25.11.1943
Sameinað þing: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

27. mál, fjárlög 1944

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það lítur út fyrir, að þau fjárlög, sem nú verða afgr., muni sýna útgjöld, sem nema fast að 100 millj. kr. Er það miklu hærra en nokkru sinni fyrr.

Á fjárlögum yfirstandandi árs eru gjöldin rúmlega 65 millj. kr. Til samanburðar má geta þess, að skv. landsreikningi 1938, síðasta árið fyrir styrjöldina, voru rekstrarútgjöld ríkisins 17.7 millj. kr., eða um það bil 6 sinnum lægri en þau eru áætluð á næsta ári.

Af þessum 100 millj. kr. er um 1/3 launagreiðslur til opinberra starfsmanna, eða nokkuð yfir 30 millj. Launagreiðslur einar eru nú um það bil helmingi hærri en öll útgjöld ríkisins voru á árunum fyrir stríðið, og var þó einna mest deilt á þáverandi fjármálastjórn fyrir starfsmannahald og launagreiðslur. Þessar miklu fjárhæðir, sem nú þarf að verja til launagreiðslu handa ríkisstarfsmönnum, er ein af afleiðingum dýrtíðarinnar. Það er óhjákvæmilegt að greiða opinberum starfsmönnum stórfé í verðlagsuppbætur vegna dýrtíðarinnar. Hefði dýrtíðin ekki verið tvöfölduð á s. l. ári, mundu þessar greiðslur nú vera mörgum millj. kr. lægri, en launamenn þó engu verr settir.

Það er mjög vafasamt, að ríkissjóður verði til lengdar fær um að greiða yfir 30 millj. á ári í laun til opinberra starfsmanna. Tekjur hans geta lækkað fyrr en varir. Þær hljóta að lækka um leið og þjóðartekjurnar, hver sem dýrtíðarvísitalan þá verður. Þess vegna er óhjákvæmilegt að setja það ákvæði í nýju launalögin, sem væntanlega verður sett innan skamms, að laun opinberra starfsmanna taki breytingum til hækkunar og lækkunar eftir heildartekjum þjóðarinnar á hverjum tíma. Með því móti verður afkoma opinberra starfsmanna í sem nánustu samræmi við lífskjör annarra manna í þjóðfélaginu. Það er réttlætismál og um leið það eina framkvæmanlega, þegar til lengdar lætur. Þeir eiga ekki að vera afskiptir, en þeim ber ekki heldur meira en sanngjarn hlutur af heildartekjum landsmanna á hverjum tíma, miðað við það, sem aðrar stéttir eiga við að búa.

Um leið og ríkissjóður þarf nú að greiða milljónatugi í launauppbætur til starfsmanna sinna vegna dýrtíðarinnar, þarf hann einnig að greiða stórfé í uppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur af sömu ástæðum. Þetta er óhjákvæmilegt og alveg jafnsjálfsagt eins og launauppbæturnar, þótt sósíalistar og sumir aðrir leyfi sér að nefna þessar greiðslur fátækrastyrk. Þetta er ein af óhjákvæmilegum afleiðingum þess, sem hér gerðist í fyrra, þegar dýrtíðin var tvöfölduð. Alveg á sama hátt og það er nauðsynlegt og réttmætt að greiða launamönnum verðlagsuppbætur, til þess að kjör þeirra verði bærileg, er það óhjákvæmilegt og réttlætismál að borga útflutningsuppbæturnar til landbúnaðarins til þess að koma í veg fyrir, að þeir einir, sem þann atvinnuveg stunda, lifi við allt önnur og stórum lakari kjör en allar aðrar stéttir þjóðfélagsins nú á tímum.

