lætur ekki ganga á rétt sinn með hvaða brögðum, sem vera skal. Þetta hafa hv. þm. áþreifanlega orðið varir við. Það er heldur ekkert réttlæti í því að ætla sér að ganga á þau kröppu kjör, sem verkalýðurinn á við að búa, og að ætla honum sérstaklega að fórna. En þetta fer 12. gr. frv. fram á. Þess vegna er sú gr. ekki einungis óréttlát, heldur bæði óviturleg og ógerleg, því að það er búið að sannreyna það, að verkalýðsstéttin ísIenzka lætur það ekki viðgangast, að komið sé með óréttmætar og ósanngjarnar kröfur á hendur henni. Ef eitthvað á að gera, sem verkalýðsstéttina . varðar, þá verður það að gerast í samkomulagi við hana, ella verður það ógert.

Það er ekki svo gott að áætla, hvað verkalýðsstéttin mundi, ef þetta yrði að l., þurfa að fórna miklu af fjármunum. En ef við höldum okkur við Rvík eina, þá mundi það sennilega ekki vera fjarri sanni að áætla, að hún hafi haft í tekjur 100 til 120 millj. kr. síðasta ár. Og ef hún mundi hljóta sömu upphæð í ár, sem varla má þó búast við, mundi verkalýðurinn hér í Rvík þurfa að láta af hendi rakna um 14 millj. kr. eftir 12. gr. þessa frv., sem framlag sitt, og það bara verkalýðurinn í Rvík. Það er m.ö.o. meira framlag en auðmannastéttin og stórútgerðin hefur á þremur árum lagt í nýbyggingarsjóð til þess að varðveita gróða stríðsáranna, þangað til eftir styrjöldina, svo að hægt verði að endurbyggja skipastólinn. Sjá nú ekki allir, hversu hróplegt rangIæti er í þessu? Verkalýðsstéttin í Rvík á á einu ári að borga 14 millj. kr. til þess að reyna að vinna bug á dýrtíðinni, en stórgróðamennirnir eiga að halda sínum sérréttindum og sínum gróða að mestu óskertum. Það er verkalýðsstéttin, sem enn sem fyrr á að fórna, og hvaða tryggingu hefur hún svo fyrir því, að ekki bíði sama atvinnuleysið og bölið eftir stríð? Enga, — alls enga.

Það var ekki dýrtíð á árunum 1931–1939, þegar verkalýðurinn gekk atvinnulaus meira og minna og neyðin var daglegur gestur á heimilum þeirra. Hafa íslenzk stjórnarvöld gert nokkuð til þess að fyrirbyggja, að hið sama verði eftir þetta stríð? Það er vissulega mál til komið, að um þetta sé hugsað í alvöru og gerðar séu róttækar ráðstafanir til þess, að sama bölið meðal verkalýðsins endurtaki sig ekki eftir stríð. Það verður að gá að því, að stríð og dýrtíð er ekki eina bölið í þessum heimi, — það veit a.m.k. sá verkalýður, sem hefur þurft að horfa fram á atvinnuleysi, skort og örbirgð.

Það, sem því verður að gera um leið og þessi mál eru til úrlausnar hér á Alþ., er að fyrirbyggja, að afkomumöguleikar verkalýðsins sæki í sama horfið eftir stríð eins og þeir voru fyrir stríð, eða verði jafnvel verri. — Það, sem nú er að gerast á sviði fjármála í landinu, getur haft hinar örlagaríkustu afleiðingar til hins verra að stríðinu loknu, ef ekkert er að gert nú. Mestur hluti þess fjármagns, sem inn í landið kemur, fer, eins og nú standa sakir, í hendur örfárra manna, eða 20–30 manna, sem reka stórútgerðina. Þessi stórútgerðarfyrirtæki eru nú orðin stórauðug, en fyrir stríð urðu þau að leita á náðir bankanna til þess að geta haldið togurunum úti sér og sínum til framdráttar. Eftir stríð verður þetta viðhorf gerbreytt af því, sem gerzt hefur. Þá þurfa auðmennirnir aðeins að grípa til varasjóðanna og þurfa ekki lengur að leita til bankanna. Það verður því að ætla, eftir því seill á undan er gengið, að það verði undir geðþótta þessara togaraeigenda komið, hvort þeir gera út eða ekki, og að ekki verður fyrst og fremst spurt um, hvað verkalýðnum og öllum almenningi sé fyrir beztu. Þeir geta með öðrum orðum látið togarana liggja, þegar þeim sýnist. Forsmekk þess, er vænta má af þeim eftir stríð, getum við séð í bréfi ísl. botnvörpuskipaeigenda frá því í des. s.l., þar sem farið er fram á, að kaupið sé lækkað hjá verkamönnunum. Það má svo sem sjá af þessu, hverju verkalýðurinn má búast við, ef togaraeigendurnir eiga að vera einráðir um það að gera út eftir stríð. Ef þetta mál er ekki tekið föstum og ákveðnum tökum nú, um leið og reynt er að lækka dýrtíðina, þá er það, sem verkalýðurinn leggur til frá sinni hálfu, unnið fyrir gýg, ef ekki fæstjákvæð lausn á því böli, er verkalýðurinn átti við að stríða fyrir styrjöldina.

