09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. — Það eru aðeins örfá orð vegna þess, að það voru nokkrir hv. þm., sem gerðu athugasemdir við ræðu mína hér í kvöld, sem ég sé mig nauðbeygðan til að svara. Hv. þm. V.-Sk. (SvbH) sagði, að hann hefði ekki trúað því, að önnur eins firra gæti komið fram eins og það, að haldið væri fram, að grunnkaup hefði hækkað aðeins um 16%, þar sem Þjóðviljinn hefði þó viðurkennt, að grunnkaupshækkunin hefði orðið um 20%. En ég sagði, að grunnkaupshækkun Dagsbrúnarverkamanna hefði orðið 16%, en víða á landinu hefði hún orðið hærri, og mundi hafa orðið að meðaltali 20%, þannig að mér ber saman við Þjóðviljann. Hv. þm. hefur því aðeins tekið rangt eftir.

Hv. þm. V.-Húnv. (SkG) kom enn með fullyrðingar um það, hve grunnkaupshækkunin væri mikil hjá verkamönnum, og hann var kominn með hana upp í 67%. En það hefur verið sýnt fram á, að grunnkaupshækkunin hefur ekki verið meiri en þetta, sem ég hef nefnt, þrátt fyrir alla hans útreikninga. Hann vildi halda því fram, að ég hefði verið í vondu skapi. Það var ég ekki. En hitt er vitað, að framsóknarmenn eru í vondu skapi þessa dagana. Sá flokkur á enga stjórnmálastefnu, en lýsir því yfir, að stefna hans mótist af stefnu annarra flokka; hann sé milliflokkur, sem vinni til hægri eða vinstri eftir atvikum; hafi sem sagt enga stefnu, en vinni eftir því, hvernig vindurinn blæs — og þá er eðlilegt, að hv. þm. Framsfl. séu í vondu skapi. Þegar enginn vill kaupa þá, hvorki til hægri né vinstri, þá er eðlilegt, að þeir séu í vondu skapi. Framsfl. vill selja sig til hægri eða vinstri eftir því, hvorir vilja bjóða betur í hvert skipti, þó að reynslan sýni, að verzlunin verður yfirleitt til hægri hjá þeim flokki.

Hv. þm. V.-Sk. sneri mjög út úr orðum mínum, er hann sagði, að ég hefði veitzt að öllum þm., vegna þess að ég deildi nokkuð á hann og hv. þm. V.-Húnv. En ég nefndi þá sérstaklega, vegna þess að ég taldi, að þeir hefðu nokkra sérstöðu, ekki aðeins meðal þm. yfirleitt, heldur einnig meðal þm. Framsfl., að vísu má telja hv. þm. S.-Þ. (JJ) með í þeirri sérstöðu. Ég var alls ekki að deila á alla þm. jafnt. Það vita allir, að þessir hv. þm. hafa sérstöðu í einstrengingshætti og hatri gagnvart verkamönnum og tilhneigingu til þess að veitast að verkamönnum og leitast við að mistúlka þeirra málstað og að geta unnið þeim ógagn. Hv. þm. V.-Sk. hefur sérstöðu um margt. T.d. eru ekki allir þm. í Framsfl. prestar, eins og hann er, og eins og allir víta, gersamlega trúlaus maður, þó að hann gangi á helgum í prédikunarstólinn með helgiblæ utan á sér. Allir vita, að hann er trúlaus. Það eru ekki allir þm. Framsfl. svona miklir hræsnarar, og hefur hann þar sér stöðu. Hv. þm. V.-Húnv. hefur líka sérstöðu í Framsfl. Hann hefur verið notaður til verka, sem fjöldi af framsóknarmönnum hefði ekki látið nota sig til. Þegar gjaldeyrisnefnd t.d. úthlutaði innflutningsleyfum til framsóknarmanna fremur en annarra og var þar hlutdræg, þegar þessi hv. þm. var í n. (Forseti: Vill hv. 2 landsk. þm. stilla orðum sínum meira í hóf?). Það eru tveir hv. þm., sem ég beindi orðum mínum til, en ekki, eins og hv. þm. V: Sk. sagði, að ég hefði gert, til allra hv. þdm. Hann sagði, að ég hefði beint orðum mínum að öllum hv. þdm., og tel ég því nauðsynlegt að gera grein fyrir þessu.

Hv. þm. Hafnf. (EmJ) beindi líka nokkrum orðum til mín, sem mér fannst ástæðulaust. Mér fannst, að hann gæti svarað því, sem ég beindi að Alþfl., þar sem ég minntist á þessar heldur tilgangslitlu till., sem Alþfl. ber fram, sem litil meining er á bak við. Mér fannst hann geta svarað þeim rökum, sem ég beindi til hans. En honum fannst hann verða að koma með alllangar hugleiðingar um það, að ég kunni ekki að gera mun á réttu og röngu. Það vill oft verða, að menn greinir á um það, hvað sé rétt og hvað sé rangt, og þennan hv. þm. og mig greinir auðvitað mjög á um það, hvað sé rétt og hvað sé rangt frá pólitísku sjónarmiði í ýmsum málum. Ég ætla ekki að fara að rifja upp ágreiningsmál milli Sósfl. og Alþfl., en ég vil minnast á það t.d., að okkur greindi á um það — ég veit, að hann hefur alveg unnið þar eftir beztu samvizku, þessi heiðursmaður, og þeir hafa gert það alþýðuflokksmenn eftir beztu samvizku og talið sig vera að vinna landinu gagn með því, þegar þeir réðu yfir Alþýðusambandi Íslands — þegar ákveðið var, að enginn mætti vera fulltrúi á alþýðusambandsþingi, nema hann væri alþýðuflokksmaður. Þetta var auðvitað gert eftir beztu samvizku, ekki þarf að efa það. Við höfum þó um þessa ráðstöfun mismunandi skoðanir um það, hvað hafi verið rétt og hvað rangt. Við höfum haft mismunandi skoðanir um það líka að þessu leyti, þegar alþýðuflokksmenn notuðu aðstöðu sína til þess að selja sjálfum sér dýrar eignir, sem voru í eigu verkalýðsfélaganna í Rvík. Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Rvík seldi þessar eignir þannig, að þeir menn, sem í því voru, seldu sjálfum sér þessar eignir fyrir h. u. b. einn tíunda hluta þess verðs, sem hefði verið hægt að fá fyrir þær með því að selja þær öðrum. Og vafalaust hafa þessir sömu menn gert það eftir beztu samvizku. Hv. þm. Hafnf. hefur talið þetta rétt, en ég tel, að það hafi verið rangt. Ég tel, að hann ætti að sitja í tugthúsinu fyrir það. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að halda sig við málið, sem er á dagskrá). Ég minntist á þetta til þess að sýna, að menn deila endalaust um það, hvað er rétt og hvað er rangt.

Að endingu vil ég taka undir það með hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ), að það er bókstaflega ómögulegt að skilja það, að hæstv. ríkisstj., ef hún getur fallizt á brtt. sexmenninganna á þskj. 705, að hún geti þá ekki fallizt á brtt. fjhn. Ef hún getur fallizt á brtt. á þskj. 705, þá hlýtur hún að geta fallizt á brtt. fjhn., það er ekki hægt að fá annað út úr því.