En hér skal einnig á það bent, að bændur eiga skýlausan rétt á útflutningsuppbótunum. Vísitölunefnd landbúnaðarins, 6 manna nefndin svonefnda, varð sammála um það, hvaða verð bændur þyrftu að fá fyrir framleiðsluvörurnar frá þessu ári, hvort sem þær eru seldar innanlands eða utan, til þess að tekjur þeirra yrðu í nokkurn veginn samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Verðið, sem sett var á vörurnar innanlands í haust, var síðan beinlínis byggt á því og við það miðað, að verð 6 manna nefndarinnar fáist einnig fyrir útflutningsvörurnar. Verði bændum ekki tryggt þetta ákveðna verð fyrir útflutninginn, þá eru það bein svik. Verðið, sem sett er á vörur þeirra innanlands, er sett fast og einmitt sett með tilliti til þess, að ákveðið verð fáist fyrir þann hluta framleiðslunnar, sem út er fluttur.

Fulltrúar Sjálfstfl. og sósíalista, sem töluðu hér í gærkvöldi, voru að hæla sér af því, að þeirra flokkar hefðu átt svo mikinn þátt í því, að samkomulag varð í 6 manna nefndinni. En hvaða gagn er að samkomulagi fyrir bændur, ef ekki á að framfylgja því og tryggja þeim það verð fyrir afurðirnar, sem þeim ber samkv. niðurstöðum 6 manna nefndarinnar og verðákvörðuninni innanlands? Bændur hafa ekkert gagn af samkomulaginu, ef ekki á að fylgja því fram. Sé það meiningin að nota það aðeins til þess að setja fast verð á þann hluta framleiðslunnar, sem seldur er innanlands, en skeyta ekkert um, hvað fæst fyrir útflutninginn, og þvinga bændur þannig til að selja vörur sínar fyrir verð, sem gefur þeim miklu lægri tekjur en öðrum stéttum, þá er það svo ósæmileg framkoma, að ekki verður með orðum lýst.

En hvernig er þá afstaða flokkanna til þessa máls og annarra dýrtíðarráðstafana, þegar til framkvæmdanna kemur?

Framsfl. er eini þingflokkurinn, sem heill og óskiptur vill fylgja fram samkomulagi 6 manna nefndarinnar. Alþfl. hefur lýst sig andvígan útflutningsuppbótunum. Vitað er, að Sjálfstfl., sem hv. 2. þm. Rang., Ingólfur Jónsson, sagði hér áðan, að vissi hvað hann vildi, er klofinn í þessu máli eins og fleirum. Mun nú reyna á það næstu daga, hvernig hann stendur sig í þessu máli, m. a. hvort hann vill láta hæstv. ríkisstjórn hafa nauðsynlegar tekjur til dýrtíðarráðstafana. Mér virðist framkoma sjálfstæðismanna og sósíalista í efri deild þingsins í dag ekki spá neinu góðu. Vitanlega þurfa þeir, sem vilja halda í heiðri samkomulag 6 manna nefndarinnar, að tryggja það, að ríkissjóður hafi fé til að greiða útflutningsuppbæturnar. Einnig þarf hæstv. stjórn allmikið fé til annarra dýrtíðarráðstafana innanlands, til þess að koma í veg fyrir, að dýrtíðin taki enn stórt stökk upp á við nú þegar. Það þykir að vísu engum góður kostur að verja miklu fé til að borga niður vöruverð innanlands, en eins og nú er ástatt, er það þó eina leiðin til þess að koma í veg fyrir, að smáútvegurinn og ýmsar aðrar atvinnugreinar hrynji í rústir nú þegar, sem verða mundi, ef dýrtíðinni væri gefinn laus taumur og vísitalan kæmist upp í 300 stig eða hærra.

