16.09.1943
Neðri deild: 17. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

45. mál, hafnarbótasjóður

Pétur Ottesen:

Ég vildi aðeins taka undir orð hv. þm. Ísaf. og segja til viðbótar, að það kemur vitanlega alls ekki til mála að útiloka kaupstaðina frá framlögum úr sjóðnum, því að hafnarbætur eru þar víða skammt á veg komnar, svo að það er gersamlega óverjandi að binda svo mikið fé sem hér er um að ræða og útiloka þá jafnframt frá því. Að vísu er það rétt, að kaupstaðirnir hafa fjárhagslega meira bolmagn, en þó eru aðstæður víða þar svo erfiðar til hafnarbóta, að þær kosta gífurlegt fé, og það einmitt á þeim stöðum, sem liggja vel við fiskimiðum. Þá er og í hafnarlögum tekið nokkurt tillit til aðstöðumunar smærri og stærri staða um tillag úr ríkissjóði. Er það venjulega 2/5, en sumir kaupstaðir, þar sem aðstaðan er bezt, fá ekki nema 1/5 og svo allt að helmingi í smærri stöðum. Það er því tekið tillit til aðstæðna að þessu leyti.

Annars get ég tekið undir orð hv. þm. Ísaf. og flm. um það, að gott eitt er um það að tryggja nokkuð fé í þessu skyni, er vel lætur í ári. En það má ekki koma í bága við tilhögun á framkvæmdum þessara mála, sem hér hefur verið: Allra sízt má útiloka einstaka staði, sem liggja vel við fiskimiðum, frá ríflegu framlagi.

En eftir því, sem hv. 1. flm. sagði, að ekki mundi hann gera ágreining um þetta atriði, ber fremur að líta á þetta orðalag sem ágalla, er stafar af ónógri athugun á málinu.

Í 4. gr. frv. segir, að ekki megi greiða fé úr sjóðnum, fyrr en Alþ. hafi sett nánari ákvæði um þær fjárveitingar. Hví ekki að setja þegar ákvæði inn í þetta frv. um fjárveitingarnar? Ef hægt verður að mynda þennan sjóð af tekjuafgangi ríkissjóðs 1943, þá væri engin ástæða til að bíða lengi með að nota það fé. Það væri því til athugunar fyrir n., hvort ekki ætti að skjóta ákvæðum um þetta inn í frv.