09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég held, að hv. 4. þm. Reykv. hafi ekki lesið allar till. okkar sósíalista, því að þá hefði hann varla gert sig sekan um þann málaflutning, sem hann hafði hér áðan. Hann sagði, að það væri í samræmi við till. sósíalista, að verið væri að lögbinda verðið til bænda, þó að þeir hefðu einmitt deilt á ríkisstj. fyrir að vilja slíkt hið sama. Þetta getur virzt rétt, ef ekki eru lesnar nema tvær fyrstu málsgr. brtt. En svo segir í þriðju málsgr.: „Nú reynist vísitala framfærslukostnaðar hærri en 220 eftir þann tíma, og skal ríkissjóður þá fram til 15. sept. greiða mjólkurframleiðendum það, sem á vantar, fulla verðlagsuppbót samkvæmt henni. Enn fremur skal með framlagi úr ríkissjóði greiða verðmuninn af þeim kjötbirgðum, sem til eru í landinu við gildistöku þessara laga.“ Hér er fullgreinilega tekið fram, að verðið til bænda skuli ekki lögbundið, heldur skuli þeir fá verð samkv. þeirri vísitölu, sem í gildi verður á þeim tíma, sem um er að ræða. Auk þess er gert ráð fyrir 45% grunnverðsuppbót. En í till. ríkisstj. er aðeins gert ráð fyrir 40% grunnverðsuppbót og verð afurðanna lögbundið við verð það, sem var í gildi í janúar–marz 1939. En lítum nú á það verð, sem var á landbúnaðarafurðum árið 1939. Eru líkur til, að það hafi verið lægra en sanngjarnt var? Hverjir ákváðu þetta verð? Framsóknarmenn segja, að það hafi verið ákveðið af bændum, en auðvitað er það rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að það voru engan veginn bændur sjálfir, sem verðið ákváðu, heldur tiltekin pólitísk samtök, verðlagsn., þar sem bændur eru í minni hl. Tökum til dæmis hv. þm: V: Sk:, sem er einn af áhrifamönnum þessara pólitísku samtaka og sjálfur hálfgildings bóndi. Enginn vafi er á því, að hagnaður hans af búskapnum er ekki nema lítill hluti af þeim aflafeng, sem hann dregur í land á sinni pólitísku útgerð. En látum það heita svo, að verðið hafi verið ákveðið af bændum. Það er að minnsta kosti ólíklegt, að það hafi ekki verið ákveðið eins hátt og sanngjarnt var. Það er t.d. alkunna, að kjöt var svo dýrt, að hagkvæmara var að flytja hingað kjöt frá útlöndum en kaupa það á innanlandsmarkaði, svo að því verður sízt haldið fram með rökum, að verðið hafi verið óhæfilega lágt. Mér þykir ólíklegt, að þessar n., sem voru svo að segja alveg einvaldar, vilji halda því fram, að þær hafi ekki gætt hagsmuna bænda, eins og skyldi, er þær voru að ákveða verð á afurðum þeirra. Ofan á þetta verð á nú að koma 45% grunnverðsuppbót samkv. till. sósíalista og svo verðlagsuppbót samkv. þeirri vísitölu, sem er í gildi á hverjum tíma. Þegar athugað er, að framsóknarflokksmenn hafa sjálfir ákveðið grunnverð það, sem þessu er bætt ofan á, er ekki sjáanlegt, að þeir hafi nokkra ástæðu til að sakast um harðdrægni í þessum efnum. En til hv. 4. þm. Reykv. vil ég skjóta því, að þótt ásakanir hans í garð framsóknarflokksmanna séu vissulega réttar, þá má segja, að þær komi úr hörðustu átt, því að það var vissulega Alþfl., sem hjálpaði pólitískum spekúlöntum Framsóknar í þessa valdaaðstöðu. Þeir hefðu aldrei komizt í hana að öðrum kosti.