Gott dæmi um það, hvernig nú er komið fyrir atvinnurekstri landsmanna og hvernig fara mundi, ef dýrtíðinni yrði enn leyft að hækka, eru bollaleggingar hv. þm. Ísaf., Finns Jónssonar, hér í umræðunum í gær um að fá fiskiskip handa Íslendingum smíðuð erlendis. Hann sagði, og eflaust er það rétt, að þau yrðu með því móti miklu ódýrari en ef þau væru smíðuð hér á landi. Þarna kemur greinilega fram ein afleiðingin af stjórnleysinu í fyrra, sem braut niður allar skorður gegn dýrtíðinni. Íslenzkir iðnaðarmenn eru vel færir um að smíða skip, a. m. k. af þeirri stærð, sem þm. Ísaf, talaði um, en þó flytja þm. Alþfl. og sósíalistar till. um að fela útlendum skipasmiðum þetta. Þarna blasir við íslenzkum iðnaðarmönnum, að upp úr aðförum þessara flokka og Sjálfstfl. á síðasta ári hafi þeir það að ganga iðjulausir á næstu árum, meðan útlendingar smíða fiskiskipin handa þjóðinni.

Í efri deild hefur verið borið fram frv. um að framlengja verðlækkunarskattinn, sem innheimtur var í ár, og nota það fé til dýrtíðarráðstafana. Frv. kom til atkvgr. í Ed. í dag, við 1. umr. og af 7 sjálfstæðismönnum í deildinni voru aðeins 2, sem athugasemdalaust greiddu atkv. með því, að frv. færi til 2. umr. Verði ekki breyting til bóta á afstöðu flokksins þar, er sjáanlegt, að málinu er stefnt í voða, þar sem sá tekjuafgangur, sem nú er á fjárlagafrv., hrekkur hvergi nærri til þess hvors tveggja að greiða útflutningsuppbætur og afstýra hækkun vísitölunnar innanlands.

Sósíalistar í Ed. greiddu einnig allir atkv. gegn þessu frv. í dag. Þeir þykjast þó annað veifið vera með því að greiða útflutningsuppbætur til smábænda, sem þeir nefna svo.

En vitanlega mundu hvorki „smábændur“ né aðrir fá grænan eyri í uppbætur, ef sósíalistar mættu ráða, vegna þess að þeir eru á móti nýrri tekjuöflun fyrir ríkissjóð og vilja lækka ríkistekjurnar stórkostlega frá því sem nú er, eftir því sem fulltrúi þeirra upplýsti hér í gærkvöldi í umræðunum.

Sósíalistar reyna nú eins og oftar í ræðum sínum að skipta bændum í stórbændur og smábændur eða kotbændur, eins og þeir stundum nefna þá. Í þingsályktunartill. frá þeim sósíalistum, sem lögð var hér fram fyrir fáum dögum, er talað um enn eina tegund af bændum, sem þeir nefna sauðbændur. Þeir þykjast vera með því að greiða útflutningsuppbætur til smábænda, en þó andmæla þeir einnig því aðra stundina: Þannig sagði einn þm. sósíalista hér í þinginu fyrir nokkrum dögum, að aðalgallinn við útflutningsuppbætur væri sá, að þeim væri dreift út um allt land milli kotbænda, í stað þess að nota það á annan veg, t. d. til þess að koma upp stórbúum. Þannig er hvað á móti öðru í þeirra málflutningi. Annað slagið talað um, að smábændur einir eigi að fá uppbætur, en í hinu orðinu, að háskalegt sé að dreifa fénu þannig, því að það tefji fyrir því, að kotabúskapurinn leggist niður.

