16.09.1943
Neðri deild: 17. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

45. mál, hafnarbótasjóður

Sigurður Kristjánsson:

Ég er að sönnu ekki aðalflm. þessa frv., það er hv. þm. N.-Ísf., en út af umræðum um þetta mál vildi ég taka fram til skýringar, að frá minni hálfu er alls ekki tilætlunin að gera greinarmun á því hlutfalli, sem reynt hefur verið að skapa hér undanfarið um þátttöku ríkisins í hafnarbótum. Þetta hlutfall hefur verið nokkuð einskorðað, 1/3, 2/5 og ½ eftir ástæðum. Þannig hefur skapazt nokkur stigi í þessum efnum, þó ekki full glöggur, eftir getu þeirra staða, sem leggja áttu fé á móti ríkisframlaginu, og eftir nauðsyn hafnarbótanna.

Ég geri ráð fyrir, að tilhögunin á þessum málum eigi eftir að skýrast og skorðast nánar og vitamálastjóri geri helzt tillögur um mismunandi framlög ríkisins eftir aðstöðumun, en hann mun hafa bezt yfirlit yfir þessi mál.

Um Akranes og Vestmannaeyjar get ég sagt það sem meðlimur sjútvn. um langt skeið, að það er vitanlegt um þessa staði, að þeir hafa hér sérstöðu. Þar hafa verið byggðar upp hafnir úr hafnleysum gagnstætt því, sem er víðast hvar, og það er ekki nema- sanngjarnt, að ríkið taki meiri þátt í þeim hafnargerðum, sem eru úti í hafi.

En höfuðtilgangur þessa frv. er ekki að bæta úr eða skilgreina þennan mismun á framlagi ríkisins, heldur er sjónarmiðið allt annað: Það er að hagnýta góð veiðisvæði sem bezt. Víða eru litlar eða engar hafnargerðir nálægt góðum fiskimiðum, af því að nærliggjandi sveitir eru svo fátækar, að þær geta ekki lagt fram fé á móti framlagi ríkisins til hafnarbóta. Úr þeirri fátækt er þessu frv. ætlað að bæta, og er það eigi síður til hagsbóta yrir þjóðarheildina, að góð veiðisvæði séu hagnýtt.

Að lokum vil ég alvarlega vara við því, að þessi sjóðmyndun verði gerð að einum þeim hrossskrokki til kjördæmalegra og atkvæðalegra hagsbóta, sem ýmis mál hafa hér verið gerð að. Þetta frv. verður að vera undanþegið þeim leik.