Það er því ekki nema eðlilegt, að verkalýðurinn setji fram þetta sjónarmið, um leið og dýrtíðarráðstafanir eru teknar til yfirvegunar, því að af tvennu illu er þó dýrtíðin skárri böl því, sem verkalýðurinn hefur árum saman orðið að berjast gegn fyrir tilveru sinni svo að segja frá degi til dags. Það er því ekki nema eðlilegt, að í umr. um þetta dýrtíðarfrv. fléttist hitt og þetta, sem kannske, strangt tekið, heyrir ekki til því frv., sem hér liggur fyrir, en aftur á máti snertir mjög rekstrarafkomu þjóðfélagsins í heild og einstakra stétta. Það þarf að taka það til rækilegrar athugunar, hvernig auðnum, sem nú safnast í hendur einstakra manna, verði sem bezt fyrir komið með heill almennings fyrir augum, en að engan veginn verði hægt að nota hann að stríðinu loknu móti þeim, sem þetta land byggja og rækta, sér og þjóðinni til framfæris. Með þessu er þó á engan hátt verið að setja stólinn fyrir dyrnar um lausn dýrtíðarinnar.

Það er ekki nema eðlilegt og sanngjarnt, að verkalýðnum séu sköpuð betri skilyrði og að kröfur um að tryggja atvinnu hans séu fram bornar. Ef á að tryggja rekstur stórútgerðarinnar, þá er eðlilegt að verkamenn vilji, að atvinna þeirra sé einnig tryggð.

Um eitt vildi ég fá upplýsingar hjá hv. atvmrh., og það er, hvort það er rétt, að ég held, að hann hafi sagt, að við útreikning þennan á vinnulaunum, sem lagður væri til grundvallar, væri miðað við 78%, þegar reiknuð eru vinnulaun bænda. Ef vinnulaun þeirra eru reiknuð þannig, eru þeir skoðaðir sem launþegar. Í þessu sambandi væri gott að fá að vita um vinnustundafjölda. Vil ég spyrja, hvort vinnustundafjöldi er það, sem leggja á til grundvallar eða er hafður til hliðsjónar. Gæti það verið gott sjónarmið, ef það yrði til þess, að stundirnar yrðu notaðar betur. En ef leggja skal til grundvallar verðlagsuppbætur á útfluttar gærur og kjöt, þá verður annað uppi á teningnum en þegar vinnustundafjöldinn er hafður til þess. Nú er það eigandi varanna, sem liggur til grundvallar. Stórbóndinn fær þá tífalt, tvítugfalt á við fátæka bóndann.

Ég býst ekki við því, að stórbóndinn leggi fram fleiri vinnustundir en fátæki bóndinn. Eftir þessu er litið á bóndann sem launþega, og er gott, að hætt er að líta á hann sem atvinnureiganda. Þá verður að gegnumfara „princippið“, þegar í öðru tilfellinu er litið á hann sem launþega, en í hinu sem eiganda. Þessu kasta ég fram til þess að fá nákvæmar í upplýsingar í málinu.

Í 5. kafla er gengið út frá því, að bændum verði greidd allmikil upphæð, 41/2 millj. kr., í uppbætur á afurðaverðið. Ég sé ekki betur en hækkun sú á landbúnaðarafurðum, sem þetta hefur í för með sér, sé látin í té af pólitískum ástæðum fremur en kröfum frá bændum. Það er gert á kostnað verkalýðsins þegar verið er að veita þessar uppbætur á afurðir landbúnaðarins.

Hef ég nú rætt nokkuð almennt um málið og ýmislegt, sem kemur til greina í þessu sambandi. Sósíalistaflokkurinn hefur verið reiðubúinn til samstarfs í dýrtíðarmálum. Það hefur lítið verið unnið að þessum málum af hálfu þingflokkanna og stjórnarinnar og án mikils árangurs. Fæ ég ekki séð, að þetta sé nokkur lausn á því eða leið út úr vandræðunum, heldur aðeins árás á verkalýðinn.

Einna praktískasta leiðin er sú, að málið verði tekið af dagskrá. Vil ég kasta því fram, án þess ég vilji gera það að till. minni, hvort ekki væri rétt að nefnd væri skipuð til þess að vinna að lausn dýrtíðarmálanna með ríkisstjórninni. Það þýðir ekki að karpa svona aftur og fram og komast ekki að neinni niðurstöðu.

En eins og ég tók fram, þá geri ég þetta ekki að till. minni, heldur kasta þessari uppástungu fram sem hugsanlegri leið til þess að greiða fyrir skynsamlegri vinnubrögðum í sambandi við þetta mál.