En ég ætla að athuga tal þeirra um stórbændurna og smábændurna nokkru nánar. Stórbændur kalla þeir sennilega þá, sem hafa eitthvað af aðkeyptu vinnuafli, hvernig sem efnahagur þeirra raunverulega er. Nú mun það vera svo, að afkoman hjá þeim bændum, sem þurfa að taka kaupafólk og vetrarmenn, mun sízt betri, heldur yfirleitt lakari en hjá þeim, sem hafa ekki stærri bú en svo, að þeir geta fleytt þeim án þess að kaupa vinnuafl. Hinir fyrrnefndu þurfa því eins á uppbótum að halda og eiga sama rétt á þeim eins og hinir. En svo ætla ég að taka eitt dæmi, sem sýnir, hvernig þessi regla, sem sósíalistar vilja taka upp, mundi verða í framkvæmdinni. Ég tek dæmi af tveim bændum, sem ég þekki, án þess að nefna nöfn. Sams konar dæmi um afstöðu manna má finna fleiri og færri í hverri sveit á landinu. Annar bóndinn er roskinn maður, sem á nokkur uppkomin börn. Aðeins eitt, það yngsta, er eftir heima hjá honum. Hin eru farin, í kauptún og til Reykjavíkur, og hafa haft þar góða atvinnu að undanförnu. Vegna þess að börnin eru farin, en bóndinn hefur ekki vinnufólk, er bú hans fremur lítið, eða minna en í meðallagi. Samkvæmt reglu sósíalista ætti hann að fá uppbætur á allar sínar afurðir. Í sömu sveitinni er annar bóndi, sem einnig á nokkur börn, komin yfir fermingaraldur. Þau hafa ekki farið burtu. Þau eru enn heima og vinna með foreldrum sínum að búskapnum og að því að bæta jörðina. Vegna þess að þar hefur verið nægur vinnukraftur á heimilinu, hefur búið stækkað smám saman á undanförnum árum og er nú orðið stærra en í meðallagi. En þá koma sósíalistar til skjalanna og segja við þennan bónda og börn hans: Þið eigið að fá minna fyrir ykkar framleiðsluvörur heldur en nágranninn, af því að ykkar bú er dálítið stærra. Börnin, sem vinna heima hjá foreldrum sínum, eiga ekki að fá tekjur fyrir sína vinnu, sambærilegar við tekjur annarra vinnandi manna í landinu. Þetta er kveðjan, sem Sósíalistaflokkurinn sendir unga fólkinu í sveitum landsins, sem enn er þar kyrrt við sín störf, en hefur ekki fylgzt með straumnum til kaupstaðanna. Það á að refsa þessu fólki fyrir, að það hefur ekki enn yfirgefið sveitina og flutt sig til Reykjavíkur til að keppa þar um takmarkað húsnæði og keppa um vinnu við verkafólkið, sem þar er fyrir. Það á að níðast á þessu unga fólki og skammta því minna fyrir afurðirnar en öðrum og þar með lægri atvinnutekjur en allir aðrir landsmenn hafa.