Þá ætla ég að víkja fáum orðum að hv. þm. V: Húnv. Ég verð að segja, að þótt ég hafi verið á mörgum pólitískum fundum og hlýtt á misjafnlega vandaðan málaflutning, hef ég aldrei á ævi minni heyrt haldið fram ósannindum af jafnmiklu blygðunarleysi og í ræðu hv. þm. V.- Húnv. í gær og í dag. Hann hélt því fram, að grunnlaun verkamanna á Íslandi hefðu hækkað um 65% að undanförnu, og bætti því við, að hér væri þó ekki stytting vinnudagsins tekin til greina. Hæstv. félagsmrh. gerði í gær skilmerkilega grein fyrir þessu máli með samanburði sínum á hækkun kaups og verðs á landbúnaðarvörum. Hann hrakti svo rækilega þá staðhæfingu framsóknarmanna, að verð á landbúnaðarvörum hefði hækkað minna en kaupið, að ég þarf ekki að bæta þar neinu við. En í dag var hv. þm. V.- Húnv. kominn upp í 76% með þessa ímynduðu grunnkaupshækkun verkamanna og þóttist fá þetta út með því að athuga tímakaupið og taka til greina styttingu vinnudagsins. Þegar 8 stunda vinnudagur gengur í gildi hjá verklýðsfélögunum, deilist dagkaupið að vísu niður á færri vinnustundir og þannig kemur út hækkað tímakaup. En hið eina rétta í þessu sambandi er auðvitað að miða við dagkaupið. Stytting vinnudagsins táknar í sjálfri sér ekki auknar tekjur verkamanna, heldur bætt lífsskilyrði, aukna hvíld og aukið tóm til að menntast og mannast, enda er tilgangurinn með styttingu vinnudagsins sá einn að bæta kjör verkamanna að þessu leyti. Á einstaka stað og um stundar sakir, þegar sérstakur skortur er á vinnukrafti, getur stytting vinnudagsins að vísu táknað auknar tekjur verkamanna, en þá raunar líka því aðeins, að þeir leggi á sig aukið erfiði með því að vinna eftir vinnu. Eina rétta aðferðin í þessu efni er því að bera saman dagkaupið 1939 og grunnkaupið nú miðað við einn vinnudag. Hjá Dagsbrún, sem er langstærsta verkalýðsfélag landsins og þrisvar sinnum stærra en hið næststærsta, var dagkaupið 14.50 kr. árið 1939, en 16.80 kr. nú, og er þetta tæplega 16% hækkun. Svipað er þetta hjá Þrótti á Siglufirði og öðrum verklýðsfélögum í helztu kaupstöðum landsins. Þó að til kunni að vera nokkur smáfélög, sem hafa fengið fram 50, 60 eða jafnvel 80% grunnkaupshækkun, þá er í þeim svo hverfandi hluti íslenzkra verkamanna, að grunnkaupshækkun þeirra verður ekki mikið yfir 16% að meðaltali. Það er alveg óhætt að fullyrða, að grunnkaupshækkun íslenzks verkalýðs er að meðaltali innan við 20%. Það er því furðulegt ofstæki og hatur til verkalýðsins, sem lýsir sér í staðhæfingum eins og þeim, sem hv. þm. V.- Húnv. lét sér sæma að fara með, og hagsmunum bænda er í raun og veru enginn stuðningur í svona heimskulegum og einstrengingslegum málaflutningi. Enda ber þessi málaflutningur vitni um algeran misskilning á því, hverjir eru raunverulegir hagsmunir bændanna í sveitum landsins. Stórbændur og smábændur eru tvennt ólíkt. Stórbóndinn, sem lifir af vinnu annarra manna, hefur allt aðra aðstöðu en smábóndinn, sem á 30 eða 40 kindur og eina kú og kaupir engan vinnukraft, en selur jafnvel sjálfur vinnu sína á stundum. Smábóndinn hefur hagsmunastöðu með verkamanninum miklu fremur en stórbóndanum, enda er það sannast mála, að engir atvinnurekendur hér á landi hafa verið eins nízkir á vinnulaun og stórbændur, þó að ekki hafi allir verið jafnslæmir. En Framsóknarfl. er fyrst og fremst flokkur stórbænda.

Ég vil benda hv. þm. V.-Húnv. á, að það er einstrengingsskapur, þegar verið er að tala um afurðaverð, að vera að fjandskapast í garð verkamanna og gera þá ábyrga fyrir ábyrgðarleysi stjórnarvaldanna. Þess vegna verður það sízt til að auka gagnkvæman skilning, ef slíkur málaflutningur er hafður, sem hv. þm. V: Húnv. viðhafði og hv. þm. V.-Sk. viðhefur á hverjum degi, ef hann stendur upp, með sínum venjulega ofstopa.

Ég hef hrakið með tölum fullyrðingar hv. þm. um kröfur verkamanna til kauphækkunar. Ég geri mér þó ekki vonir um að geta sannfært þessa tvo hv. þm. Það er sama, hvaða rök væru borin fram af hálfu andstæðinga þeirra í stjórnmálum, þeir mundu leika sér að því að taka þau ekki gild. En ég vildi segja þetta, af því að mér fannst ekki nógu vel komið fram, hvað það voru miklar fjarstæður í ræðum þeirra, um að kjör verkamanna væru betri en þau eru.

Þegar verið er að tala um kjör verkamanna, þá má ekki gleyma því, að vísitalan er vitlaust reiknuð út frá byrjun. Vísitalan er alltaf reiknuð lægri en framfærslukostnaður gefur ástæðu til.

Verkamenn hafa alltaf fengið kauplækkun, með því að fá borgað eftir falskri vísitölu. Og þó að ekki sé eins þægilegt að koma fram með tölur til að sanna þetta eins og grunnkaupshækkunina, þá er sannleikurinn sá, að hækkunin hefir bara verið 12–16%. Þetta er viðurkennt af fjölda atvinnurekenda, m.a. af ríkinu, með því að láta starfsmenn ríkisins fá 20–25% hækkun. Það var viðurkenning á því, að vísitalan er vitlaust reiknuð út. Sama er með ýmsa aðra atvinnurekendur, að fjöldi þeirra gekkst inn á hækkun grunnlauna með svo og svo mörgum %, af því að vísitalan var of lág. Ég segi þetta til að sýna, að það eru ekki aðeins verkamenn sem halda þessu fram.