10.04.1943
Neðri deild: 96. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég hef ekki blandað mér inn í þessar almennu umr., sem fram hafa farið um dýrtíðarmálið og ætla ekki að tefja afgreiðslu þessa máls með neinum almennum umr. um málið. En brtt., sem samþ. var hér við 2. umr. við þetta frv., hefur gefið mér ástæðu til þess að flytja hér brtt. ásamt hv. 7. þm. Reykv. (SK). Og fyrir þessari brtt. vil ég mæla fáein orð.

Það efni, sem hér um ræðir, er 7. gr. frv., eins og það nú er orðið eftir 2. umr., og fjallar hún um skattamál, þ.e.a.s. breyt., sem samþ. var á frv. eftir till. frá tveimur sósíalistum hér í hv. d., hv. þm. Siglf. (ÁkJ) og hv. 6. landsk. þm. (LJós). Með þeirri gr., sem þannig er til orðin í frv., er tvennt lagt til: Að felld verði niður sú almenna skattívilnun, sem almenn hlutafélög hafa haft, og enn fremur að hlutafélög, sem að sjávarútvegi standa, haldi að vísu að vissu leyti þessari skattívilnun, en þó með þeim hætti, sem gerir þessi ákvæði gersamlega óviðunandi fyrir þennan atvinnuveg. Þar er lagt til, að upphæð nýbyggingasjóða verði bundin við ákveðið hámark viðvíkjandi skattívilnuninni, sem alls ekki fullnægir í framtiðinni þeirri brýnu þörf, sem er fyrir hendi á nýbyggingu skipastólsins. Þetta skattfrelsi er bundið við 1 millj. kr. í nýbyggingasjóði. Nú er öllum hv. þm. það ljósara en svo, að ég þurfi að endurtaka það, að þessi hámarksupphæð, 1 millj. kr., hrekkur mjög skammt fyrir eitt skipafélag eða útgerðarfélag til þess að endurnýja flota sinn. Og þetta ákvæði í 7. gr. frv. verður því fáránlegra sem svo virðist sem út frá því sé gengið, að þessi hámarskupphæð til nýbyggingasjóða, sem skattfrjáls sé, eigi að vera jöfn fyrir hlutafélögin, sem sjávarútveg stunda, hvort sem þau hafa 2, 3, 4, 5, 6, 7 eða 8 skip, eða þau hafa aðeins eitt skip. Möguleikarnir til nýbygginga eiga eftir þessu að vera gerðir jafnir fyrir það félag, sem á eitt skip eins og fyrir annað, sem á kannske 7 skip, ef ég skil þessa gr. rétt. Og þegar á þetta er litið, verður öllum auðsætt, hversu frámunaleg ákvæði hér eru á ferð. Brtt. okkar, hv. 7. þm. Reykv. og mín, er um, að þessi 7. gr. frv. falli niður. Ég veit, að þegar við, hv. 7. þm. Reykv. og ég, leggjum til, að þessi gr. verði felld niður, þá munu einhverjir hefja upp rama-óp um það, að hér séu að skjóta upp hausnum hagsmunir stórútgerðarinnar og stríðsgróðamannanna. Við höfum heyrt þann söng, og aldrei greinilegar heldur en í ræðu hv. 2. þm. Reykv. (EOl), þegar hann mælti fyrstu orð sín, þegar þetta frv. var lagt fram. Hann benti á það sem einhverja þjóðfélagslega hættu, ef útgerðin í þessu landi kæmi sæmilega efnum búin út úr þessari styrjöld og ef útgerðarmenn, sem eiga 1–5 skip, hefðu möguleika til þess að endurnýja skipin og bjóða sjómönnum, sem fiska og sigla til útlanda, möguleika til að sigla á sæmilega útbúnum skipum, en ekki ryðkláfum. Það er þessi skilningur, sem í raun og veru er grundvallaratriðið, sem um er að ræða, þegar minnzt er á endurnýjunarþörf skipastólsins í framtíðinni. Og ég lít á þessa afstöðu gegn því, að útgerðin geti endurnýjað skipastól sinn, sem skiljanlegan hlut frá sjónarmiði sósíalista, sem telja það ekki æskilegt fyrir þjóðfélagið, að atvinnufyrirtækin geti komið rík og sterk út úr þessari styrjöld, heldur vilja þeir, að þau verði þá fátæk, til þess að hægara verði að benda á, að fólkinu sé rík þörf á nýju þjóðskipulagi, því sem sósíalistar vilja hafa. En ég vil spyrja, hvort það muni vera nokkuð í óhag íslenzkum sjómönnum, sem sigla nú á illa útbúnum og gömlum skipum, þó að hægt sé að safna í sjóði til þess að endurnýja skipastólinn að stríðinu loknu.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. En andstaða mín er svo rík gegn þessu ákvæði í 7. gr., að ég vildi ekki láta þetta mál svo fara hér út úr hv. d., að slík till. kæmi ekki fram frá okkur.

Ég vil svo víkja nokkrum orðum að þætti framsóknarmanna í þessu máli, þeirra, sem staðið hafa á glóðum um, að samþ. yrði að leggja 3 millj. kr. til þess að tryggja atvinnu verkalýðsins í landinu. Framsóknarmenn hafa verið eins og þeir stæðu berfættir á glóðum út af því, að mögulegt yrði kannske að fá samþ. þessar 3 millj. kr. til þess að tryggja atvinnu verkalýðsins í landinu. En svo þegar kemur fram till. frá tveimur sósíalistum um að taka ekki 3 millj. kr., heldur mörgum sinnum 3 millj. kr., til alþýðutrygginganna, til þess að útgerðin geti ekki endurnýjað sig, þá voru framsóknarmenn ekki hræddir við að taka þessar milljónir til slíkra trygginga. Ég vil aðeins benda á „samræmið“ hjá hv. framsóknarmönnum í þessum atriðum.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að það er vegna hagsmuna sjómanna þessa lands, sem munu eiga framfæri sitt undir því að sækja sjóinn, sem brtt. mín og hv. 7. þm. Reykv. er flutt, og brtt. þessa leyfi ég mér hér með að afhenda hæstv. forseta með tilmælum um, að hann leiti afbrigða fyrir henni.