Þetta er vitanlega ekkert einsdæmi um framkomu þessa flokks, sem þrátt fyrir slíkar aðfarir dirfist að halda því fram, að hann vilji framfarir í sveitum landsins. Á þessu þingi hafa framsóknarmenn flutt frv. um breytingar á jarðræktarlögunum, sem stefna að því að koma ræktuninni í það horf á næstu 10 árum, að allur heyfengur fáist af ræktuðu, véltæku landi. Fulltrúi Sósíalistaflokksins í þeirri þingnefnd, sem hefur frv. til meðferðar, hefur beitt sér á móti málinu í nefndinni. Hann fylgir þar að málum fulltrúa Alþýðuflokksins og öðrum af tveim fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, flokksins, sem „veit hvað hann vill“ og getur ekki tekið óskiptur á þessu máli fremur en öðrum. Þannig haga sósíalistar sér í þessu máli, þrátt fyrir allt gaspur þeirra um, að þörf sé umbóta í landbúnaðinum. — Einnig má nefna framkomu þeirra í raforkumálum sveita og sjávarþorpa. Þeir flytja till. á þingi um, að ríkisstj. verði heimilað að verja fé til kaupa á rafveituefni. En þegar fram komu frv. um að heimila ríkisstj. að taka innanlandslán til raforkusjóðs, til þess að mögulegt verði að kaupa þetta efni, þá rísa þeir allir gegn því með hinu mesta offorsi. — Þeir hæla sér af því að hafa flutt tillögur þær á þingi um milljónaframlög til eflingar landbúnaði og sjávarútvegi. En það er ljóst, að þeir meina ekki nokkurn skapaðan hlut með þessum tillögum. Þessir sömu menn vilja afnema tollana og svipta ríkissjóð þannig mestum hluta af þeim tekjum, sem hann nú hefur, án þess að benda á nokkrar tekjur í staðinn til að mæta gjöldunum. Og þeir gera meira. Þeir beita sér á móti beinum sköttum, sem þeir hafa þó sagt kjósendum sínum, að þeir væru fylgjandi. Það kom a. m. k. fram í efri deild í dag, þar sem þeir greiddu atkv. gegn verðlækkunarskattinum, sem er beinn skattur. Sama er með eignaraukaskattinn. Þeir hafa tafið og þvælt fyrir því máli á þessu þingi, svo að það er enn í nefnd í fyrri deildinni. Þannig vilja þeir fella niður helztu tekjustofna ríkisins, án þess að finna aðra í staðinn, — og þannig lækka ríkistekjurnar stórkostlega. Það er því hreinn og beinn skrípaleikur, þegar þessir menn koma með till. um stórar fjárveitingar í eitt og annað, til viðbótar þeim gjöldum, sem fyrir eru og þeir hafa átt þátt í að samþykkja. Þetta er augljós skrípaleikur, þar sem þessir sömu menn vilja hindra það, að ríkissjóður hafi nokkra peninga til þessara framkvæmda eða annarra. Væri fylgt þeim fjármálatill. um lækkun á ríkistekjunum, mundi ríkissjóður ekki hafa einseyring til slíkra framtíðarverkefna, og ekki svipað því nóg fé í launagreiðslu og annað, sem nú er á fjárlagafrv. — Till. þeirra um milljónaframlög til verklegra framkvæmda eru því aðeins fram bornar í blekkingarskyni.

Til þess að sýna það, hve snjallir þeir séu í fjármálum, flytja þeir till. um að nota sömu peningana þrisvar sinnum. Ég hef ekki áður heyrt, að neinn fjármálaspekingur hafi komizt svo langt. Í fyrsta lagi vilja þeir fella niður tolla á aðfluttum vörum og lækka með því tekjur ríkisins um tugi milljóna. Í öðru lagi flytja þeir till. um að nota þessar sömu millj. í framlög til landbúnaðar og til smíða á fiskiskipum, og í margt fleira, sem hv. 2. landsk., Þóroddur Guðmundsson, var að telja upp áðan. Og svo í þriðja lagi segja þeir, a. m. k. stundum, að þeir vilji nota þessa sömu peninga til þess að greiða útflutningsuppbætur til „smábænda“. Þannig á að nota sömu peningana þrisvar.

Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að aldrei áður hafi svo stórfelldar blekkingar verið fram bornar í umræðum um landsmál, og eru menn þó ýmsu vanir frá þessum mönnum nú á síðari tímum.

Þannig er allur þeirra ferill. Þeir sögðu kjósendunum fyrir kosningar í fyrra, að þeir vildu taka þátt í umbótastjórn með öðrum flokkum. En eftir að þeir komu á þingið, neituðu þeir stjórnarsamvinnu um umbótamál, svo sem öruggari framkvæmd skattamálanna og margháttaðar ráðstafanir til eflingar atvinnuvegum þjóðarinnar til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi eftir styrjöldina, þar á meðal með því að verja fé til rafveituframkvæmda fyrir sveitir og sjávarþorp.

Fleiri dæmi mætti nefna um falsanir sósíalista. Ég verð að segja það, að ef kjósendurnir taka slíkt fyrir góða vöru, þá horfir óglæsilega um okkar framtíð. Vonir okkar um betra þjóðfélag geta því aðeins rætzt, að þeir stjórnmálaflokkar, sem beita slíkum blekkingum og slíkum starfsaðferðum, uppskeri af þessari iðju verðskuldaða fyrirlitningu þjóðarinnar.