09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Þó að ég sé margt búinn að heyra, sem vert væri að svara, eru það sérstaklega tvö atriði hjá hv. 6. landsk. þm., sem ég get ekki látið ómótmælt, svo miklar firrur sem þar komu fram.

Hv. þm. talaði um kjötverðið, og að það væri eins alls staðar á landinu. Í l. eru ákveðin viss verðlagssvæði, og munar miklu á heildsöluverði á hinum ýmsu svæðum. Þá hefur verið leyfð smásöluálagning, en aðeins á 5 stöðum á landinu hefur hún verið notuð til fulls. Af þessu leiðir, að kjötverðið hefur alla tíð verið misjafnt í útsölu.

Hv. þm. sagði, að bændur á Austurlandi hefðu meiri tekjur af vegavinnu en af búum sínum. Þegar klofningurinn varð milli Bændafl. og Framsfl., var mikið deilt um vegavinnukaupið. Þá rannsakaði ég þetta hjá hverjum bónda á Austurlandi, og hver var útkoman? Annað árið 49 kr. að meðaltali, hitt 61 kr. Þetta gæti hafa breytzt eitthvað síðan, en það er ekki nema lítið, svo að nærri má geta, hvað það er fjarri öllu lagi, sem hv. þm. bar fram. Þessa villu hans taldi ég mér skylt að leiðrétta.