01.11.1943
Efri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

132. mál, fyrning skulda og annarra kröfuréttinda

Flm. (Pétur Magnússon):

Ég hef ásamt hv. þm. Str. leyft mér að flytja þetta litla frv., og get ég alveg látið mér nægja að vísa til þeirrar stuttu grg., sem fylgir frv. — Ég býst við, að það sem ekki skiptar skoðanir um það, að það komi ekki til greina að láta kröfuréttindi, sem erlendir menn kunna að eiga á íslenzka ríkisborgara, sem hér eru búsettir, falla niður fyrir það ástand, sem skapazt hefur við styrjöldina. Hitt gæti fremur verið álitamál, hvernig úr þessu á að bæta. Hér hefur verið valin sú leið að láta fyrningartímann haldast óbreyttan, en aðeins kveða svo á, að þessar kröfur falli ekki niður, fyrr en ár er liðið, frá því að styrjaldarástandið er stöðvað og eðlilegar póstsamgöngur komnar á milli þessara landa og Íslands. Það hefði einnig verið hægt að fara hina leiðina að kveða svo á, að sá tími, frá því að póstsamgöngur stöðvuðust og þangað til þær verða teknar upp aftur, skyldi ekki teljast til fyrningartíma.

Ég geri það að till. minni, að frv. verði vísað til hv. allshn., og ætlast ég þá til, að hún taki það til athugunar, hvor leiðin sé heppilegri. En mér fannst að athuguðu máli, að þessi leið, sem hér er valin, væri óbrotnari og eðlilegri, og hún á að tryggja kröfuhafa jafnvel og hin leiðin, því að eitt ár er nægur tími, til þess að kröfuhafi geti komið fram rétti sínum. Ég vil svo vænta þess, að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn.