17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Magnús Jónsson:

Ég vildi gera grein fyrir mínu atkv. Ég get að ýmsu leyti fallizt á skoðun hv. 1. þm. Eyf. Brtt. við 2. gr. við 2. umr. virtist mér þá í fljótu bragði alveg óviðunandi og greiddi atkv. móti henni. En þessi styrka stofnun, stórstúkan, er hálfopinbert fyrirtæki. Við nánari athugun hef ég sannfærzt um, að óhætt sé að samþ. frv. eins og það er. Hælið er bæði rekið af ríkissjóði, svo að ráðherra hlýtur að hafa ráð þess í hendi sér, og beint er tekið fram, að það sé undir yfirstjórn hans. Hann getur vikið stjórnarmönnum þess frá alveg hiklaust, og samþykki hans þarf til allra ráðninga og stjórnarnefndarskipunar. Það er laukrétt hugsun, sem n. hefur með brtt. viljað koma inn í frv. skýrar en áður, að stórstúkan skuli annast þetta. Það er rétt stefna að fela stofnunum með séráhuga á slíkum málum að annast framkvæmdir í þeim, a. m. k. meðan reksturinn er að komast í fast horf. Varla er hægt að vænta, að aðrir geri það betur, enda eiga þær sóma síns og metnaðar að gæta.